Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 1996 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/1996

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 50/1996

 

Lögmæti aðalfundar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 7. júní 1996, beindi A, til heimilis að X nr. 4, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 4, hér eftir nefnt gagnaðili, um lögmæti aðalfundar sem haldinn var þann 15. maí 1996.

Erindið var lagt fram á fundi kærunefndar þann 3. júlí. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Greinargerð gagnaðila, dags. 11. júlí, var lögð fram á fundi nefndarinnar þann 6. ágúst 1996 og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Deilt er um lögmæti aðalfundar húsfélagsins X nr. 4, sem haldinn var miðvikudaginn 15. maí 1996.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að aðalfundur húsfélagsins X nr. 4, sem haldinn var miðvikudaginn 15. maí, teljist ólögmætur og álitsbeiðandi því óbundinn af öllum ákvörðunum og samþykktum fundarins.

 

Í álitsbeiðni komu fram fleiri kröfur sem kærunefnd vísaði frá.

Álitsbeiðandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið löglega boðun á umræddan aðalfund og telur sig því óbundinn af öllum ákvörðunum og samþykktum fundarins.

Í bréfi gagnaðila kemur fram að fundarboð fyrir umræddan fund hafi verið sett í alla póstkassa hússins hinn 8. maí sl., auk þess sem tilkynning um fundinn hafi verið sett á auglýsingatöflu hússins.

 

III. Forsendur.

Í 59. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er kveðið á um að aðalfundur húsfélags skuli haldinn ár hvert fyrir lok aprílmánaðar. Umræddur aðalfundur var haldinn 15. maí. Kærunefnd telur hins vegar að það eitt valdi ekki ógildi fundarins.

Boða skal til aðalfundar með skriflegum og sannanlegum hætti, sbr. 2. mgr. 59. gr. laganna. Ef boða á til fundar með tryggilegum hætti verður að gera það með ábyrgðarbréfi, skeyti eða á annan sannanlegan hátt. Það fer þó eftir atvikum og aðstæðum og jafnvel venjum í viðkomandi húsi hvað telst nægileg fundarboðun og hvernig skuli að henni staðið. Hafi t.d. skapast sú venja að boða til aðalfundar með því einu að hengja upp fundarboð á viðeigandi stað í sameign hússins, afhenda hverjum og einum eiganda fundarboð eða setja það í póstkassa viðkomandi, þá hefur það talist fullnægjandi. Hafa ber þó í huga að það er húsfélagið sem ber hallann af því ef því er haldið fram að viðkomandi hafi ekki fengið fundarboð eða ekki hafi verið boðað til fundar með nægilegum fyrirvara.

Samkvæmt bréfi gagnaðila var fundarboð vegna umrædds aðalfundar sett í alla póstkassa hússins þann 8. maí sl., auk þess sem tilkynningin var hengd upp á auglýsingatöflu hússins. Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laganna skal boða til aðalfundar með minnst 8 og mest 20 daga fyrirvara. Aðalfundurinn var haldinn þann 15. maí og því ljóst að ekki var boðað til fundarins með lögboðnum fyrirvara. Samkvæmt 40. gr. laganna þá er eigandi sem ekki hefur verið boðaður á húsfund, með þeim hætti sem lög þessi mæla fyrir um, ekki bundinn af ákvörðunum sem á þeim fundi eru teknar nema því aðeins að hann hafi sótt fund óboðaður eða þrátt fyrir ófullnægjandi boðun. Gagnaðili skal því boða til nýs aðalfundar svo fljótt sem kostur er.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að aðalfundur húsfélagsins, haldinn 15. maí 1996, sé ólögmætur. Álitsbeiðandi er því óbundinn af ákvörðunum þeim sem teknar voru á umræddum aðalfundi.

 

 

Reykjavík, 21. ágúst 1996.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta