Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2007 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samstarfssamningur milli Færeyja, Grænlands og Íslands um mennta-, menningar- og vísindamál

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Jógvan á Lækjuni menntamálaráðherra Færeyja og Tommy Marø menntamálaráðherra Grænlands undirrituðu í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar í dag 29. nóvember 2007 samstarfssamning milli landanna um mennta-, menningar- og vísindamál.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Jógvan á Lækjuni menntamálaráðherra Færeyja og Tommy Marø menntamálaráðherra Grænlands undirrituðu í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar í dag 29. nóvember 2007 samstarfssamning milli landanna um mennta-, menningar- og vísindamál. Samningurinn gildir til næstu þriggja ára.

Markmiðið með samningnum er að styrkja og þróa menningarsamskipti milli landanna þriggja í Útnorðri. Árið 2008 verður helgað verkefnum á sviði handverks og hönnunar. Með þeim verkefnum er verið að undirstrika þýðingu handverks og hönnunar og að skapa þessum listformum fastan sess innan listasköpunar. Þessi listgrein er mikilvæg atvinnulífinu, menningartengdri ferðaþjónustu og ekki síst þeirri listrænu þróun sem á sér stað í dag í vestnorrænu löndunum. Í löndunum eru skýr tengsl milli hefðar og nýsköpunar. Handverk og hönnun stendur föstum fótum í menningararfinum, en þangað sækja ungir listamenn innblástur og hugmyndir. Það er nauðsynlegt að styrkja þekkingu og vitneskju innan þessara greina til að tryggja gæði og afkomu þeirra. Einkum verður horft til hönnuða og handverksfólks af yngri kynslóðinni í þessu vestnorræna átaki.

Árið 2009 verður áherslan á óformlegar menntunarleiðir í sjálfbærri þróun.  Nýting auðlinda verður að byggja á sjálfbærum grundvelli, bæði með tilliti til þjóða og alþjóðasamfélagsins. Samtímis byggist sjálfbært samfélag einnig á virðingu fyrir menningu og menningararfi þjóða. Vestnorrænu löndin hafa því ákveðið að auka samstarf sín á milli og fræðslu í sjálfbærri þróun, bæði með formlegum hætti í skólum og menntastofnunum sem og á óformlegan hátt með útbreiðslu þekkingar. Með því að deila reynslu sinni geta þjóðirnar bætt við sig fleiri hagnýtum verkefnum í löndunum þremur og samtímis getur það verið framlag til áætlunar um menntun á sviði sjálfbærrar þróunar og þar með virkt framlag til að minnast 10 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Árið 2010 verður efnt til sumarnámskeiða fyrir ungt fólk í Útnorðri. Með verkefninu verður ungmennum frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum gert kleift að kynnast hvert öðru og færa þeim meiri þekkingu á löndum hvers annars, að búa til tengslanet milli ungmenna í Útnorðri og að skapa skilning á þýðingu samstarfs milli landanna. Ætlunin er að styrkja tengslin og samstarfið milli landanna og annarra landa á Norðurlöndum ásamt því að efla áhuga grannlandanna á tungumáli, sögu, menningu, umhverfi og auðlindum á vestnorræna svæðinu.

Við þetta tækifæri voru ráðherrarnir sammála um að samstarf á sviði menningar, - mennta, - og vísindasamstarfs hefði mikla þýðingu fyrir hið vestnorræna samstarf. Ráðherrarnir leggja ennfremur áherslu á norrænt samstarf og það hve mikilvægt er að vestnorrænu löndin taki þátt í norrænu og alþjóðlegu samstarfi og að vestnorrænt samstarf á þessu sviði beri að styrkja og þróa þannig að löndin verði virkir þátttakendur í þeim breytingum sem hnattvæðingin hefur í för með sér.

Samstarfssamningur milli Færeyja, Grænlands og Íslands á þessu sviði hefur verið í gildi allt frá árinu 1996 og á þeim tíma hefur verið ýtt úr hlaði verkefnum á borð við samstarf tónlistarskóla, markaðssetningar listsköpunar, samstarf háskóla, stjórnendamenntun í frjálsu félagsstarfi, rithöfundanámskeið og ritun nútímasögu Vestur-Norðurlanda. Að þessum verkefnum hefur komið fjöldi fólks og með þessu móti hefur samvinna og samstarf Færeyja, Grænlands og Íslands eflst til muna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta