Nr. 375/2018 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 10. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 375/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18070015
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 9. júlí 2018 kærði maður er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Marokkó og Líbýu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. júní 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. mars 2017. Kærandi kom í viðtöl hjá Útlendingastofnun m.a. þann 8. janúar 2018 og 8. febrúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. júní 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 9. júlí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 20. júlí 2018.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til viðtala við kæranda hjá Útlendingastofnun. Í viðtölunum hafi kærandi greint frá því að hann hafi flúið heimaríki sitt, Marokkó, vegna kynhneigðar, en hann sé tvíkynhneigður. Kærandi hafi áttað sig á kynhneigð sinni í kringum 14-15 ára aldur, þegar hann hafi haft samfarir við son bróður síns, sem hafi verið á svipuðum aldri og kærandi. Kærandi hafi hins vegar ávallt haldið kynhneigð sinni leyndri í heimaríki og að öll kynferðisleg sambönd við einstaklinga af sama kyni hafi farið fram með leynd. Kvað kærandi samband hans og bróðursonar síns hafa staðið yfir í um eitt ár og að þeir hafi hist heima hjá kæranda. Fjölskylda kæranda hafi komist á snoðir um samband kæranda og bróðursonar hans árið 2011 eftir að nágrannar hafi heyrt í þeim stunda kynlíf. Að sögn kæranda hafi faðir hans tekið sambandinu illa, beitt kæranda ofbeldi og rekið hann af heimilinu. Hafi faðir kæranda, sem sé ríkisborgari Líbýu, viljað að kærandi kæmi með honum þangað svo enginn myndi komast að kynhneigð kæranda. Greindi kærandi frá því að faðir hans hafi á þessum tíma gegnt herþjónustu í Líbýu.
Í framhaldi af því að vera vikið af heimilinu hafi kærandi dvalið hjá vinkonu sinni í heimaríki í u.þ.b. einn mánuð. Þaðan hafi hann farið til Líbýu eftir fyrirmælum föður síns, þar sem hann hafi dvalið í sex mánuði hjá vini sínum. Á árunum 2011-2014 hafi kærandi ferðast reglulega milli heimaríkis og Líbýu og dvalist að hluta í báðum löndunum á því tímabili. Kærandi hafi síðan snúið aftur til heimaríkis þegar móðir hans hafi veitt honum leyfi til þess að koma til baka, en þar hafi hann dvalið hjá vinkonu sinni. Árið 2014 hafi faðir kæranda komist að því að kærandi hafi verið að heimsækja móður sína. Faðir kæranda hafi meinað kæranda að koma framvegis á heimili þeirra og dvelja hjá vinkonu sinni og í kjölfarið hafi kærandi yfirgefið heimaríki fyrir fullt og allt og haldið til Líbýu. Kærandi hafi dvalið um sex mánuði í Líbýu en farið þaðan til Ítalíu, þar sem hann hafi dvalið í rúmt ár. Þaðan hafi kærandi farið til Noregs og loks til Íslands. Í viðtölunum hafi kærandi greint frá því að hann óttist fyrst og fremst föður sinn, en yfirvöld í heimaríki viti ekki af kynhneigð hans. Samkynhneigð sé refsiverð í landinu og honum geti verið refsað og hann settur í fangelsi vegna kynhneigðar sinnar.
Fram kemur að kærandi hafi greint frá því að hafa orðið fyrir líkamsárás í borginni Salé í heimaríki, á stað sem sé þekktur samkomustaður fyrir samkynhneigða. Kærandi hafi verið á leið úr leigubíl þegar 4-5 karlmenn hafi gengið upp að kæranda, barið hann í höfuðið með hnífi og tekið allar eigur hans. Hafi mennirnir tjáð kæranda að koma ekki aftur þangað. Kærandi hafi leitað til lögreglu eftir árásina en enga aðstoð fengið. Kærandi hafi tekið þátt í starfi LGBT-samtaka í heimaríki með leynd og að hann hafi í nokkur skipti leitað til Samtakanna ´78 eftir komu hingað til lands.
Í umfjöllun um aðalkröfu vísar kærandi til þess að meginástæða hans fyrir flótta frá heimaríki megi rekja til kynhneigðar hans, en hann hafi þurft að þola illa meðferð af hendi föður síns og líkamlegt ofbeldi frá hópi manna. Þá standi töluverðar líkur til þess að kærandi muni verða fyrir kerfisbundinni mismunun og ofsóknum af hálfu yfirvalda og samborgara í heimaríki og að honum verði gert að sæta fangelsisrefsingu og illri meðferð, verði honum gert að snúa þangað aftur. Kærandi geti ekki verið opinberlega samkynhneigður og þyrfti að fela kynhneigð sína.
Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um aðild að tilteknum þjóðfélagshópi, þar sem ofsóknirnar megi rekja til kynhneigðar hans. Þessu til stuðnings vísar kærandi til leiðbeininga frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og athugasemda við 38. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga. Þá telur kærandi að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki. Heimildir bendi til þess að stjórnvöld þar í landi framfylgi refsiákvæðum hegningarlaga, sem banni samkynhneigð, með handtökum, fangelsisrefsingum og fésektum á hendur samkynhneigðum einstaklingum. Fram kemur að lög gegn mismunun gildi ekki um samkynhneigða einstaklinga og þá séu hatursglæpir ekki saknæmir á grundvelli hegningarlaga. Enn fremur séu ákvæði í hegningarlögum sem kveði á um refsingu fyrir hegðun sem fari gegn grundvallarreglum íslamstrúar.
Í greinargerð vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi gert margvíslegar athugasemdir við frásögn kæranda af atvikum og atburðum í heimaríki hans. Athugasemdir stofnunarinnar hafi einkum lotið að ósamræmi í tímalínu atvika í málinu, þ.e. hvenær tilteknir atburðir hafi átt sér stað og hvað kærandi hafi verið gamall á hverjum tíma. Hins vegar sé ljóst af viðtölunum að kærandi eigi erfitt með að muna nákvæma tímaröð atburða og þá jafnvel þannig að hann gefi upp ártöl sem komi ekki heim og saman við aldur hans á tilgreindum tíma. Í þessu sambandi sé mikilvægt að hafa í huga að þeir atburðir sem kærandi hafi verið beðinn um að lýsa hafi hafist þegar kærandi hafi verið nýskriðinn á táningsaldur og átt sér stað á nokkurra ára tímabili fyrir allnokkrum árum síðan.
Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um trúverðugleikamat í málum sem varða alþjóðlega vernd komi m.a. fram að margir einstaklingar eigi erfitt með að muna staðreyndir og kalla fram minningar um liðna atburði. Þá hafi sálfræðilegar rannsóknir ítrekað sýnt fram á að minningar um jafnvel mikilvægustu, áfallamestu eða nýjustu atburði í lífi fólks geti verið erfitt að kalla fram og muna með nákvæmni. Ósamræmi, skortur á nákvæmni og eyður í endurkalli minninga séu náttúruleg fyrirbæri varðandi það hvernig einstaklingur geymi og endurkalli minningar. Þá sé minni einstaklinga um tímabundnar upplýsingar, s.s. dagsetningar eða tímaröð atburða, gríðarlega óáreiðanlegt og geti verið erfitt eða ógerlegt að muna. Óháð því hvort kærandi hafi gefið óljós eða misvísandi svör um hvenær nákvæmlega tiltekin atvik áttu sér stað telur kærandi það ekki skipta máli þegar frásögn hans sé skoðuð í heild.
Í greinargerð vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi í ákvörðun sinni gert athugasemd við þá frásögn kæranda um að hann sé einnig með ríkisborgararétt í Líbýu. Þegar kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hafi hann greint frá því að faðir hans væri frá Líbýu og kærandi einnig. Í ljósi þess að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn er gætu staðfest auðkenni hans hafi hann gengist undir tungumála- og staðháttapróf í janúar sl. Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið lagt til grundvallar að kærandi væri ekki frá Líbýu og stofnunin hafi talið þennan framburð kæranda draga úr trúverðugleika hans.
Að mati kæranda útiloka niðurstöður prófsins ekki á nokkurn hátt að faðir kæranda sé frá Líbýu og að kærandi geti af þeim sökum haft sama ríkisfang og hann. Mikilvægt sé að hafa í huga að slík próf ákvarði ekki um ríkisfang þess sem undirgengst prófið heldur sé tilgangur þess að ákvarða í hvaða tungumálaumhverfi viðkomandi einstaklingur hafi félagsleg tengsl við. Þá hafi kærandi ekki haldið því fram að hann hafi dvalið í Líbýu í lengri tíma en nokkurra mánaða í senn og því ekki um að ræða ósamræmi milli framburðar hans hjá Útlendingastofnun og í prófinu. Þá gerir kærandi athugasemd við að frásögn hans af þátttöku í LGBT-samtökum í heimaríki hafi verið talið draga úr trúverðugleika hans, en kærandi hafi svarað öllum spurningum þar að lútandi skýrt og skilmerkilega.
Þá hafi Útlendingastofnun gert athugasemd við frásögn kæranda af árás sem hann hafi greint frá að hafa orðið fyrir á samkomusvæði fyrir samkynhneigða í heimaríki, m.a. um fjölda árásarmanna, sem kærandi hafi sagt fjóra í einu viðtali en 4-5 í öðru. Samkvæmt frásögn kæranda hafi árásin átt sér stað í kringum miðnætti og því ekki óvarlegt að draga þá ályktun að dagsbirtu hafi ekki notið við, sem hafi gert kæranda erfiðara fyrir að átta sig fyllilega á aðstæðum. Kærandi byggir á því að heilt yfir sér frásögn hans um aðstæður flótta frá heimaríki bæði skýr, stöðug og laus við mótsagnir, að undanskildu því hvaða ár tilteknir atburðir áttu sér stað eða hversu gamall kærandi var á tilteknum tíma. Þá sé innbyrðis samræmi milli beggja viðtala við kæranda hjá Útlendingastofnun í öllum meginatriðum um það sem skipti efnislega máli varðandi ástæður flótta. Frásögn kæranda að því er varði stöðu hinsegin einstaklinga í heimaríki hans komi í öllum meginatriðum heim og saman við fyrirliggjandi heimildir. Því beri að leggja frásögn kæranda í meginatriðum til grundvallar enda væri ósanngjarnt að láta kæranda, sem eigi von á illri meðferð í heimaríki vegna kynhneigðar, bera hallan af því að hafa ekki getað lýst betur tímalínu atburða.
Í greinargerð kemur fram að samkvæmt marokkóskum hegningarlögum er samneyti við einstakling af sama kyni refsivert. Varða brot gegn ákvæðinu fangelsi frá sex mánuðum til þriggja ára auk fjársekta. Stjórnvöld framfylgi banninu með handtökum og fangelsun samkynhneigðra einstaklinga í landinu. Heimildir hermi einnig að hinsegin einstaklingar séu útskúfaðir í marokkósku samfélagi og eigi á hættu að verða fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi á götum úti í landinu. Fjölmörg dæmi séu um að dómstólar í heimaríki kæranda hafi á síðustu árum dæmt einstaklinga til fangelsisrefsinga fyrir það eitt að vera samkynhneigðir, en málin séu allt að 20 á árunum 2015 og 2016. Ljóst sé að samkynhneigðir einstaklingar séu í afar viðkvæmri stöðu í heimaríki kæranda og verði fyrir mikilli og kerfisbundinni mismunun, fordómum og ofbeldi. Telja marokkósk mannréttindasamtök og samtök sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks að erfitt eða jafnvel ómögulegt sé að leita verndar hjá yfirvöldum, m.a. vegna fyrrnefnds ákvæðis í hegningarlögum landsins.
Í umfjöllun um varakröfu rekur kærandi inntak 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, með hliðsjón af skilgreiningu á hugtakinu viðbótarvernd í tilskipun 2004/38/EB. Með vísan til þess sem rakið hafi verið um aðstæður kæranda í heimaríki sé ljóst að hann eigi í raunverulegri hættu á alvarlegum skaða verði honum gert að snúa til baka þangað. Þá sé ekki raunhæft að kærandi geti leitað nokkurrar verndar hjá yfirvöldum þar sem samkynhneigð sé refsiverð samkvæmt lögum. Þegar 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sé skoðuð og þau lögskýringargögn sem að baki henni standi sé ljóst að kærandi uppfylli öll skilyrði þess að hljóta viðbótarvernd þar sem hann sé í raunverulegri hætti á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki, bæði af hendi almennings og stjórnvalda. Þá eigi kærandi raunverulega hættu á því að vera dæmdur til refsingar á grundvelli kynhneigðar og sæta fangelsisrefsingu við ómannúðlegar aðstæður.
Vegna þrautavarakröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vísar kærandi til þess að heimilt sé að veita dvalarleyfi á þeim grundvelli vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Eins og áður hafi komið fram séu samkynhneigðir og tvíkynhneigðir einstaklingar útilokaðir af samfélaginu í heimaríki kæranda. Með hliðsjón af því og þeirri staðreynd að fjölskylda kæranda hafi snúið baki við honum myndi kærandi búa við mjög erfiðar félagslegar aðstæður þar í landi. Telur kærandi að hann uppfylli því skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Loks er það mat kæranda að hann geti ekki flutt sig um set innanlands til að komast hjá ofsóknum enda sé öryggi hans ógnað hvar sem er í landinu.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem hafi verið til þess fallin að sanna á honum deili. Útlendingastofnun leysti úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats og niðurstöðu tungumála- og staðháttaprófs. Var lagt til grundvallar að kærandi væri einungis með marokkóskt ríkisfang. Í niðurstöðum tungumála- og staðháttaprófs sem kærandi gekkst undir kemur m.a. fram að mállýska sem kærandi tali sé samræmi við arabísku sem töluð sé í Marokkó. Þá hafi kærandi getað nefnt hefðbundna marokkóska rétti og skóla þar í landi. Þá liggur fyrir skráning í VIS-kerfið (The Visa Information System) sem gefur til kynna að kærandi sé ríkisborgari Marokkó. Verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi sé ríkisborgari Marokkó. Í viðtali hjá kærunefnd kvað kærandi föður sinn vera frá Marokkó, en ekki Líbýu eins og hann greindi frá í viðtali hjá Útlendingastofnun. Að því virtu verður ekki lagt til grundvallar að kærandi sé einnig ríkisborgari Líbýu.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Marokkó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- World Report 2018 - Morocco/Western Sahara (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
- Country Reports on Human Rights Practices for 2017: Morocco (U.S. Department of State, 20. apríl 2017);
- Amnesty International Report 2017/18 - Morocco/Western Sahara (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Marocko 2015–2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
- Morocco: Situation of LGBT Persons (The Danish Immigration Service, mars 2017);
- Country Policy and Information Note, Morocco: Sexual Orientation and Gender Identity (UK Home Office, júlí 2017) og
- Freedom in the World 2018 – Morocco (Freedom House, 16. janúar 2018).
Samkvæmt ofangreindum gögnum er Marokkó konungsríki með um 35 milljónir íbúa, þar sem konungurinn, Mohammed VI., fer með yfirstjórn landsins. Árið 1956 gerðist Marokkó aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1976 gerðist ríkið aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Marokkó gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990.
Í ofangreindum gögnum kemur fram að löggæslunni í landinu sé dreift niður á nokkrar mismunandi stofnanir, þ. á m. ríkislögregluna sem sé undir yfirstjórn innanríkisráðuneytisins. Til staðar sé til að mynda embætti umboðsmanns, sem m.a. hafi sinnt sáttameðferðum í einkamálum og rannsóknum vegna kvartana sem beint hafi verið til hans vegna brota á grundvallarréttindum borgara landsins. Gögn kveði á um að mikil spilling fyrirfinnist í allri stjórnsýslu landsins. Þá gæti virðingarleysis gagnvart landslögum hjá öryggissveitum landsins. Dómskerfið eigi að vera sjálfstætt en í málum sem snerti öryggi ríkisins eða stjórnarfar þess eða önnur pólitísk mál kunni stjórnvöld að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála. Ferðafrelsi sé tryggt í stjórnarskrá landsins og virði stjórnvöld almennt þann rétt.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Eins og áður er rakið lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. mars 2017. Kærandi var boðaður til viðtala hjá Útlendingastofnun vegna umsóknarinnar þann 8. janúar og 8. febrúar 2018. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa yfirgefið heimaríki sitt vegna kynhneigðar, en hann væri tvíkynhneigður. Voru helstu atriði í frásögn kæranda þau að hann hafi áttað sig á kynhneigð sinni 14 ára gamall þegar hann hafi haft samfarir við son bróður síns, en hann hafi verið á svipuðum aldri og kærandi. Eftir að fjölskylda kæranda hafi komist að sambandi þeirra hafi faðir kæranda beitt hann ofbeldi og vikið honum brott af heimilinu. Kærandi hafi dvalið í um mánuð í heimaríki eftir það en síðar farið til Líbýu að ósk föður síns svo enginn myndi vita af kynhneigð kæranda, en þar í landi hafi kærandi dvalið hjá vini sínum.
Næstu ár hafi kærandi dvalið ýmist í Líbýu eða heimaríki. Í heimaríki hafi hann hafi gist hjá vinkonu sinni. Kærandi hafi síðar snúið til baka til heimaríkis með leyfi móður sinnar og heimsótt hana með reglulegu millibili. Faðir hans hafi hins vegar komist að því að kærandi væri að heimsækja móður sína og í kjölfarið meinað honum að koma á heimili þeirra og dvelja hjá vinkonu sinni. Í framhaldinu hafi kærandi yfirgefið heimaríki, haldið til Líbýu og síðar til Ítalíu þar sem hann hafi dvalið í rúmt ár áður en hann hafi komið hingað til lands. Að mati Útlendingastofnunar var frásögn kæranda í heild sinni ótrúverðug og var hún ekki lögð til grundvallar í málinu. Þá var það mat stofnunarinnar að frásögn kæranda af kynhneigð hans væri ótrúverðug að öllu leyti og var því ekki byggt á henni við úrlausn málsins.
Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 5. september 2018. Í viðtali hjá kærunefnd svaraði kærandi spurningum nefndarinnar um ástæður flótta frá heimaríki með mjög almennum hætti. Hann kvaðst hafa lagt á flótta þar sem honum hafi ekki fundist hann tilheyra landinu. Er kærandi var spurður hvort hann gæti lýst atvikum nánar kvað kærandi að ekkert í heimaríki léti honum líða eins og manneskju og að þar væri engin virðing borin fyrir einstaklingum. Undir lok viðtalsins var gert hlé á viðtalinu og var kæranda veitt tækifæri til að ráðfæra sig við talsmann sinn í einrúmi. Eftir að viðtalið hófst að nýju kvaðst kærandi engu vilja bæta við fyrri framburð sinn í viðtalinu. Þótt kærandi hafi ekki tjáð sig með skýrum hætti um þau atvik sem leiddu til þess að hann lagði á flótta frá heimaríki í viðtali hjá kærunefnd verður lagt mat á trúverðugleika framburðar hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun og svörum kæranda í viðtali hjá kærunefnd að öðru leyti.
Við mat á trúverðugleika framburðar umsækjenda um alþjóðlega vernd verður að taka tillit til þess að umsækjendur hafa í mörgum tilvikum upplifað atburði sem gera að verkum að minni þeirra um tiltekin atvik sem leiddu til flótta þeirra frá heimaríki getur verið reikult. Við þær aðstæður og þegar langt er liðið síðan atvik áttu sér stað verður almennt ekki litið svo á að misræmi t.d. að því er varðar nákvæma tímaröð atburða og dagsetningar þeirra hafi þau áhrif að framburður umsækjenda verði í heild sinni metinn ótrúverðugur af þeim sökum eingöngu. Á hinn bóginn verður ekki horft framhjá því að svör kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun um hvenær þau atvik sem um ræðir í málinu hafi átt sér stað og hversu gamall kærandi hafi verið á þeim tíma voru óljós og mjög á reiki. Af viðtölum Útlendingastofnunar við kæranda er ljóst að örðugt var að fá kæranda til að upplýsa um þessi atriði með skýrum hætti þrátt fyrir að vera spurður ítrekað um tímaröð atburða.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. janúar 2018 kom t.d. fram hjá kæranda að þau atvik sem hafi gert það að verkum að hann flúði heimaríki hefðu átt sér stað fyrir um það bil þremur og hálfu ári. Þá hafi faðir hans komist að því að hann hafi átt í samböndum við stráka, rekið hann að heiman og frá heimaríki til Líbýu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. febrúar sl. greindi kærandi hins vegar frá því að faðir hans hafi komist að kynhneigð hans árið 2011 þegar hann hafi verið 15 ára og vikið honum af heimilinu. Kvaðst kærandi þá, eins og áður er lýst, hafa dvalið til skiptis í heimaríki og Líbýu næstu 2-3 árin þar til faðir hans hafi meinað honum að dvelja í heimaríki eftir að hafa komist að heimsóknum kæranda til móður sinnar.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi jafnframt hafa orðið fyrir líkamsárás í heimaríki vegna kynhneigðar. Kærandi kvaðst hafa kært árásina til lögreglu en að ekkert hafi gerst í kjölfarið. Fyrir kærunefnd var kærandi spurður hvort hann hafi orðið fyrir ofbeldi í heimaríki. Kom fram í svörum kæranda að hann hafi orðið fyrir tveimur líkamsárásum þar í landi af hendi ókunnugra manna. Kvaðst kærandi ekki hafa leitað til lögreglu vegna árásanna þar sem lögregla myndi hvort eð er ekkert aðhafast. Ljóst er að framburður hans fyrir kærunefnd um að hann hafi ekki leitað til lögreglu vegna líkamsárása sem hann kveðst hafa orðið fyrir stangast á við framburð hans hjá Útlendingastofnun, þar sem kærandi kvaðst hafa kært þá árás til lögreglu.
