Mál nr. 78/2019 - Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 78/2019
Viðgerðir utanhúss: Samþykki.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með rafrænni álitsbeiðni, sendri 12. ágúst 2019, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 18. september 2019, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 26. september 2019, lagðar fyrir nefndina.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 20. nóvember 2019.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða tvíbýlishúsið C og á álitsbeiðandi meirihluta í eigninni. Ágreiningur er um lögmæti viðgerða utanhúss.
Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:
Að gagnaðila beri að koma sameign hússins aftur í fyrra horf, þ.e. eins og hún var áður en gagnaðili réðist í framkvæmdir á henni.
Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðili hafi í þrjú skipti farið í framkvæmdir á sameign hússins, án samráðs við álitsbeiðanda. Þar á meðal hafi hann farið í framkvæmdir 22. júní 2019, án þess að húsfundur hafi fjallað um þær. Engin verklýsing hafi legið fyrir, þrátt fyrir að framkvæmdin hafi haft í för með sér töluverða breytingu á útliti hússins að utan með því að hvítur 9 cm breiður listi hafi verið settur á útvegg. Gagnaðili hafi ekki leitað álits byggingarfulltrúa eða fagaðila á þessari framkvæmd og hann sé ekki með réttindi til að framkvæma þessa viðgerð. Álitsbeiðandi hafi bent gagnaðila á að bíða með að hefja viðgerð þar til hann fengi löggilt leyfi en hann hafi ekki gert það.
Í greinargerð gagnaðila segir að hann hafi fengið nokkra löggilta iðnaðarmenn til að skoða leka inni í íbúð hans, meðal annars nágranna þeirra sem sé múrari. Enginn hafi viljað taka að sér að gera við lekann þar sem álitsbeiðandi hafi neitað öllum viðgerðum.
Í byrjun sumars 2019 hafi gagnaðili fengið iðnaðarmann sem reki tiltekið múrfyrirtæki til að finna orsök leka í íbúð hans. Á þessum tíma hafi hann talið nauðsynlegt að gera við lekann eins hratt og mögulegt hafi verið. Stofa hans hafi verið í ólagi í eitt og hálft ár og hann hafi ekki getað lagað það, án þess að koma fyrst í veg fyrir lekann.
Viðgerðin fólst í því að verja svæðið þar sem leki hafi myndast með því að setja stálstykki í kringum sólstofu sem hafi verið illa gerð frá upphafi. Gagnaðili hafi ekki talið að það þyrfti verklýsingu til að framkvæma þetta, en hann hefði þess vegna getað gert þetta sjálfur.
Eftir þessa litlu viðgerð hafi lekinn stöðvast. Í framhaldi af því hafi gagnaðili getað farið í að lagfæra skemmdina í sólstofunni. Gagnaðili sjái ekki ástæðu til að taka stálstykkið niður þar sem það hafi nægt til að koma í veg fyrir lekann.
Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að hann hafi farið þess á leit að fenginn yrði íslenskur fagaðili til að skoða ástandið, en í staðinn hafi gagnaðili komið með landa sinn til að meta aðstæður. Álitsbeiðandi hafi ekkert í höndunum sem segi að þetta sé faglærður maður með íslensk réttindi.
Aldrei hafi verið rætt við álitsbeiðanda um það sem þyrfti að gera heldur hafi bara einfaldlega verið mætt á staðinn og byrjað að framkvæma, án samþykkis hans. Gagnaðili hafi aldrei óskað eftir húsfundi til að kynna hvað hann hefði í huga.
Gagnaðili segi að hann hafi ekki þurft að gera verklýsingu og gæti lagað þetta sjálfur sem hann hafi gert.
III. Forsendur
Samkvæmt gögnum málsins snýst ágreiningur um lögmæti viðgerða sem gagnaðili framkvæmdi á sameign hússins. Samkvæmt framlögðum myndum hefur hvít flasning verið lögð frá vegg út á sólstofu og múrað í rauf á plötuskilum fyrir ofan sólstofuna. Gagnaðili greinir frá því að tilgangur þessa hafi verið að stöðva og koma í veg fyrir leka í sólstofunni.
Í 39. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að allir hlutaðeigandi eigendur eiga óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerta hana beint og óbeint. Ákvæði 40. gr. hefur að geyma úrræði fyrir eiganda sem ekki hefur verið hafður með í ráðum. Er viðkomandi ekki bundinn af ákvörðun sem tekin er án þess að boða hann til húsfundar og ber ekki skylda til greiðslu kostnaðar sem af téðri ákvörðun stafar. Fyrir liggur að gagnaðili réðst í framkvæmdirnar, án samráðs við álitsbeiðanda. Telur kærunefnd að álitsbeiðandi sé þannig ekki bundinn af ákvörðun gagnaðila um að ráðast í þá viðgerð sem hann taldi nauðsynlega til að koma í veg fyrir leka og ber ekki að greiða hlutdeild í kostnaði vegna hennar.
Aftur á móti er ekki að finna heimild í 40. gr. fjöleignarhúsalaga til að skylda gagnaðila til að fjarlægja flasninguna. Umrædd þétting meðfram sólstofu hefur að mati kærunefndar ekki áhrif á útlit sameignar eins og hér háttar til þannig að það falli ekki undir önnur ákvæði laganna.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda.
Reykjavík, 20. nóvember 2019
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson
Eyþór Rafn Þórhallsson