Ný heilsugæslustöð tekin í notkun á Skagaströnd
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, tók formlega í notkun nýja heilsugæslustöð á Skagaströnd í dag. Stöðin var tekin í notkun við hátíðlega athöfn og var fjöldi gesta viðstaddur athöfnina. Hús Heilsugæslustöðvarinnar á Skagaströnd er um 250 fermetrar að stærð auk tengigangs, en stöðin tengist dvalarheimilinu Sæborg í því skyni að samnýta búnað og þjónustu sem samnýtanleg er. Á stöðinni er aðstaða fyrir lækni og hjúkunarfræðing og einnig er um 40 fermetra aðstaða í stöðinni fyrir sjúkraþjálfara. Heilsugæslustöðin þjónar um 500 manns. Björn Kristleifsson er arkitekt hússins en trésmiðja Helga Gunnarssonar sá um að reisa stöðina eftir útboð. Heildarkostnaður er um 65 milljónir króna, en þess má geta að í tengslum við nýbygginguna voru tæki og búnaður stöðvarinnar endurnýjuð. Hún er því búin öllum þeim tækjum sem í dag eru talin sjálfsögð á stöð af þessari stærð. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sagði þegar hún ávarpaði starfsfólk og gesti í dag að ánægjulegt væri sjá og gera sér grein fyrir mikilvægi hinnar nýju stöðvar á Skagaströnd fyrir íbúa svæðisins. Undirstrikaði ráðherra mikilvægi grunnþjónustu heilsugæslunnar og sagði: “Það má um leið velta fyrir sér, hvað átt er við þegar sagt er að heilsugæslan sé grunnþjónusta. Í mínum huga þýðir þetta, að heilsugæslan er þjónusta sem stendur öllum landsmönnum til boða á svæðinu sem þeir búa. Heilsugæslan er og á að vera mönnum aðgengileg og biðtími stuttur. Heilsugæslan er fjölhæf og fjölbreytt og á að leysa úr vanda þeirra sem til hennar leita; hún á að veita samfellu í þjónustu til langs tíma og hún á að vera í góðum tengslum við sérhæfðari þjónustu þegar þess gerist þörf. Á þennan hátt á heilsugæslan að tryggja íbúunum, að vel sé um þá hugsað, þegar eitthvað bjátar á sem tengist heilsufari þeirra.”