Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2020 Forsætisráðuneytið

871/2020. Úrskurður frá 14. febrúar 2020

Úrskurður

Hinn 14. febrúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 871/2020 í máli ÚNU 19080002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 1. ágúst 2019, kærði A afgreiðslu Grindavíkurbæjar á beiðni hans um aðgang að tilteknum rekstrarreikningum sveitarfélagsins.

Með erindi, dags. 3. júlí 2019, óskaði kærandi eftir 1) sundurliðuðum rekstrarreikningi sem tilgreindi tekjur og gjöld vegna reksturs byggingarfulltrúa árin 2017 og 2018, 2) sundurliðuðum rekstrarreikningi vegna geymslusvæðis Grindavíkurbæjar í Moldarlág sömu ár, og 3) sundurliðuðum rekstrarreikningum tekna og gjalda allra þeirra rekstrareininga sem fjármagnaðar væru af þjónustugjöldum og taldir væru upp í ársreikningum Grindavíkurbæjar sömu ár.

Kæranda var svarað með erindi, dags. 5. júlí 2019, og honum afhentar svonefndar sundurliðunarbækur áranna 2017 og 2018. Í þeim voru upplýsingar um tekjur og gjöld vegna byggingareftirlits en ekki sundurliðun vegna geymslusvæðis í Moldarlág. Grindavíkurbæ barst erindi frá kæranda, dags. 15. júlí 2019, þar sem ítrekuð var beiðni um sundurliðun rekstrarreiknings vegna geymslusvæðis í Moldarlág árin 2017 og 2018. Vísað var til tiltekinnar reglugerðar um að skylt væri að sundurliða tekjur og gjöld vegna rekstrareininga sem fjármagnaðar væru af þjónustugjöldum. Erindinu var svarað samdægurs og kæranda tjáð að tekjur af geymslusvæði í Moldarlág væru eignatekjur en ekki þjónustutekjur. Þá væri umrædd reglugerð sem kærandi hafði vísað til ekki í gildi.

Í kæru er þess krafist að kærandi fái aðgang að upplýsingum um tekjur og gjöld vegna reksturs byggingarfulltrúa af einstökum verkefnum árin 2017 og 2018. Í lagaákvæði gjaldskrár fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld Grindavíkurbæjar sé ekki heimild fyrir sameiginlegum rekstrarreikningi skipulags- og byggingarfulltrúa og þaðan af síður að rekstrarreikningur byggingarfulltrúa innihaldi sameiginlegan rekstur annarra embætta. Í kærunni er svo ítrekuð krafa um aðgang að sundurliðuðum rekstrarreikningi vegna geymslusvæðis í Moldarlág.

Málsmeðferð

Með erindi, dags. 7. ágúst 2019, var kæran kynnt Grindavíkurbæ og því beint til sveitar-félagsins að taka ákvörðun um að afgreiða beiðni kæranda um gögn eins fljótt og því yrði við komið. Í umsögn Grindavíkurbæjar, dags. 20. ágúst 2019, kemur fram að erindi kæranda frá 3. júlí 2019 hafi verið svarað 5. júlí. Því eigi kæran ekki við nein rök að styðjast þar sem kæranda hafi ekki á nokkurn hátt verið synjað um aðgang að upplýsingum.

Umsögn Grindavíkurbæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 20. ágúst 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ítrekun kæru barst úrskurðarnefndinni 29. ágúst 2019 og fylgiskjöl með kærunni bárust 9. september 2019.

Með erindi, dags. 12. desember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari skýringum frá Grindavíkurbæ á því hvort þær upplýsingar sem kærandi hefði óskað eftir, þ.e. sundurliðuðum rekstrarreikningum vegna reksturs byggingarfulltrúa og geymslusvæðis í Moldarlág, hefðu verið meðal þeirra upplýsinga sem fram komu í sundurliðunarbókum áranna 2017 og 2018 sem afhentar voru kæranda. Óskaði nefndin jafnframt eftir afritum af sundurliðunarbókunum.

Í svari Grindavíkurbæjar sem barst samdægurs kom fram að upplýsingar um tekjur og gjöld vegna byggingareftirlits væri að finna í sundurliðunarbókum áranna 2017 og 2018. Hvað varðaði sundurliðun vegna geymslusvæðis í Moldarlág lægi hún ekki fyrir hjá sveitarfélaginu. Svari Grindavíkurbæjar fylgdi afrit af sundurliðunarbókunum. Í nánari skýringum sveitarfélagsins, dags. 13. desember 2019, kemur fram að sundurliðun bókhalds hjá Grindavíkurbæ sé í samræmi við lagafyrirmæli þar að lútandi, þar sem hvorki sé gert ráð fyrir að skilja þurfi að skipulagsmál og byggingareftirlit, né að sundurliða þurfi þá liði frekar í rekstrarreikningi. Í þeim sundurliðunarbókum sem afhentar hafi verið kæranda og úrskurðarnefndinni séu upplýsingar um þá rekstrarreikninga sem liggi fyrir hjá sveitarfélaginu.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Grindavíkurbæjar á beiðni kæranda um aðgang að sundurliðuðum rekstrarreikningi sem tilgreini tekjur og gjöld vegna reksturs byggingarfulltrúa árin 2017 og 2018 og sundurliðuðum rekstrarreikningi vegna geymslusvæðis Grindavíkurbæjar í Moldarlág sömu ár.

Fram hefur komið hjá Grindavíkurbæ að kæranda hafi verið afhentar sundurliðunarbækur fyrir árin 2017 og 2018, sem séu gerðar í tengslum við ársuppgjör bæjarins. Þar sé að finna rekstrarreikning sem sýni tekjur og gjöld vegna byggingareftirlits. Hins vegar liggi ekki fyrir rekstrarreikningur sem sýni tekjur og gjöld vegna byggingarfulltrúa bæjarins, eins og sér. Þá liggi ekki fyrir sundurliðun vegna geymslusvæðis í Moldarlág. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa að þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir liggi ekki fyrir hjá Grindavíkurbæ á því formi sem hann hefur óskað eftir.

Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá Grindavíkurbæ í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 1. ágúst 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta