Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2023 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 24/2023-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 24/2023

 

Frístundabyggð: Lögmæti aðalfundar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 8. mars 2023, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.   

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, sbr. og 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 26. mars 2023, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 6. júlí 2023.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi er eigandi frístundahúss á Frístundasvæði C en gagnaðili er B á svæðinu. Ágreiningur er um lögmæti aðalfundar sem haldinn var 3. maí 2021 vegna áranna 2019 og 2020 á Teams.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

  1. Að viðurkennt verði að aðalfundur sem haldinn var 3. maí 2021 vegna áranna 2019 og 2020 sé ólögmætur sem og þær ákvarðanir sem á honum voru teknar.

Í álitsbeiðni segir að í umræðu á aðalfundi sem haldinn hafi verið á árinu 2023 hafi álitsbeiðanda fyrst orðið ljóst að haldinn hafði verið aðalfundur vegna áranna 2019 og 2020 á Teams 3. maí 2021. Sá fundur virðist ekki hafa verið boðaður með eðlilegum hætti, sbr. lög um frístundabyggð. Framkvæmd hans hafi ekki verið í samræmi við lög. Þá hafi hann hvorki verið skráður lögformlega né fundarsköp verið í samræmi við reglur um fundarstjórn húsfélaga. Hvorki séu upplýsingar um fjölda fundarmanna né hve margir þeirra félagsmanna sem höfðu vitneskju um fundinn en gátu ekki nýtt sér hann vegna vankunnáttu eða skorts á búnaði til þátttöku. Stjórnin hafi afgreitt tillögu um að hækka félagsgjöld og fjárfesta í stórfelldum og stjórnlausum snjómokstri, sem hingað til hafi ekki verið útgjaldaliður á ársreikningi nema í óverulegum mæli árin 2018-2019.

Í lögum gagnaðila sé kveðið á um hlutverk stjórnar. Ætlast sé til að hún komi fram fyrir hönd gagnaðila hvað varði samskipti við leigusala, sem og samskipti við sveitarfélag, auk þess að stuðla að góðum samskiptum milli félagsmanna sem og framfylgja öðrum skyldum félagsins. Taumlaus fjárútlát vegna snjómoksturs virðast vera í forgangi hjá stjórninni, sem hafi borið því við að það sé höfuðskylda hennar að gæta öryggis félagsmanna. Fjöldi fólks hafi aldrei þurft að greiða fyrir snjómokstur fyrstu 45 árin af lóðarsamningi sínum, fólk sem hafi farið í bústað sinn þegar fært sé.

Fundurinn hafi ekki verið boðaður í samræmi við ákvæði 20. gr. laga nr. 75/2008. Fundaraðgerð hafi ekki verið með viðurkenndum hætti. Fundarsköp hafi ekki verið í samræmi við reglur um aðalfundarsköp. Fundargerð sé ófullnægjandi og gefi litla mynd af því sem hafi farið fram. Ekki komi neitt fram um fundarstjórnanda. Ekkert segi um hverjir hafi verið viðstaddir né hversu margir. Fundurinn sé því ómarktækur og allar samþykktir ógildar, sem og kjör nýrrar stjórnar.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að vegna Covid hafi aðalfundur vegna áranna 2019 og 2020 verið haldinn á netinu. Fundurinn hafi verið auglýstur á lokaðri facebook síðu félagsins og tölvupóstur sendur til þeirra sem höfðu upplýst um netfang sitt. Engar ákvarðanir hafi verið teknar á þessum fundi sem hafi kallað á aukinn meirihluta fundarmanna eða félagsmanna og því hafi meirihluti fundarmanna ráðið ákvörðunum. Stjórn gagnaðila fari eftir lögum sínum, sem og lögum nr. 75/2008.

Fundargerð hafi verið rituð á fundinum. Allir hafi haft málfrelsi á fundinum og hlustað hafi verið á öll framkomin sjónarmið. Rétt sé að ekki komi fram í fundargerð hversu margir hafi verið á fundinum á Teams. Varðandi þá sem hafi ekki getað nýtt fundinn vegna vankunnáttu þá hafi stjórnin ekki upplýsingar um það enda enga kvörtun fengið þar um. Stjórnin hafi ekki keypt nein snjómoksturstæki eða gert fastan samning um snjómokstur. Hún hafi einungis brugðist við þegar ófærð hafi hamlað aðgengi félagsmanna að húsum sínum, en þó aðeins um valdar helgar og um hátíðisdaga og þegar mikil óveður hafi verið um og vegir lokast.

III. Forsendur

Aðilum er kunnugt um að mál kærunefndar nr. 10/2023 fjallar um hvort sami gagnaðili boði til félagsfunda með lögmætum hætti. Í máli þessu er sama ágreiningsefni til úrlausnar, þ.e. aðferð gagnaðila við fundarboðun. Þrátt fyrir þessa vitneskju vildi álitsbeiðandi halda áfram með mál þetta enda fjalli það ekki um sama fund og ágreiningur snýr að í máli nr. 10/2023. Þótt ekki sé um sama fundinn að ræða þá var boðað til hans með sama hætti og gilda því sömu sjónarmið hér um. Að þessu virtu er vísað til forsendna í máli nr. 10/2023 og fallist á kröfu álitsbeiðanda í máli þessu en rétt er þó að hnykkja á eftirfarandi atriðum..

Í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2008 segir að aðalfund skuli boða bréflega með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Geta skuli þeirra mála sem eigi að ræða og meginefni tillagna þeirra sem leggja eigi fyrir fundinn. Þá er í 3. mgr. sömu greinar tilgreint hvaða mál skuli að minnsta kosti vera á dagskrá á aðalfundar.

Í 6. gr. í samþykktum gagnaðila segir að boða megi fund með tölvubréfi á það póstfang sem forráðamaður hefur látið stjórninni í té og telst það fullnægjandi svo fremi að ekki komi boð um það til sendanda að tölvubréfið hafi ekki komist til skila.

Fram kemur í framangreindu lagaákvæði að aðalfund skuli boða bréflega en kærunefnd telur það engu breyta í þessu tilliti hvort fundarboð sé sent félagsmönnum með tölvupósti á þau netföng sem þeir hafa gefið upp eða með póstsendingu á lögheimili þeirra. Í málatilbúnaði gagnaðila kemur fram fram að boðað hafi verið til fundarins á facebook síðu félagsins og að fundarboð hafi verið send á netföng þeirra sem hafi gefið upp netföng sín. Boðun fundar á facebook er ekki fullnægjandi boðunarháttur, hvorki á grundvelli laganna né samþykkta félagsins. Stjórnin þarf því að tryggja að aðrir en þeir sem hafa gefið stjórninni upp tölvupóstfang sitt séu boðaðir til fundarins með lögmætum hætti, svo sem með bréfpósti.

Að framangreindu virtu fellst kærunefnd á kröfu álitsbeiðanda um ólögmæti fundarins.

 

 


IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að fallast beri á kröfu álitsbeiðanda.

 

 

Reykjavík, 6. júlí 2023

 

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

 

Víðir Smári Petersen                                                 Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta