Hoppa yfir valmynd
11. september 1996 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 62/1996

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J ÖL E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 62/1996

 

Kostnaðarskipting: Sameign allra, sameign sumra.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 23. júlí 1996, beindu A og B, til heimilis að X nr. 8, f.h. C, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 8, hér eftir nefnt gagnaðili, um kostnaðarskiptingu vegna viðgerða á lyftu.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 6. ágúst sl. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 8. ágúst, var lögð fram á fundi kærunefndar 21. sama mánaðar. Nefndin fjallaði um málið á fundi sínum 4. september og tók það til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Fjölbýlishúsið X nr. 8, er 8 hæða hús sem byggt var árið 1963. Í húsinu eru samtals 36 eignarhlutar.

Á aðalfundi húsfélagsins 9. apríl 1996 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að ráðast í viðhaldsframkvæmdir á lyftubúnaði hússins. Ágreiningur aðila lítur að því hvort gagnaðila beri að taka þátt í kostnaði vegna þessara framkvæmda.

 

Krafa álitsbeiðenda er:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðendur þurfi ekki að taka þátt í greiðslu kostnaðar vegna viðgerða á lyftubúnaði hússins.

 

Í bréfi álitsbeiðanda kemur fram að inngangur inn í íbúð hans sé ekki úr sameiginlegu stigahúsi heldur sé um sérinngang að ræða, auk þess sem sér þvottahús sé í íbúðinni. Telur hann því óréttlátt að honum verði gert að taka þátt í greiðslu kostnaðar við viðhald á lyftu sem hann noti einungis tvisvar til þrisvar á ári.

Í bréfi gagnaðila kemur fram að hann skilji vel sjónarmið álitsbeiðanda þar sem lyftan nýtist honum lítið sem ekkert. Telur hann hins vegar að ekki sé unnt að undanskilja hann greiðslu kostnaðar, þar sem íbúð hans fylgi talsvert sameignarrými. Íbúðinni fylgi geymsla, þvottahús í kjallara, hjólhestageymsla og sorpgeymsla á jarðhæð, auk lyftunnar. Telur gagnaðili að húsfélaginu sé ekki heimilt að fella niður rétt einstakra íbúða til notkunar á þessum gæðum öllum eða hluta þeirra, auk þess sem erfitt sé að sjá að einstakir íbúðareigendur geti einhliða afsalað sér þessum rétti.

 

III. Forsendur.

Samkvæmt 8. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús telst lyfta til sameignar. Sameign fjöleignarhúss getur verið sameign allra eða sameign sumra. Sameign allra er meginreglan, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna, og eru því jafnan líkur á að sameign sé sameign allra. Um sameign sumra er að ræða þegar það kemur fram eða má ráða af þinglýstum heimildum að svo sé eða þegar lega sameignar, afnot hennar eða möguleikar á afnotum eru með þeim hætti að sanngjarnt og eðlilegt er að hún tilheyri aðeins þeim sem aðgang hafa að henni og afnotamöguleika, sbr. 7. gr. laganna.

Ekki er til eignaskiptayfirlýsing yfir húsið en í afsali fyrir íbúðinni kemur fram að eignarhlutanum fylgi hlutdeild í sameign hússins. Álitsbeiðendur hafa fullan aðgang að allri sameigninni og er því ljóst að þeim ber að taka þátt í kostnaði við viðhald lyftubúnaðarins.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðendum beri að taka þátt í kostnaði við viðhald á lyftu hússins.

 

 

Reykjavík, 11. september 1996.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Benedikt Bogason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta