Hoppa yfir valmynd
15. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 239/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 239/2021

Miðvikudaginn 15. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 11. maí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. mars 2021 um að synja umsókn kæranda um ellilífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 9. febrúar 2021 barst Tryggingstofnun ríkisins frá B umsókn kæranda um ellilífeyri á eyðublaði P 2000. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. mars 2021, var kæranda synjað um ellilífeyri á þeim grundvelli að kærandi uppfyllti ekki það skilyrði greiðslna ellilífeyris samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa að hafa verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. maí 2021. Með bréfi, dags. 12. maí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. júní 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júní 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn kæranda um ellilífeyri. Ástæða ákvörðunarinnar sé sú að kærandi hafi ekki verið skráður á Íslandi nógu lengi sem sé ekki rétt. Á tímabilinu 10. desember 2006 til 31. desember 2007 hafi kærandi verið að vinna fyrir fyrirtækið C. Vinnusamningur hans og öll hans dvöl þar hafi verið lögleg eins og fram komi í gögnum málsins. Þegar kærandi hafi unnið í fjöllunum hafi hann unnið tólf tíma á dag og sex daga vikunnar. Vinnuveitandinn hafi séð um skriffinnsku í tengslum við gistingu og ferðalög. Þess vegna sé það ómögulegt að hann hafi einungis verið skráður á Íslandi í 0,15 ár, þetta hljóti að vera mistök. Kærandi hafi búið löglega á Íslandi í 1 ár, tvo og hálfan mánuð. Þess vegna eigi kærandi rétt á ellilífeyri frá Íslandi í samræmi við EB reglur. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar á umsókn um ellilífeyri.

Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnist full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar eigi einstaklingar búsettir á Íslandi rétt til örorkulífeyris. Í 4. mgr. 18. gr. laganna sé síðan kveðið á um að við ákvörðun búsetutíma skuli reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.

Í lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur komi fram í 2. gr. laganna að lögheimili sé sá staður þar sem einstaklingur hafi fasta búsetu og ekki sé heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt sé einnig að eiga lögheimili á Íslandi, eigi viðkomandi lögheimili erlendis.

Í 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa komi fram að þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 52. gr. sé stofnun í aðildarríki ekki skylt að veita bætur vegna tímabila sem lokið sé samkvæmt þeirri löggjöf sem hún starfi eftir og tekið sé tillit til þegar áhættan komi fram, ef umrædd tímabil séu ekki lengri en eitt ár.

Málavextir séu þeir að Tryggingastofnun hafi móttekið umsókn þann 9. febrúar 2021 um ellilífeyri frá B á formi P 2000. Umsóknin hafi borist Tryggingastofnun í gegnum RINA, rafrænan samskiptamáta sem notaður sé á milli almannatryggingastofnana á EES svæðinu til að skiptast á almannatryggingaupplýsingum.

Í framhaldi af móttöku umsóknarinnar frá B hafi umsóknin verið send til D lífeyrissjóðs með tilkynningu um að umsókn um lífeyri frá öðru EES-ríki hafi borist Tryggingastofnun.

Með bréfi, dags. 17. mars 2021, hafi Tryggingastofnun tilkynnt kæranda um réttindi hans hér á landi til ellilífeyris. Í fyrrnefndu bréfi sé vitnað til EB reglugerðar nr. 883/2004 og til laga um almannatryggingar. Þar sé meðal annars greint frá því að til að öðlast rétt til lífeyris þurfi einstaklingur að vera skráður með lögheimili á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár til að öðlast rétt til lífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar. Fram komi í bréfinu að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um eins árs tryggingatímabil hér á landi og jafnframt hafi verið tilgreint að hann hafi eingöngu verið skráður með lögheimili hér á landi í 0,15 ár. Í bréfinu hafi einnig verið bent á það að umsókn hjá Tryggingastofnun sé jafnframt umsókn um lífeyri hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og þess vegna hafi umsókn kæranda verið framsend til lífeyrissjóðanna.

Í apríl 2021 hafi Tryggingastofnun fengið svar frá D lífeyrissjóði þar sem fram komi að kærandi hafi hlotið eingreiðslu úr D lífeyrissjóði upp á 1.329.643 kr.

Þegar Tryggingastofnun úrskurði um það hvort einstaklingur eigi rétt til örorkulífeyris/ellilífeyris hér á landi verði stofnunin að afla gagna um skráningu á lögheimili hér á landi hjá Þjóðskrá. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi verið skráður með lögheimili hér á landi frá 9. nóvember 2007 til 1. janúar 2008. Þar sem um svo stutt ávinnslutímabil sé að ræða skapast engin ávinnsla á réttindum er veiti rétt til greiðslu á örorku- eða ellilífeyri hjá Tryggingastofnun. Við vinnslu málsins hafi Tryggingstofnun einnig leitað upplýsinga frá Greiðslustofu lífeyrissjóða varðandi mál kæranda og samkvæmt yfirliti frá þeim séu iðgjaldagreiðslur skráðar á kæranda til D lífeyrissjóðs á árunum 2006, 2007 og 2008.

Samkvæmt 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili. Gögn frá Þjóðskrá gefi til kynna að kærandi hafi einungis búið hér á landi í skilningi laga um lögheimili og aðsetur í mjög skamman tíma eða frá 9. nóvember 2007 til 1. janúar 2008, þ.e. í einn mánuð og 21 dag, þrátt fyrir vinnutímabil á árunum 2006, 2007 og 2008. Engin ávinnsla á grundvelli búsetu hafi átt sér stað á þessum árum þar sem kærandi hafi ekki skráð lögheimili hér á landi nema frá 9. nóvember 2007 til 1. janúar 2008 sem sé svo skammur tími að engin réttindaávinnsla hafi átti sér stað samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Það sé á ábyrgð kæranda að skrá lögheimili sitt á réttan hátt og á ábyrgð vinnuveitanda að greiða tryggingagjöld af atvinnustarfsemi hér á landi, auk þess að standa skil á greiðslum í lífeyrissjóð. Upplýsingar liggi ekki fyrir hvort kærandi hafi verið með E 101 vottorð (sbr. núgildandi A1 vottorð) á einhverju þessara vinnutímabila sem kærandi hafi verið að vinna hér á landi og hafi greitt í íslenskan atvinnutengdan lífeyrissjóð. Hins vegar megi leiða að því líkur að slíkt vottorð hafi ef til vill verið gefið út þar sem kærandi hafi fengið eingreiðslu úr D lífeyrissjóði er nemi 1.329.643 kr. Geta megi þess að íslensku lífeyrissjóðirnir falli undir EB reglugerð nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa.

Tryggingastofnun telji að kærð ákvörðun hafi byggst á lögum um almannatryggingar og réttri lagaframkvæmd. Greiðslur frá D lífeyrissjóði hafi verið greiddar út til kæranda og kærandi fengið þær greiðslur sem honum beri samkvæmt íslenskum lögum. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. mars 2021 á umsókn kæranda um ellilífeyri.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir svo:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris að umsækjandi hafi verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár frá 16 til 67 ára. Búseta í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins getur einnig komið til skoðunar þegar metið er hvort búsetuskilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar sé uppfyllt, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar og 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Tryggingastofnun er þó heimilt að gera kröfu um að viðkomandi hafi að minnsta kosti verið búsettur á Íslandi í eitt ár, sbr. 1. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 883/2004, sem hljóðar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 52. gr. er stofnun í aðildarríki ekki skylt að veita bætur vegna tímabila sem lokið er samkvæmt þeirri löggjöf sem hún starfar eftir og tekið er tillit til þegar áhættan kemur fram, ef:

— umrædd tímabil eru ekki lengri en eitt ár,

og

— þessi tímabil ein og sér nægja ekki til að viðkomandi eigi rétt til bóta samkvæmt þeirri löggjöf.

Í þessari grein merkir hugtakið „tímabil“ öll tryggingatímabil, starfstímabil launþega, starfstímabil sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabil sem annaðhvort eru tekin gild vegna viðkomandi bóta eða hækka þær beint.“

Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar aðstæður leiði til annars, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu.

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá var kærandi skráður með lögheimili á Íslandi á tímabilinu 9. nóvember 2007 til 1. janúar 2008. Af gögnunum verður því ráðið að kærandi hafi einungis verið búsettur á Íslandi í tæpa tvo mánuði á árinu 2007.

Kærandi byggir á því að hann unnið á Íslandi í rúma fjórtán mánuði og liggja fyrir gögn frá Afli starfsgreinafélagi og yfirlit frá D lífeyrissjóði þar sem fram koma upplýsingar um greiðslu iðgjalda með hléum á árunum 2006 til 2008. Einnig liggur fyrir ráðningarsamningur, dags. 30. september 2006. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnst réttur til ellilífeyris með búsetu á Íslandi. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að taka tillit til starfstímabils kæranda á Íslandi við mat á því hvort hann hafi áunnið sér rétt til ellilífeyris. Þá telur úrskurðarnefndin framangreind gögn ekki staðfesta að kærandi hafi verið með fasta búsetu á Íslandi á framangreindu tímabili, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi hafi átt lögheimili á Íslandi í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur í tæplæga tvo mánuði. Þar af leiðandi uppfyllir kærandi ekki það skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, um að hafa verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um ellilífeyri er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um ellilífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta