Ráðstefna um heilbrigðisþjónustu í fátækum löndum
Þróunarsamvinnustofnun Íslands, læknadeild Háskóla Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið standa fyrir ráðstefnu um heilbrigðisþjónustu í fátækum þróunarlöndum. Ráðstefnan um heilbrigðisþjónustu í fátækum löndum verður haldin í Reykjavík föstudaginn 29. september í því skyni að styðja við vaxandi umræðu og áhuga hér á landi um þann vanda sem mörg fátæk ríki standa frammi fyrir í almennri heilbrigðisþjónustu. Ráðstefnan er haldin á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, læknadeild Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Á ráðstefnunni, sem haldin verður í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, verða helstu verkefni heilbrigðisþjónustu í fátækum löndum skoðuð í ljósi þúsaldarmarkmiða SÞ. Sérstöku ljósi verður beint að heilbrigðisverkefni Þróunarsamvinnustofnunar í Malaví, en það er stærsta verkefni hennar á sviði heilbrigðismála. Auk innlendra fyrirlesara hefur erlendum fyrirlesurum verið boðið til landsins, Luís Sambo frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), en hann er forstjóri svæðisskrifstofu WHO fyrir Afríku, Cesar G. Victoria, brasilískum lækni og heimsþekktum fræðimanni á þessu sviði, Wesley O.O. Sangala ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins í Malaví og Lars Smedman, sænskum barnalækni með mikla reynslu af vettvangi fátækra landa og kennslu læknanema um málefni þeirra.
Innlendu fyrirlesararnir eru Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Guðjón Magnússon, framkvæmdastjóri WHO í Kaupmannahöfn, Jónína Einarsdóttir, mannfræðingur við Háskóla Íslands, Geir Gunnlaugsson, barnalæknir og forstöðumaður Miðstöðvar heilsuverndar barna og Einar Magnússon, lyfjafræðingur, skrifstofustjóri lyfjadeildar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, flytur ávarpsorð í upphafi ráðstefnunnar klukkan níu árdegis. Sigurður Guðmundsson, landlæknir, verður með samantekt í lok ráðstefnunnar eftir pallborðsumræður sem Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis stýrir. Sighvatur Björgvinsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar slítur ráðstefnunni klukkan rúmlega 17.
Í tengslum við ráðstefnuna verður haldin málstofa fimmtudaginn 28. september þar sem rannsóknir íslenskra háskólanema í Malaví verða sérstaklega kynntar og ræddar. Málstofan verður í Þjóðminjasafninu og hefst kl. 13.
Allir eru velkomnir á ráðstefnuna og málstofuna meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis og fyrirlestrar verða fluttir á ensku.
Sjá nánar: Dagskrá ráðstefnunnar