Aðgerðir í þágu barna með geðraskanir
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, kynnti í dag umfangsmiklar aðgerðir til að bæta þjónustu við börn og ungmenni með geðraskanir. Aðgerðirnar og áherslur ráðherra byggjast á skýrslum sem undanfarið hafa verið teknar saman um geðheilbrigðisþjónustu við aldurshópana sem hér um ræðir. Auk þess er byggt á niðurstöðum viðræðna við aðstandendur og fagfólk á þessu sviði.
Áherslur og aðgerðir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skiptast í eftirfarandi níu þætti:
Greining vægari tilfella geðrænna vandamála flyst að mestu frá Barna og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) til Miðstöðvar heilsuverndar barna og til heilsugæslustöðva sem leiðir til þess að göngudeild Barna og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) eflist og aðstæður skapast þar til að sinna veikustu börnunum betur
Grunnþjónusta heilsugæslunnar við börn með hegðunar- og geðraskanir verður þar með aukin og bætt, m.a. með því að ráða sálfræðinga til heilsugæslunnar – aukin áhersla lögð á forvarnir á frumstigi
Heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni er nú falið að semja um farþjónustu sérfræðinga til að sinna geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni
Fyrsta áfanga stækkunar Barna og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) verður lokið vorið 2008 og aðstaðan þar bætt stórlega
Barna og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) eflist sem miðstöð faglegs starfs á sviði þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir
Ráðherra hefur falið landlækni að efla samvinnu og samræma störf heilbrigðisstofnana sem sinna börnum með geðraskanir
Ráðherra hefur ákveðið að láta hraða gerð klínískra leiðbeininga um meðferð barna og unglinga með geðraskanir
Ráðherra hefur ákveðið að láta gefa út vegvísi fyrir fagfólk, aðstandendur og sjúklinga um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga
Á fundi sínum með fréttamönnum kynnti ráðherra sérstaklega úttekt á geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fól tveimur sænskum sérfræðingum að vinna síðla vetrar og liggur nú fyrir, þeim Anders Milton, B.Sc., MD, Ph.D. og David Eberhard, MD, Ph.D. Tillögur og aðgerðaáætlunin sem heilbrigðis og tryggingamálaráðherra kynnti í dag byggjast eins og áður sagði á skýrslu sænsku sérfræðinganna auk niðurstaðna hérlendra sérfræðinga.
Sjá nánar:
Áherslur og aðgerðir heilbrigðismálaráðherra í geðheilbrigðisþjónustu við börn