Mælti fyrir frumvarpi sem skýrir hlutverk og heimildir réttindagæslumanna og persónulegra talsmanna
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur mælt á Alþingi fyrir frumvarpi sem skýrir hlutverk og verkferla í kringum réttindagæslumenn og persónulega talsmenn fatlaðs fólks og gerir þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu.
„Með þeim breytingum sem lagðar eru fram í frumvarpinu er lögð áhersla á að vilji hins fatlaða einstaklings ráði för, eins og skýrt kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks,“ sagði Guðmundur Ingi meðal annars í framsöguræðu sinni í gær.
„Réttindagæslumenn og persónulegir talsmenn gegna mikilvægu hlutverki í lífi þess fólks sem ekki getur gætt réttinda sinna án stuðnings. Ég tel að þessar breytingar séu mikilvægur þáttur í því að gera þjónustu þeirra markvissari og skilvirkari, auk þess sem betur verður tryggt að skoðanir notenda séu virtar.“
Breytingar varðandi réttindagæslumenn
Þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum um réttindagæslumenn varða annars vegar að taka út tilvísun til svæðisskiptingar réttindagæslumanna og hins vegar að skýra hvert hlutverk þeirra er og hvar því sleppir.
Meðal annars eru lagðar til breytingar á ákvæðum um réttindagæslumenn með það fyrir augum að árétta að hlutverk þeirra sé að veita fötluðu fólki nauðsynlegan stuðning við gæslu réttinda sinna. Hlutverk réttindagæslumanns er og verður að kanna vilja fatlaðra einstaklinga og veita þeim stuðning við nýtingu löghæfis síns eftir því sem þörf er á.
Að auki er til áréttingar lagt til að kveða á um að réttindagæslumenn taki ekki til meðferðar ágreining á milli einstaklinga og að þeir endurskoði ekki ákvarðanir stjórnvalda.
Breytingar varðandi persónulega talsmenn
Breytingar á ákvæðum um persónulega talsmenn felast í því að kveðið verði nánar á um hlutverk og verklag í kringum persónulega talsmenn.
Sérstaklega má þar nefna að lagt er til að útvíkkað verði við hverja sé haft samráð við val á persónulegum talsmanni og hvenær það sé gert, nánar verði kveðið á um hvað skuli koma fram í samkomulagi um persónulegan talsmann og hvernig haga skuli endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Einnig að aðkoma réttindagæslumanns að samkomulagi verði skýrð í þeim tilvikum þegar fatlaður einstaklingur getur ekki undirritað samkomulagið.
Þá verði meðal annars kveðið á um aðkomu sýslumanns að samkomulagi um persónulegan talsmann, auk þess sem kveðið verði á um viðbótarskilyrði sem einstaklingar þurfa að uppfylla til að geta orðið persónulegir talsmenn.