Í viðtali Útlendingastofnunar við kæranda þann 7. janúar sl. kvað kærandi að fyrrnefndur bróðir hans væri um 20 árum eldri en hann. Aðspurður um nánustu fjölskyldumeðlimi kom fram hjá kæranda að móðir hans væri frá Marokkó en að faðir hans væri frá Líbýu. Þá greindi kærandi frá því að hann ætti sex systkini. Í viðtali kærunefndar við kæranda kvað kærandi aftur á móti að faðir hans væri frá Marokkó og að hann ætti fjórar systur og einn bróður. Kom fram hjá kæranda að bróðir hans væri um tveimur árum eldri en hann, eða 23 til 24 ára. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi jafnframt inntur eftir því hvort hann hefði átt í sambandi við bróðurson sinn. Neitaði kærandi að hafa átt í slíku sambandi. Þegar vísað var til framburðar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun um að hann hefði átt í sambandi við bróðurson sinn sagði kærandi það ekki vera satt. Samkvæmt framangreindu er mjög mikið misræmi í frásögnum kæranda um þetta lykilatriði málsins.
Í máli kæranda liggur því fyrir, eins og rakið hefur verið, að frásögn kæranda um fjölmörg atriði málsins sem gera má kröfu um að samræmi sé á milli tók breytingum í viðtali hans hjá kærunefnd. Gekk framburður kæranda í viðtali hjá kærunefnd, m.a. um hvort hann hefði átt í sambandi við bróðurson sinn, þjóðerni föður kæranda, aldur bróður hans, fjölda systkina og hvort kærandi hafi kært líkamsárásir til lögreglu í heimaríki, þvert á framburð hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun sem einnig einkenndist af verulegu innra ósamræmi. Að mati kærunefndar dregur mótsagnakenndur framburður kæranda um þessi atriði að mestu leyti úr trúverðugleika hans. Þá telur kærunefnd að svör kæranda í viðtali hjá kærunefnd þess efnis að hann hafi ekki átt í sambandi við bróðurson sinn grafa undan trúverðugleika kæranda varðandi kynhneigð hans, en í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvað kærandi samband hans við bróðurson sinn m.a. hafa leitt til þess að hann áttaði sig á kynhneigð sinni. Í málinu liggur einnig fyrir skýrsla ráðgjafa Samtakanna ´78 sem rituð var eftir viðtal ráðgjafans við kæranda. Aðspurður kannaðist kærandi ekki við að hafa átt samskipti við samtökin.
At mati kærunefndar var verulegt innra ósamræmi í framburði kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Telur kærunefnd að trúverðugleikamat stofnunarinnar hafi verið í samræmi við þá aðferðafræði sem birtist í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat og vísað var til að framan. Þegar við bætist frekara ósamræmi í framburði kæranda hjá kærunefnd, þar sem hann kannaðist ekki við grundvallarþætti sem hann hafði áður lýst að lægju að baki umsókn hans um alþjóðlega vernd, telur nefndin ljóst að ekki verður hægt að byggja á þeim og að við það hafi enn frekar dregið úr trúverðugleika frásagnar kæranda. Þá voru þær aðstæður sem kærandi lýsti í viðtali hjá kærunefnd að hann byggi við í heimaríki og gerð var grein fyrir að framan ekki þess eðlis að þær eigi undir 37. gr. laga um útlendinga.
Eins og áður sagði gaf kærunefnd kæranda og talsmanni hans tíma til að ræða saman í einrúmi áður en viðtali lauk. Að loknu viðtalshléi hafði kærandi engu að bæta við sína frásögn.
Samkvæmt öllu framangreindu verður frásögn kæranda metin ótrúverðug í heild sinni og hvorki lagt til grundvallar að kærandi sé tvíkynhneigður né að hann hafi flúið heimaríki sitt af þeim ástæðum sem hann lýsti hjá Útlendingastofnun.
Að mati kærunefndar, að teknu tilliti til trúverðugleikamats, hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Í ljósi þess sem að framan er rakið, m.a. um trúverðugleika framburðar kæranda, og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi er ungur og einstæður karlmaður og liggur ekki annað fyrir en að hann sé við ágæta heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins, m.t.t. trúverðugleikamats á framburði kæranda, eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. mars 2017. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir