Tímabært að ræða lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga
Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði á þingi Fjórðungssambands Vestfirðinga í gær að tímabært væri að ræða hugsanlega hækkun á lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga. Sagði hann töluna 1.000 hafa verið nefnda en lágmarksíbúafjöldi í dag er 50.
Samgönguráðherra sagði ætlun stjórnvalda að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og að efla sveitastjórnarstigið. Málefni aldraðra og fatlaðra yrðu á árunum 2011 til 2012 flutt til sveitarfélagana. Það þýddi mikla tilfærslu fjármuna og í framhaldi af því spurði hann hvort sveitarfélögin væru nógu stór og öflug til að takast á við slík verkefni. Rætt hefði verið um að fyrir ný velferðarverkefni sveitarfélaga yrðu mynduð þjónustusvæði með 7.000-8.000 íbúum að lágmarki.
Af tíu sveitarfélögum á Vestfjörðum er aðeins Ísafjarðarbær með yfir þúsund íbúa, í Bolungarvík og Vesturbyggð byggju kringum 900 íbúar en mun færri í hinum sveitarfélögunum. Samgönguráðherra sagði að frumvarp um hækkaðan lágmarksíbúafjölda yrði hugsanlega lagt fram á þingi í vetur og yrði sveitarfélögum gefinn kostur á að velja sameiningarkosti og þeim gefinn aðlögunartími. Sagði hann að breytingar gætu gengið í gegn árin 2012 til 2014. Óskaði ráðherrann sérstaklega eftir að fá fram sjónarmið sveitarstjórnarmanna í þessu sambandi.
Auk sveitarstjórnarmálanna ræddi ráðherrann um samgöngumál, nefndi það sem unnið væri að í ár og framundan væri, meðal annars að hraða útboði fyrir göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og ljúka frekari uppbyggingu nýrra vega á sunnanverðum Vestfjörðum.
Einnig minntist ráðherrann á þá uppbyggingu á GSM farsímaþjónustu sem unnið hefði verið að á liðnum misserum á vegum fjarskiptasjóðs og greindi frá tilboðum sem borist hefðu í uppbyggingu háhraðaþjónustu sem stefnt væri að því að ljúka á næsta ári.
Hér má sjá glærukynningu sem samgönguráðherra talaði út frá á fundinum.
Þing Fjórðungssambands Vestfirðinga stendur um helgina að Reykhólum. | |