Fjölmörgum framkvæmdum flýtt í endurskoðaðri samgönguáætlun
Drög að samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 31. október 2019. Í samgönguáætluninni er sérstök áhersla lögð á að flýta framkvæmdum innan tímabilsins frá því sem áður var. Einnig eru nýjar stefnur kynntar um flug á Íslandi og almenningssamgöngur milli byggða.
Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun til fimmtán ára á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi síðasta vetur. Einnig er kynnt uppfærð aðgerðaáætlun fyrir fyrsta tímabilið 2020-2024.
- Skoða drög að samgönguáætlun 2020-2034 í samráðsgátt
- Skoða drög að aðgerðaáætlun 2020-2024 í samráðsgátt
- Vefsvæði um samgönguáætlun 2020-2034
Bein framlög til samgöngumála nema alls tæpum 633 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar. Til vegagerðar falla tæp 560 milljarðar, um 37 milljarðar til flugvalla og flugleiðsögu, rúmir 14 milljarðar til hafnamála, rúmir 19 milljarðar í stjórnsýslu, öryggi og eftirlit og rúmir 2,5 milljarðar til Rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Betri samgöngur, sterkara samfélag
„Það er þörf á samgöngubótum um land allt og það er bjargföst trú mín að með betri og fjölbreyttari samgöngum megi byggja sterkara samfélag. Aukið öryggi á vegum skiptir höfuðmáli en sömuleiðis framkvæmdir til að stytta leið fólks milli byggðarlaga sem aftur eflir atvinnusvæðin,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en hann kynnti endurskoðaða samgönguáætlun á morgunfundi ráðuneytisins í Norræna húsinu í morgun.Þegar samgönguáætlun 2019-2033 og aðgerðaáætlun 2019-2023 voru samþykktar á Alþingi síðasta vetur var ljóst að endurskoða yrði áætlunina fyrr en lög gera ráð fyrir. Var það byggt á brýnni þörf á samgöngubótum um land allt, endurskoðun á fjármögnun samgangna til framtíðar og vegna vinnu við að útfæra samkomulag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.Helstu atriði í uppfærðri samgönguáætlun:
- Við endurskoðun fjármálaáætlunar síðasta vor var samþykkt að auka framlög til vegagerðar umtalsvert. Þeim fjármunum er m.a. ráðstafað í aukin framlög til nýframkvæmda, viðhalds vega og þjónustu. Framlögin hækka um 4 milljarða á ári á tímabilinu 2020-2024 frá því sem áður var.
- Fjölmörgum framkvæmdum er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Á tímabilinu verður framkvæmdum, sem í heild eru metnar á um 214,3 milljarða króna, flýtt. Þar af eru framkvæmdir fyrir um 125,5 milljarða króna utan höfuðborgarsvæðisins og 88,8 milljarða króna í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
- Kynnt eru áform um helstu verkefni sem geta hentað vel fyrir samvinnuverkefni (PPP) ríkis og opinberra aðila en slík fjármögnun getur flýtt mörgum verkefna samgönguáætlunar.
- Sérstök jarðgangaáætlun er kynnt en þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist þegar á árinu 2022.
- Bein fjármögnun ríkisins í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er staðfest í samgönguáætluninni. Sáttmáli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu felur í sér sameiginlega sýn og heildarhugsun fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu.
- Unnið verður að framkvæmdum til að aðskilja akstursstefnur frá höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi, austur fyrir Hellu og að Leifsstöð.
- Drög að fyrstu flugstefnu Íslands er kynnt með tólf lykilviðfangsefnum.
- Drög að fyrstu heildarstefnu um almenningssamgöngur milli byggða er kynnt með sex lykilviðgangsefnum.
Framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjast 2022
Sérstök jarðgangaáætlun birtist nú í samgönguáætlun. Miðað er við að jafnaði sé unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng ljúki árið 2020. Þá er miðað við að flýta upphafi framkvæmda við Fjarðarheiðargöng þannig að þær hefjist árið 2022 eða talsvert fyrr en áður hefur verið ráðgert. Fjarðarheiðargöng eru sett í forgang, í samræmi við niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að verkefnið muni klárast á gildistíma áætlunarinnar.
Í kjölfarið hefjast framkvæmdir á göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og síðan frá Mjóafirði til Norðfjarðar og þannig verði komið á hringtengingu á svæðinu.
Gert er ráð fyrir því að framlög af samgönguáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Þá er stefnt að því að gjaldtaka af umferð í jarðgöngum á Íslandi standi undir hinum helmingi kostnaðar við framkvæmdir en einnig að sú innheimta muni fjármagna rekstur og viðhald ganganna að framkvæmdum loknum.
Samvinnuverkefni geta flýtt framkvæmdum
Í samgönguáætluninni er lögð enn meiri áhersla en áður á að auka samvinnu milli hins opinbera og einkaaðila við að hraða uppbyggingu framkvæmda, sem í senn auka umferðaröryggi og eru þjóðhagslega hagkvæm. Nokkrar stærri framkvæmdir eru tilgreindar sem hentugar í slík samvinnuverkefni svo sem Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Framkvæmdir sem bjóða upp á vegstyttingu og val um aðra leið koma einnig til greina eins og ný brú yfir Ölfusá og jarðgöng um Reynisfjall/láglendisvegur um Mýrdal. Að endingu er einnig stefnt að því að einstaka framkvæmdir verði fjármagnaðar að hluta með þessum hætti eins og ný brú yfir Hornafjarðarfljót og vegur yfir Öxi.
Helstu framkvæmdir sem flýtt verður (verkefni yfir 1 ma. kr.)
Suðursvæði 1 og 2
- Aðskildar aksturstefnur frá Skeiðavegamótum að Hellu – klárað á 3. tímabili – 8 ma.kr.
- Brú á Ölfusá – samvinnuverkefni – 6 ma.kr.
- Varmá-Kambar – klárað á 1. tímabili – 2,7 ma.kr.
- Aðskildar akstursstefnur Fitjar-Rósaselstorg – klárað á 2. tímabili – 3 ma. kr.
Vestursvæði
- Aðskildar akstursstefnur Akrafjallsvegur-Borgarnes – klárað á 2. og 3. tímabili – 8 ma. kr.
- Dynjandisheiði – klárað á 1. tímabili – 5,8 ma. kr.
- Bíldudalsvegur-Vestfjarðavegur – klárað á 2. tímabili – 4,8 ma. kr.
Norðursvæði
- Brekknaheiði – klárað á 1. tímabili – 1,1 ma. kr.
- Vatnsnesvegur – nýtt – 3 ma. kr.
Austursvæði
- Reyðarfjörður-Breiðdalsvík – klárað á 3. tímabili – 4,8 ma. kr.
- Um Lón – klárað á 3. tímabili – 3 ma. kr.
- Hornafjarðarfljót – klárað á 1. tímabili (gjaldtaka) – 4,9 ma. kr.
- Axarvegur – klárað á 1. tímabili (gjaldtaka) – 2,8 ma. kr.
- Fjarðarheiðargöng – klárað á tímabili áætlunar – 35 ma. kr.
- Mjóafjarðargöng/Seyðisfjarðargöng – Nýtt (50% á þriðja tímabili – 30,8 ma. kr.
Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins
- Borgarlína – nýtt – 49,6 ma. kr.
- Miklabraut í stokk – unnið á 2. og 3. tímabili – 21,8 ma. kr.
- Stokkur í Garðabæ – klárað á 3. tímabili – 7,6 ma. kr.
- Holtavegur-Stekkjabakki – klárað á 1. tímabili – 2,2 ma. kr.
- Rjúpnavegur-Breiðholtsbraut – klárað á 1. tímabili – 1,6 ma. kr.
- Hjóla- og göngustígar – sérstök fjárveiting fyrir hbsv. – 6 ma. kr.
Stefnumótun fyrir flug og almenningssamgöngur
Samhliða samgönguáætluninni eru í fyrsta sinn kynnt drög að flugstefnu Íslands annars vegar og stefnu í almenningssamgöngum milli byggða hins vegar. Birtast þar leiðarvísar og lykilviðfangsefni til framtíðar með það að markmiði að styrkja og efla málaflokkana sem skipta þjóðina alla miklu máli.
Tilgangur með mótun flugstefnu er að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi og styður vöxt hennar.
Í tillögu að heildarstefnu um almenningssamgöngum milli byggða er lagt til að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild og boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið með bættu aðgengi.
- Skoða drög að flugstefnu Íslands í samráðsgátt
- Skoða drög að stefnu í almenningssamgöngum milli byggða í samráðsgátt
Samfélagsmál
Við gerð samgönguáætlunar er unnið í takt við fimm meginmarkmið að samgöngur séu öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.
Í samgönguáætluninni er sérstaklega fjallað um að gert verði átak í að jafna stöðu kynja í atvinnugreinum tengdum samgöngum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið stóð nýlega að ráðstefnu um konur og siglingar þar sem fjallað var um mikilvægi þess að gera störf til sjávar eftirsóknarverð fyrir konur.
Þá er loks fjallað um mikilvægi þess að í stefnumótun um málaflokkinn verði tekið tillit til þarfa barna og ungmenna sem eru virkir þátttakendur í samgöngum. Efnt verður til ráðstefnu um börn og samgöngur föstudaginn 8. nóvember nk.