Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 53/2018 Úrskurður 14. ágúst 2018

Mál nr. 53/2018                    Eiginnafn:     Júlí (kvk.)

 

 

 

 

Hinn 14. ágúst 2018 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 53/2018 en erindið barst nefndinni 2. júlí.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

1.      Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

2.      Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.

3.      Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

4.      Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

5.      Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Í þessu máli reynir á ákvæðið í 4. lið hér að ofan (ákvæðið samsvarar 2. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn), en nafnið Júlí er skráð sem karlmannsnafn á mannanafnaskrá. Hins vegar verður að líta til þess að ákvæðið felur ekki í sér bann við því að nafn sé bæði karlmannsnafn og kvenmannsnafn. Fordæmi eru fyrir því að nöfn séu á skrá yfir bæði karlmannsnöfn og kvenmannsnöfn, sbr. nöfnin Auður, Blær og Júní.

Í úrskurði mannanafnanefndar í máli 73/2013 um Auður (kk.) var bent á að karlmannsnafnið Auður kemur fyrir í fornritunum Landnámabók og Harðarsögu og því mætti líta svo á að í íslensku máli væri hefð fyrir nafninu sem karlmannsnafn, en nafnið á sér auk þess vitaskuld ríka hefð sem kvenmannsnafn. Í máli 17/2013 um Blær (kvk.) kvað mannanafnanefnd upp þann úrskurð að nafnið Blær bæri að færa á mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn, en áður hafði nafnið verið á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Í úrskurðinum var litið til þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafði, í máli nr. E-721/2012, viðurkennt rétt einstaklings til þess að bera nafnið Blær sem kvenmannsnafn og byggt ákvörðun sína á því mati að næg fordæmi væru fyrir nafninu sem kvenmannsnafn. Í niðurstöðu dómsins var meðal annars bent á að eitt fordæmi væri fyrir því að íslensk kona bæri nafnið Blær í þjóðskrá. Í máli 4/2014 um Júní (kvk.) samþykkti mannanafnanefnd beiðni um kvenmannsnafnið Júní þótt áður hefði sama nafn, að undangengnum úrskurði í máli 65/2008 (Júní (kk.), verið fært á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Í úrskurðinum var horft til þess að lítil hefð væri fyrir nafninu Júní á Íslandi og því væri ekki hægt að líta svo á að nafnið gæti ekki verið kvenmannsnafn í íslensku þótt áður hefði það verið notað sem karlmannsnafn í einhverjum tilvikum. Einnig var tekið mið af því að almennt væru heiti mánaða, sem notuð eru í tímatali á Íslandi, ýmist notuð sem nöfn fyrir karlmenn, sbr. Mars, Júlí og Ágúst, eða fyrir kvenmenn, sbr. Apríl. Jafnframt væru mánaðaheitin tólf, sem öll eru tökuorð úr latínu, sjálf kynlaus en þægju kyn sitt af orðinu mánuður. Enn fremur var horft til þess að í enskumælandi löndum ætti samsvarandi nafn, June, sér hefð sem kvenmannsnafn, en í ljósi lítillar hefðar orðsins júní sem mannsnafns hér á landi taldi mannanafnanefnd að líta bæri til þess sjónarmiðs, meðal annarra, við mat á nafninu. Niðurstaða nefndarinnar var því sú að ekki væri hægt að sýna fram á að nafnið Júní gæti ekki verið kvenmannsnafn þótt áður hefði það verið fært á skrá sem karlmannsnafn og þess vegna væri nefndinni ekki heimilt að hafna nafninu sem eiginnafni kvenmanns.

Ljóst er að það mál, sem hér er til umfjöllunar, á margt sammerkt með fyrrnefndu máli 4/2014 um Júní (kvk.). Júlí er mánaðarheiti og kynlaust sem slíkt, en er á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Eins og áður sagði byggðist úrskurður mannanafnanefndar í áðurnefndu máli m.a. á því að lítil hefð væri fyrir nafninu Júní sem karlmannsnafn á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá báru þrír Íslendingar karlmannsnafnið Júní þegar umræddur úrskurður um Júní (kvk.) var kveðinn upp. Nafnið kemur níu sinnum fyrir í manntölum frá 1703–1920.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera nú níu Íslendingar karlmannsnafnið Júlí. Nafnið kemur þrisvar sinnum fyrir í manntölum frá 1703–1920.

Karlmannsnafnið Júlí er nokkuð tíðara meðal núlifandi Íslendinga en karlmannsnafnið Júní og hefur verið á mannanafnaskrá frá því að henni var fyrst komið á fót. Mannanafnanefnd telur þó sýnt að nafnið Júlí eigi sér ekki ríka hefð í íslensku og að enda þótt nafnið hafi verið notað sem karlmannsnafn á Íslandi verði ekki á því byggt að nafnið geti ekki í íslensku máli einnig verið kvenmannsnafn.

Til stuðnings niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í áðurnefndu máli nr. E-721/2012, þar sem felldur var úr gildi úrskurður mannanafnanefndar um að hafna beiðni um nafnið Blær sem kvenmannsnafn, var m.a. bent á að ein íslensk kona, fædd 1973, hefði fengið nafnið Blær skráð í þjóðskrá á sínum tíma. Sama á við í því máli sem hér um ræðir en í gögnum frá Þjóðskrá kemur fram að ein íslensk kona, fædd árið 1983, ber nafnið Júlí í þjóðskrá. Þar sem sömu forsendur liggja til grundvallar í báðum þessum málum telur mannanafnanefnd sér ekki heimilt að hafna beiðni um að samþykkja nafnið Júlí sem eiginnafn kvenna.

Eiginnafnið Júlí (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Júlíar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Júlí (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta