Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný innkaupastefna: Framsækin og sjálfbær innkaup og kostnaður lækkar um milljarða

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út nýja stefnu ríkisins í innkaupamálum. Í henni er sett fram skýr framtíðarsýn um framsækin og sjálfbær innkaup sem taka mið af umhverfis- og loftslagssjónarmiðum. Sem liður í aðgerðaáætlun verða gerðar breytingar á starfsemi Ríkiskaupa til að gera stofnunni betur kleift að lækka kolefnisspor og lækka kostnað ríkisins um 3-5 milljarða á ári.

Meginmarkmið stefnunnar eru fjögur: sjálfbær, hagkvæm, nýskapandi og gagnsæ innkaup.
Í þeim miklu áskorunum sem fram undan eru bæði efnahagslega og samfélagslega er mjög mikilvægt að nýta sem best þá fjármuni sem ríkið ver í að kaupa vörur, þjónustu og verklegar framkvæmdir. Nokkur dæmi af fjölmörgum um innkaup eru bygging á Húsi íslenskunnar, kaup á hafrannsóknarskipi, keypt þjónusta arkitekta, kaup á lyfjum og nýsmíði hugbúnaðar. Árlega fara yfir 200 milljarðar til innkaupa hjá ríkisaðilum, en í stefnunni er lögð áhersla á aukna nýsköpun, meiri þátttöku einkamarkaðar og betri nýtingu á innkaupakrafti ríkisins.

Vistvæn innkaup ríkisaðila verða almenn regla og innkaupafræðsla stóraukin.
Stöðumat og drög að stefnu voru lögð fram í samráðsgátt og fulltrúar yfir 50 hagsmunaaðila hafa komið að ferlinu. Stöðumat innkaupa var gefið út í samráðsgátt í byrjun árs 2020 með drögum að stefnunni. Með nýrri stefnu um sjálfbær innkaup sem gefin er út núna fylgir sérstök aðgerðaáætlun fyrir árin 2021-2024.

Sjálfbær innkaup eru í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og liður í skuldbindingu Íslands að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að innleiða verklag á sjálfbærum opinberum innkaupum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Það er mikilvægt að við vöndum til verka við ráðstöfun þeirra 200 milljarða sem ár hvert fara í innkaupamál. Með breyttu verklagi undanfarin ár hefur tekist að spara skattgreiðendum milljarða, en stóra verkefnið núna er að nýta kaupmátt ríkisins í innkaupamálum til að fá enn meira fyrir minna. Með uppfærðri innkaupastefnu erum við hins vegar ekki aðeins að auka hagkvæmni, heldur er ný nálgun mikilvægur þáttur í aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum.“

Sjálfbær innkaup - stefna ríkisins

Sjálfbær innkaup - aðgerðaáætlun 2021-2024

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta