Fundaði með vinnumarkaðsráðherrum OECD
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tók þátt í ráðherrafundi OECD ríkjanna um vinnumarkaðsmál í París í dag. Umræðuefnið var vinnumarkaðurinn eftir kórónuveirufaraldurinn þar sem aðaláherslan var á þann lærdóm sem við getum dregið af faraldrinum og hvernig við tökumst á við nýjar aðsteðjandi áskoranir. Þá var áhersla á hvernig ríki sæju fyrir að sér að draga mætti úr ójöfnuði og koma í veg fyrir skarpan samdrátt í efnahagslífinu vegna óvæntra atburða. Ráðherra tók einnig þátt í hádegisfundi þar sem fjallað var um árás Rússa á Úkraínu og ýmsar áskoranir sem löndin hafa tekist á við varðandi móttöku fólks frá Úkraínu. Þá sat ráðherra sérstaka málstofu um hvernig mætti auka aðgengi og þátttöku sem flestra á vinnumarkaði.
Ráðherra átti einnig fund með vinnumarkaðsráðherra Austurríkis, Dr. Martin Kocher. Á fundinum ræddu ráðherrarnir um vinnumarkaði Íslands og Austurríkis með áherslu á viðbrögð við atvinnuleysi og atvinnuþátttöku fatlaðs fólks, innflytjenda og ungs fólks sem er ekki í virkni, og hvernig löndin hafa unnið að stefnumótun til að auðvelda flóttafólki aðgengi að vinnumarkaðinum.
Félags- og vinnumarkaðsráðherra fór yfir áherslur sínar í vinnumarkaðsmálum en hann hefur lagt mikla áherslu á að efla atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði og fjölga markvisst starfstækifærum fólks með mismikla starfsgetu. Sagði ráðherra að lykilatriði sé að þjálfa fólk til starfa á almennum vinnumarkaði, hjálpa því að finna vinnu og aðstoða það við að halda henni. Leggja þurfi áherslu á samstarf við fyrirtæki á almennum vinnumarkaði og horfa til þess hvernig hægt sé að vinna stefnumótun til lengri framtíðar í atvinnumálum jaðarhópa. Hafði austurríski ráðherrann mikinn áhuga á verkefnum sem félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur nýlega styrkt, meðal annars hjá Vinnumálastofnun og Þroskahjálp, þar sem greitt er fyrir ráðningum einstaklinga með mismikla starfsgetu.
Þá ræddu ráðherrarnir líka um græn umskipti á vinnumarkaði en þar bíða ríkjum heims stórar áskoranir þar sem mikilvægt er að eiga gott samtal um leiðir að sameiginlegum markmiðum.