Hoppa yfir valmynd
26. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mannafla- og færnispár á íslenskum vinnumarkaði

Ásmundur Einar Daðason og Sigurður Björnsson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands - mynd

greining sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands  hefur gert á íslenskum vinnumarkaði var kynnt Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra á fundi í gær, samhliða afhendingu sérfræðingahóps á tillögum til ráðherra um það hvernig haga megi reglubundnu mati á færni-, menntunar-, og mannaflaþörf á vinnumarkaði til framtíðar.

Hér á landi hefur aldrei áður verið gerð greining á vinnumarkaðinum eins og sú sem Hagfræðistofnun Háskólans hefur nú gert en greiningin veitir margvíslegar upplýsingar um menntun vinnuaflsins, meðalaldur innan ólíkra starfsstétta, aldursþróunina á liðnum árum, kynjahlutföll og marga aðra þætti sem snerta samspil starfa og hæfni vinnuaflsins.

Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa undanfarin ár verið sammála um mikilvægi þess að færni- menntunar- og mannaflaþörf á íslenskum vinnumarkaði sé betur greind. Vegna skorts á upplýsingum hvað þetta varðar hafa Íslendingar verið eftirbátar nágrannaþjóða þegar kemur að heildarstefnumótun í þessum efnum.

Fulltrúar frá Vinnumálastofnun, Alþýðusambandi Íslands, Hagstofu Íslands og Samtökum Atvinnulífsins sátu í sérfræðingahópnum sem í vinnu sinni skoðaði ítarlega færnispár annarra þjóða og þá sérstaklega hvernig Finnar, Svíar og Írar standa að þessum málum en þeir eru taldir meðal fremstu þjóða á sviði vinnumarkaðsgreininga og gerð færni- og mannaflaspáa eins og hér um ræðir.

Í skýrslu sérfræðingahópsins segir að ólíkt flestum vestrænum ríkjum hafi Íslendingar ekki lagt kerfisbundið mat á færni-, menntunar- eða mannaflaþörf á vinnumarkaði til lengri tíma. Vaxandi skilningur sé þó á mikilvægi þess að hér sé ekki aðeins menntað vinnuafl, heldur að menntunin henti atvinnulífinu og þeim störfum sem eru á vinnumarkaði. Lykilatriði í því er að fjárfest sé í réttri menntun og færni, segja sérfræðingarnir. Í skýrslu þeirra kemur m.a. fram að hlutfall þeirra sem ekki hafa lokið formlegri menntun hér á landi sé enn yfir meðaltali OECD. Um fjórðungur fólks á aldrinum 25 – 34 ára hafi ekki lokið formlegri menntun á framhaldsskólastigi og þar séu karlar í meiri hluta. Á sama tíma hafi háskólamenntuðum fjölgað verulega:

 „Frá hruni hefur sú þróun orðið skýrari að vaxandi misræmi er milli menntunar og starfa á vinnumarkaði. Ein birtingarmynd þessa misræmis er fjölgun háskólamenntaðra á vinnumarkaði, á sama tíma og störfum fyrir ýmsa hópa háskólamenntaðra hefur ekki fjölgað í sama mæli. Misræmið leiðir til þess að einstaklingar ráða sig í störf sem þeir eru annað hvort of færir í eða störf sem krefjast færni sem þá skortir. Slíkt misræmi á vinnumarkaði felur í sér efnahagslegan kostnað, t.d. lægri framleiðni og kostnað við ónýtta færniþróun, en misræmið dregur einnig úr starfsánægju, hefur neikvæð áhrif á tekjur og hefur neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku og atvinnuleysi“ segir m.a. í skýrslu sérfræðingahópsins.

Tillögur sérfræðingahópsins til ráðherra fela í sér ábendingar um aðgerðir og leiðir til að koma á reglubundnu og kerfisbundnu mati á færni-, menntunar-, og mannaflaþörf á vinnumarkaði til framtíðar.

Áhrif örra tæknibreytinga á vinnumarkaðinn

Félags- og jafnréttismálaráðherra fagnar, tillögum hópsins og segir það vera forgangsmál fyrir samfélagið að það liggi fyrir hvaða menntunar, færni og þekkingar sé þörf fyrir á vinnumarkaðinum á hverjum tíma. „Við þurfum alltaf að horfa til framtíðar í þessum efnum, sjá fyrir eins og hægt er hvaða breytingar eru í farvatninu og bregðast við í samræmi við það. Við lifum á tímum örra tæknibreytinga sem er nokkuð ljóst að muni á tiltölulega skömmum tíma gjörbreyta vinnumarkaðinum og þörfum hans. Við þurfum að búa okkur undir þetta og halda vöku okkar til að gera íslenskt samfélag sterkara“ segir Ásmundur Einar Daðason.

 

Á myndinni hér að neðan má sjá ásamt ráðherra þá Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Karl Sigurðsson frá Vinnumálastofnun, Ólaf Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins og Anton Karlsson frá Hagstofu Íslands.

Ráðherra með sérfræðingahópnum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta