Ræddu næstu skref í sameiningarmálum sveitarfélaga
Samgönguráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga nýttu tækifærið í tengslum við hátíðarfund Fjórðungsþings Vestfirðinga sem haldinn var á Ísafirði í síðustu viku og funduðu um sameiningarmál sveitarfélaga.
Kristján L. Möller, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, hefur kynnt stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þá hugmynd sína við Sambandið kannaðir verði sameiginlega mögulegir sameiningarkostir í hverjum landshluta sem síðar yrðu lagðar fyrir Alþingi í stað þeirrar hugmyndar að hækka lágmarksíbúafjölda úr 50 í 1.000. Ráðherra fór yfir málið með Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra þess, svo og þeim Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra og Hermanni Sæmundssyni skrifstofustjóra.
Formaðurinn mun nú kynna viðhorf ráðherrans í stjórn sambandsins og í framhaldinu fara fram frekari umræður um leiðir til sameiningar sem lið í eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Kristján L. Möller, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ræddu sameiningarmál sveitarfélaga á fundinum á Ísafirði á dögunum. |