Hreyfing fyrir alla - samráð um tilraunaverkefni
Í dag stóð heilbrigðisráðuneytið, ásamt Lýðheilsustöð og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, fyrir samráðsfundi vegna undirbúnings tilraunaverkefnisins Hreyfing fyrir alla. Verkefnið hefur meðal annars það markmið að fjölga skipulögðum hreyfitilboðum fyrir fullorðna og eldra fólk með því að efla almenningsíþróttadeildir íþróttafélaga. Ætlunin er að skapa tækifæri til að sinna þeim fjölmörgum einstaklingum og hópum sem skortir hvatningu og stuðning til að hreyfa sig en hafa ekki getu eða áhuga á að nýta sér þá þjónustu sem er þegar í boði. Einnig er ætlunin að skapa ódýran valkost sem getur brúar bilið eftir að meðferð hjá heilbrigðiskerfi lýkur.
Til stendur að velja tvö (eða fleiri) tilraunasvæði og mun verkefnið standa í eitt ár. Verkefnið byggir á nánu samstarfi yfirvalda á viðkomandi svæði, heilsugæslu, íþróttahreyfingarinnar og annarra hagsmunaaðila.
Þar sem verkefninu er ætlað að prófa árangur og hagkvæmni nýrrar þjónustu með það fyrir augum að hún verði varanleg og yfirfæranleg á allt landið hefur verið óskað eftir liðsinni hagsmunaaðila á landsvísu við undirbúning verkefnisins og var samráðsfundurinn í dag liður í að fá þá til samstarfs.
Fundinn sátu, auk skipuleggjenda, fulltrúar frá Landlæknisembættinu, Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands (sjúkraþjálfunarskor), Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, Félagi sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu, Íþróttakennarafélagi Íslands, Félagi áhugafólks um íþróttir aldraðra og Landssamtökum eldri borgara auk fulltrúa stéttarfélaga þ.m.t. Eflingar, VR og Bandalags Háskólamanna. Fulltrúum BSRB, Vinnueftirlitsins og Kennaraháskóla Íslands var einnig boðið á fundinn. Fundurinn reyndist afar gagnlegur og voru þátttakendur sammála um mikilvægi verkefnisins. Margar góðar hugmyndir og þarfar ábendingar komu fram sem eiga eftir að nýtast vel í frekari undirbúningi verkefnisins.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Una María Óskarsdóttir, verkefnisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í síma 545 8700.