Hoppa yfir valmynd
14. desember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Um 3.000 fleiri fjölskyldur fá barnabætur á næsta ári með einfaldara og öflugra kerfi

Fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur á næsta ári fjölgar um tæplega 3.000 með breytingum á barnabótakerfinu sem ríkisstjórnin kynnti í vikunni sem hluta af stuðningsaðgerðum í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði.

Breytingarnar voru kynntar á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum mánudaginn 12. desember sl., en auk þeirra verður lögð áhersla á fjölgun íbúða og uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum, endurbótum í húsnæðisstuðningi og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Markmiðið er að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og styðja sérstaklega við lág- og millitekjufólk.

Yfir 34 þúsund fjölskyldur fái barnabætur

Markmiðið með einfölduðu og efldu barnabótakerfi er m.a. að fjölga þeim sem njóta stuðnings og draga úr skerðingum í barnabótakerfinu. Jaðarskattar af völdum barnabóta lækka og skilvirkni og tímanleiki bótanna verður aukinn.

Á þessu ári fá um 31.300 fjölskyldur barnabætur en samkvæmt óbreyttu kerfi hefðu þær orðið um 28.600 á næsta ári. Með breytingum sem gerðar verða á barnabótakerfinu munu hins vegar um 33.400 fjölskyldur fá greiddar barnabætur árið 2023 og er hrein viðbót um 2.900 fjölskyldur. Á árinu 2024 munu um 34.200 fjölskyldur fá greiddar barnabætur, en tölurnar miðast við upplýsingar Skattsins og byggja á álagningu einstaklinga í maí 2022.

Hærri grunnfjárhæðir og skerðingarmörk

Við breytinguna hækka grunnfjárhæðir barnabóta fyrir fyrsta barn um 25%, úr 248 þúsund krónum í 310 þúsund með fyrsta barni á þessum tveimur árum fyrir fólk í sambúð og um 11%, úr 413 þúsund krónum í 460 þúsund krónur, fyrir einstæða foreldra.

Skerðingarmörkum kerfisins er fækkað og verða eftir breytinguna eitt fyrir annars vegar foreldra í sambúð og hins vegar einstæða foreldra. Fyrir foreldra í sambúð hækka mörkin úr 9.098.000 í 9.785.000, sem þýðir að þeir geta haft tæplega 700.000 krónum meira í tekjur áður en barnabæturnar byrja að skerðast. Tilsvarandi fjárhæð fyrir einstæða foreldra hækkar úr 4.549.000 í 4.893.000.

Enn fremur verða teknar upp samtímagreiðslur barnabóta þannig að biðtími eftir bótum verði aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns. Þessu fylgir verulegt hagræði fyrir barnafjölskyldur, en við núverandi kerfi getur hann orðið allt að 13 mánuðir eftir því hvernær barn fæðist á árinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta