Hoppa yfir valmynd
21. desember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 782/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 21. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 782/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23110098 og KNU23110099

 

Kæra [...] og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 21. nóvember 2023 kærðu [...], fd. [...] (hér eftir nefnd A) og [...], fd. [...] (hér eftir nefndur B), ríkisborgarar Kína, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 14. nóvember 2023, um að synja þeim um vegabréfsáritanir til Íslands.

Af kæru má ráða að kærendur krefjist þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veittar vegabréfsáritanir til Íslands.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og bárust kærur þeirra fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með umsóknum, dags. 7. nóvember 2023, óskuðu kærendur eftir vegabréfsáritunum til Íslands og Schengen-svæðisins í átta daga, frá 7. til 14. febrúar 2024. Umsóknum kærenda var synjað með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 14. nóvember 2023. Hinn 21. nóvember 2023 bárust kærunefnd kærur frá kærendum ásamt greinargerðum og fylgigögnum. Frekari gögn voru lögð fram með tölvubréfum 27. og 28. nóvember 2023.

III.    Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð A vísar hún til umsóknar sinnar og þeirra synjunarástæðna sem ákvörðun Útlendingastofnunar byggist á. Hún kveðst vilja heimsækja Ísland og vísar til nokkurra tiltekinna ferðamannastaða. Vísað er til þess að einn aðili úr fjögurra manna hópi A hafi þegar fengið útgefna vegabréfsáritun, en ferð A grundvallast á sömu ferðaáætlun. A kveðst hafa stöðuga atvinnu og stöðugar tekjur. Vísað er til nýrrar atvinnustaðfestingar, en fyrri atvinnustaðfesting A hafi skort tilteknar upplýsingar, svo sem um heimild til þess að taka sér leyfi og upplýsingar um áframhaldandi ráðningarsamband að ferð lokinni. Í greinargerð B er vísað til sambærilegra atriða og í greinargerð A að viðbættum upplýsingum um lán til ættingja síns sem kemur fram á bankayfirliti B. Einnig eru tilgreindar upplýsingar sem hafi skort á atvinnustaðfestingu B, líkt og í tilfelli A.

Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru ljósmynd af áritun ferðafélaga kæranda og nýjar atvinnustaðfestingar beggja kærenda.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Kína þurfa vegabréfsáritun til Íslands, sbr. viðauka 8 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Með aðild að Schengen-samstarfinu tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu. 

Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í tilteknum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem tilgreind eru í ákvæðinu er ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.

Synjunarform Útlendingastofnunar er staðlað form sem öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins notast við. Í forminu er hægt að merkja við reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsóknum sé synjað. Í ákvörðunum kærenda er merkt í reiti 2 og 10 vegna synjunar á umsóknum þeirra, þ.e. að veittar upplýsingar hafi ekki verið áreiðanlegar og ekki hafi verið færð rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar. Í ákvörðunum kærenda má líka finna frekari athugasemdir. Í tilviki A hafi rekstrarleyfi vinnuveitanda ekki verið stimplað og atvinnustaðfesting verið ófullnægjandi. Í tilviki B hafi atvinnustaðfesting verið ófullnægjandi og rekstrarleyfi vinnuveitanda ekki verið lagt fram. Uppfylltu kærendur þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kærendum jafnframt leiðbeint um að þau gætu óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir skriflegur rökstuðningur vegna ákvarðana kærenda.

Meðferð umsókna kærenda fór fram hjá íslenska sendiráðinu í Peking, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.

Líkt og þegar hefur komið fram lögðu kærendur fram nýjar atvinnustaðfestingar á kærustigi en í málaskrá Útlendingastofnunar koma fram nánari útlistanir á því að hvaða leyti fyrri atvinnustaðfestingar hafi verið ófullnægjandi. Þar er einnig tekið fram, og vísað til gátlista kærenda, sem undirritaðir voru 7. nóvember 2023, að rekstrarleyfi vinnuveitenda þeirra hafi ýmist skort að öllu leyti eða ekki verið stimplað á fullnægjandi vegu. Þá undirrituðu kærendur yfirlýsingar, þar sem fram kom að n.t.t. fylgigögn skorti og að þeim væri veittur fimm daga frestur til þess að bæta úr. Bæði lögðu þau fram skýringar á rekstrarleyfum sínum við meðferð mála þeirra hjá utanríkisþjónustunni, sem dagsettar eru 7. nóvember 2023. Bæði kveðast þau starfa fyrir einkarekin fyrirtæki og að aðgengi að stimpluðu rekstrarleyfi sé afar takmarkað. Falli persónuleg ferðalög ekki undir takmarkað aðgengi vinnuveitandans að slíku leyfi, að sögn kærenda.

Samkvæmt framangreindu réðst niðurstaða mála kærenda hjá Útlendingastofnun hvort tveggja á ófullnægjandi atvinnustaðfestingum svo og rekstrarleyfum atvinnuveitenda sem voru ýmist ófullnægjandi eða ekki lögð fram. Hvort um sig væri nægjanleg ástæða til þess að synja umsóknum kæranda um vegabréfsáritanir, sbr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Kærendur hafa lagt fram gögn sem hnekkja annarri forsendu ákvarðana Útlendingastofnunar en hin stendur óhögguð. Að mati kærunefndar eru því framkomin gögn og málsástæður kæranda ekki þess eðlis að ástæða sé til að hnekkja mati Útlendingastofnunar á umsóknum þeirra um vegabréfsáritanir.

Að öllu framangreindu virtu tekur kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að ekki væru færð rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar, sbr. ii-lið a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Hafi þannig verið ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kærenda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Verða hinar kærðu ákvarðanir um að synja kærendum um vegabréfsáritanir til landsins því staðfestar.

Loks bendir kærunefnd á að kærendur geti sótt um vegabréfsáritanir að nýju, telji þau sig uppfylla skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritunar.


 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

 

The decisions of the Directorate of Immigration in the appellants cases are affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta