Íbúðalánasjóði veitt heimild til að bjóða óverðtryggð lán
Íbúðalánasjóður hefur fengið heimild til að veita óverðtryggð lán samkvæmt breytingu á lögum um húsnæðismál sem Alþingi hefur samþykkt en frumvarpið var lagt fram á Alþingi í október í fyrra. Íbúðalánasjóði er falið að útfæra hvernig haga skuli fjármögnun og útgáfu óverðtryggðra skuldabréfaflokka og er sú vinna hafin hjá sjóðnum.
Samkvæmt lögunum getur Íbúðalánasjóður gefið út óverðtryggða skuldabréfaflokka og þar með veitt óverðtryggð lán. Miðað er við að vextir óverðtryggðra lána geti verið breytilegir og er Íbúðalánasjóði ætlað að setja reglur þar um. Er þá horft til þess að vaxtastefna hans hljóti að fara eftir fjármögnun sjóðsins á þessum skuldabréfaflokkum.
Eins og fram kemur í áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar Alþingis er litið á heimildina sem fyrsta skref í átt að óverðtryggðum útlánum Íbúðalánasjóðs. Það muni koma í ljós síðar hvaða kjör bjóðast á markaði og þar með hvort um raunhæfa leið sé að ræða fyrir fólk til að fjármagna íbúðakaup sín.
Hjá Íbúðalánasjóði er þegar hafin skoðun á möguleikum þess að gefa út óverðtryggða skuldabréfaflokka og mögulegri eftirspurn eftir þeim. Fyrirhugaðar eru viðræður milli Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna þar sem meðal annars verður rætt um hvers konar skuldabréf þeir séu reiðubúnir að kaupa af Íbúðalánasjóði til að fjármagna þessa tegund lánveitinga.