Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2019 Forsætisráðuneytið

841/2019. Úrskurður frá 28. október 2019

Úrskurður

Hinn 28. október 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 841/2019 í máli ÚNU 19070006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 9. ágúst 2019, kærði A ákvörðun utanríkisráðuneytisins, dags. 17. júlí 2019, um synjun á beiðni, dags. 4. apríl 2019, um aðgang að tölvupósti sem kærandi telur að barnsmóðir kæranda hafi sent kjörræðismanni Íslands í erlendu landi.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ráðuneytið hafi póstinn ekki undir höndum en hann hafi eingöngu farið á milli aðstoðarbeiðanda og kjörræðismannsins. Ráðuneytið telji kjörræðismanninum óskylt að veita kæranda aðgang að tölvupóstsamskiptunum með vísan til 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um takmörkun á upplýsingarétti aðila máls.

Í kæru kemur m.a. fram að vísað sé til umbeðins tölvupósts í umsögn ræðismannsins vegna tiltekins máls. Kærandi telji gagnið vera fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. ágúst 2019, var utanríkisráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 14. ágúst 2019, er ítrekað að umbeðið skjal sé ekki að finna í málaskrá ráðuneytisins. Þá lúti upplýsingabeiðni kæranda að máli sem hann hafi verið aðili að og því fari um aðgang hans að gögnum sem tilheyri stjórnsýslumálinu eftir 15.-19. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið hafi einnig byggt synjun á aðilastöðu kæranda, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gildi lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Því er þess krafist að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 16. ágúst 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi fari fram á aðgang að öllum gögnum sem séu í málaskrá utanríkisráðuneytisins.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tölvupósti sem barnsmóðir kæranda sendi kjörræðismanni Íslands í erlendu landi þar sem óskað var eftir aðstoð ræðismannsins í tilteknu máli. Af hálfu utanríkisráðuneytisins hefur komið fram að umbeðið gagn sé ekki fyrirliggjandi auk þess sem um sé að ræða stjórnsýslumál sem kærandi sé aðili að.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að gögnum sem tilheyra málinu fer þar af leiðandi eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kæra þessi fellur því utan gildissviðs upplýsingalaga og er því óhjákvæmilegt að vísa henni frá nefndinni, sbr. 20. gr. upplýsingalaga.

 

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 9. ágúst 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir              Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta