Unnið að samningi um loftslagsvæn viðskipti
Viðskiptareglur sem taka tillit til loftslagsbreytinga og sjálfbærrar þróunar eru mikilvægur liður í því að markmið Parísarsamningsins náist, sem og að viðskiptalífið leggi aukna áherslu á sjálfbæra þróun. Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á ráðherrafundi um samning um loftslagsbreytingar, viðskipti og sjálfbæra þróun (Agreemen on Climate Change, Trade and Sustainability - ACCTS) sem haldinn var undir forystu Nýja Sjálands á Loftslagsráðstefnunni í Glasgow í dag. Upphaf þessa máls má rekja til fundar og yfirlýsingar forsætisráðherra Íslands, Noregs, Nýja Sjálands, Fídjieyja og Kosta Ríka í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2019. Samningaviðræður sem Ísland tekur þátt í hafa verið í gangi í eitt ár.
Ráðherra sagði viðskipti vega þungt í aðgerðum til að draga úr loftslagsbreytingum. Með þeim megi hampa umhverfisvænum framleiðsluaðferðum og vekja athygli á vörum og þjónustu sem beri minna kolefnisspor. Viðskiptareglur geti verið mikilvægur liður í aðlögunaraðgerðum og til að styðja við loftslagsvæna framleiðslu. Með þeim megi hamla mengandi viðskiptaháttum og hampa grænni framleiðslu. Sagði Guðmundur Ingi metnaðarfullan ACCTS samning geta verið mikilvægt skref í þeim efnum.
Ráðherra átti einnig fund með Inger Andersen, framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Á fundinum ræddi ráðherra mikilvægi þess að tillaga um að hafnar verði samningaviðræður um gerð nýs alþjóðasamnings um plastmengun í hafi verði samþykkt á næsta umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður í Nairobi í Kenýa í febrúar á næsta ári.
Þá rifjaði Guðmundur Ingi upp undirritun viljayfirlýsingar sem hann og Inger Andersen skrifuðu undir árið 2019 um samstarf á sviði endurheimtar vistkerfa og sjálfbærrar landnýtingar. Ísland og UNEP eigi nú í góðu samstarfi á þessu sviði í þróunarríkjum, auk verkefna í jarðhita. Ísland væri þannig komið með þróunarverkefni í Afríkuríkjum sunnan Sahara, sem falli vel að áherslum loftslagsráðstefnunnar í Glasgow um að eyðingu skóga verði hætt, sem og að yfirstandandi áratugar vistheimtar.
Guðmundur Ingi átti tvíhliða fund með loftslagsráðherra Skotlands, Michael Matheson, sem einnig er ráðherra orkumála og samgangna. Matheson greindi frá áformum Skota í orkuskiptum og náttúrulegum lausnum, sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Meðal annars er áformað mikið átak í vindorku, bæði á landi og á hafi, en Skotar eru framarlega í beislun vindorku með fljótandi vindmyllum fjarri ströndum. Einnig leggja þeir áherslu á niðurdælingu og geymslu kolefnis, en Matheson lýsti yfir miklum áhuga á Carbfix-verkefninu á Hellisheiði. Loftslagsmál hefðu fengið stóraukið vægi í heimastjórn Skotlands. Ráðherrarnir töldu að flötur væri á samstarfi Skota og Íslendinga á sviði loftslagsmála, grænna lausna og náttúruverndar, sem vert væri að fylgja eftir.