Hoppa yfir valmynd
24. október 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hæst hlutfall háskólamenntaðra á Íslandi

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 24. október 2018.
Samkvæmt nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um menntatölfræði eru meginstyrkleikar íslenska menntakerfisins gott aðgengi að menntun og góð samskipti nemenda og kennara. Skýrslan „Menntun í brennidepli“ tekur nú í fyrsta sinn mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er því sérstaklega fjallað þar um jöfn tækifæri til náms og hvernig félagslegar aðstæður, uppruni og kyn hafa áhrif á skólasókn og menntunarstig.

Fram kemur í skýrslunni að fjárfestingar okkar í menntakerfinu hafa aukist og að hér sé mjög hátt hlutfall háskólamenntaðra í alþjóðlegum samanburði sem og mikil atvinnuþátttaka. Hlutfall háskólamenntaðra á aldrinum 25-64 ára er einna hæst hér og í Danmörku af Norðurlöndum. Í aldurshópnum 25-64 ára höfðu 21% Íslendinga og Dana lokið grunnnámi á háskólastigi árið 2017 en það hlutfall er 17% í Svíþjóð og Finnlandi og 19% í Noregi. Þegar horft er á hlutfall kynjanna og þróunina síðustu 10 ár má sjá hversu hratt menntunarstig þjóðarinnar hefur vaxið. Hlutfall háskólamenntaðra karla á aldrinum 25-34 ára á Íslandi hefur aukist um 10 prósentustig á 10 árum meðan hlutfall háskólamenntaðra kvenna hefur aukist um 20 prósentustig. Þetta er umtalsverð aukning á svo skömmum tíma og ekki síst þegar tekið er tillit til þess að þrátt fyrir hana telst atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum mjög lágt hér á alþjóðlegan mælikvarða.

Ein áskorun sem mörg ríki stríða við er hátt atvinnuleysi meðal ungs fólks sem hverfur frá námi og fær ekki vinnu. Ísland stendur áberandi vel að vígi að þessu leyti, þrátt fyrir að brotthvarf úr námi hafi verið viðvarandi á framhaldsskólastigi. Ef litið er á aldursbilið 18 til 24 ára eru aðeins 5% íslenskra ungmenna hvorki í skóla né vinnu og er það lægsta hlutfall meðal ríkja OECD.
Skólasókn dreifist líka yfir lengra tímabil hér á landi, algengt er í samanburðarlöndum okkar að skólasókn sé há á aldrinum 15-19 ára en minnki svo en hér er mjög hátt hlutfall ungs fólks á aldrinum 25-29 ára í skóla. Ungt fólk notfærir sér í auknum mæli tækifæri í atvinnulífinu og frestar skólagöngu en snýr aftur eftir að hafa náð sér í starfsreynslu. Hvort þetta er jákvætt eða neikvætt er matsatriði, en sú hætta er fyrir hendi að hópar hverfi alfarið frá námi og ljúki ekki skólagöngu á framhaldsskólastigi.

Menntatölfræði skiptir okkur miklu við stefnumótun og ákvarðanatöku og samfella í þeim mælingum er afar mikilvæg. Tekið verður mið af skýrslum og greiningarvinnu sem fyrir liggja og sjónum beint að þessum áskorunum í yfirstandandi vinnu við mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030. Um leið og við fögnum fjölgun háskólamenntaðra á Íslandi vil ég einnig óska Bandalagi háskólamanna til hamingju með 60 ára starfsafmæli félagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta