Sjúkraflug í Vestmannaeyjum
Landsflug hefur sagt upp samningi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins um sjúkraflug á Vestmannaeyjasvæði með níu mánaða uppsagnarfresti frá og með næstu mánaðamótum.
Flugfélagið Landsflug tók að sér að þjóna sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum um síðustu áramót samkvæmt samningi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins. Félagið hefur nú sagt upp samningnum frá og með næstu mánaðamótum með níu mánaða uppsagnarfresti.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur til skoðunar hvort bjóða eigi sameiginlega út styrki til áætlunarflugs og sjúkraflugs í Vestmannaeyjum, en eins og fram hefur komið ákvað ríkisstjórnin nýlega að styrkja áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja.
Í sumar var skipaður starfshópur til að gera úttekt á sjúkraflugi í Vestmannaeyjum fyrir tímabilið janúar til júní 2006 að ósk bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum. Hópurinn skilaði nýlega lokaskýrslu til Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Helstu niðurstöður starfshópsins eru eftirfarandi.
-
Ekki var staðið við kröfur samnings um viðbragðstíma í 3 sjúkraflugum af 40. Umrædd sjúkraflug voru svokölluð 1. stigs og var viðbragðstíminn 5, 13 og 29 mínútur umfram hámarksviðbragðstíma 1. stigs sjúkraflugs eins og hann er skilgreindur í samningnum við Landsflug.
-
Í u.þ.b. 14 daga samtals á ofangreindu tímabili var engin sjúkraflugvél staðsett í Vestmannaeyjum og í 5 daga til viðbótar var engin sjúkraflugvél staðsett þar frá morgni dags til síðdegis sama dags. Alls var 11 sinnum sjúkraflugi sinnt með loftfari staðsettu í Reykjavík.
-
Landsflug og Heilbrigðisstofnunin í Vestmannaeyjum hafa ekki gengið sameiginlega frá sérstökum verklagsreglum um sjúkraflug eins og áskilið er í útboðslýsingu.
-
Bæta þarf vinnureglur um boðun sjúkraflugs. Þegar beðið er um sjúkraflug þarf að koma skýrt fram hjá þeim sem biður um flugið af hvaða stigi það er, þannig að flugrekandi geti brugðist hratt og örugglega við.
Ráðuneytið hefur sent Landsflugi bréf þar sem bent er á að vanefndir hafi átt sér stað í þjónustu sjúkraflugs á Vestmannaeyjasvæði. Í bréfinu er farið fram á að félagið fari eftir ákvæðum samningsins og hafi staðsetta sjúkraflugvél í Vestmannaeyjum. Jafnframt er því beint til félagsins að standa við kröfur um viðbragðstíma og að bæta skráningu um sjúkraflug.
Skýrsla starfshóps um stöðu sjúkraflugs í Vestmannaeyjum...