Þakkaði Karli Sigurbjörnssyni biskupi fyrir störf hans í þágu kirkju og þjóðar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hélt í gær samsæti til heiðurs Karli Sigurbjörnssyni fráfarandi biskupi þar sem hann þakkaði honum fyrir störf hans í þágu kirkju og þjóðar. Viðstödd voru kona hans, Kristín Guðjónsdóttir og börn þeirra, ýmsir nánir samstarfsmenn biskups og fulltrúar innanríkisráðuneytisins.
Í ávarpi sínu í athöfninni sagði Ögmundur Jónasson að það væri við hæfi að halda þakkarstund til heiðurs biskupshjónunum í Þjóðmenningarhúsinu, íslensk menning og Þjóðkirkjan væru samofin og þau hefðu haldið merki íslenskrar menningar hátt á loft innan lands sem utan og fyrir það bæri að þakka. Ráðherra sagði biskup hafa verið einlægan og heilan í þjónustu sinni og að sér hefði þótt aðdáunarvert hversu víðsýnn og velviljaður hann hefði verið gagnvart öðrum trúfélögum.
,,Reyndar sýndi Karl það margoft að hann er glöggskyggn og hugsjónaríkur maður. Hann hélt vel áttum í hillingum gróðærisins, andmælti yfirlæti, misskiptingu og varasömum viðmiðunum og mammonsvaldi og hlaut þá oft bágt fyrir hjá þeim sem þótti að sér vegið,” sagði ráðherra einnig.
Karl Sigurbjörnsson þakkaði sér sýndan heiður og sagði Ögmund Jónasson ætíð hafa stutt vel við starfsemi og verkefni Þjóðkirkjunnar.
Á myndinni eru biskupshjónin, Kristín Guðjónsdóttir og Karl Sigurbjörnsson ásamt Ögmundi Jónassyni og konu hans, Valgerði Andrésdóttur.