Hoppa yfir valmynd
24. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 47/2010

Föstudaginn 24. september 2010

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir, og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi sem barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 26. janúar 2010 kærir A endureikning, svo og endurkröfur Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta á árunum 2004 og 2005.

Óskað er endurskoðunar.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga krefst kærandi þess að endurkröfur Tryggingastofnunar á hendur henni verði felldar niður, auk þess sem hún gerir athugasemdir við endurreikning tekjutengdra bótagreiðslna Tryggingastofnunar til hennar á árunum 2004 og 2005.

 

Með bréfi, dags. 27. janúar 2010, var óskað greinargerðar Tryggingastofnunar ríkisins. Í greinargerðinni, dags. 1. febrúar 2010, segir m.a. svo:

 „Svo virðist sem að kæruefnið sé endurreikningur ofgreiddra bóta vegna áranna 2004 og 2005. Kæranda var tilkynnt um niðurstöðu endurreikninganna á árinu 2006 og var upplýstur um þriggja mánaða kærufrest. Kæran er dagsett 30. desember 2009 og var þá kærufrestur sannarlega liðinn.

Samkvæmt 1. ml. 8. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 skal bera fram kæru innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar.

Skv. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með vísun til framanritaðs fer Tryggingastofnun fram á frávísun málsins frá úrskurðarnefndinni.

Þá upplýsist það hér með að beiðni kæranda um niðurfellingu krafna Tryggingastofnunar á hendur kæranda hefur verið framsend til samráðsnefndar Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna til afgreiðslu og athugunar hvort kærandi uppfylli skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um undanþágu frá endurgreiðslu ofgreiddra bóta.“

 

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2010, var greinargerðin kynnt kæranda og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða nýjum gögnum. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 1. mars 2010, auk viðbótargagna, þ. á m. bréf Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 4. febrúar 2010, þar sem segir m.a.:

 „Tryggingastofnun hefur borist beiðni þín um niðurfellingu á kröfu stofnunarinnar á hendur þér vegna ofgreiddra bóta lífeyristrygginga. Samráðsnefnd um meðferð ofgreiðslna hefur fengið erindið til afgreiðslu. Að öllum líkindum mun erindið verða afgreitt innan 8 vikna frá dagsetningu bréfs þessa.“

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun.  Þann 2. júlí 2010 barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun sem kynnt var kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna til kæranda og auk þess endurgreiðslukröfur stofnunarinnar á hendur kæranda vegna bóta er stofnuninni reiknaðist til að hefðu verið ofgreiddar.

Kærandi óskar niðurfellingar endurgreiðslukrafna Tryggingastofnunar vegna ofgreiddra bóta á árunum 2004 og 2005, auk þess sem hún gerir athugasemdir við endurreikning Tryggingastofnunar á bótagreiðslum sömu ára.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er óskað frávísunar varðandi endurreikninginn á þeim forsendum að kærufrestur sé liðinn.  Þá er tekið fram að beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu sé til meðferðar hjá samráðsnefnd stofnunarinnar um meðferð ofgreiðslna.

Samkvæmt 7. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 leggur óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á mál rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Þá er í 1. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar kveðið á um að kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga skuli vera skrifleg og hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.  Er ákvæði þetta í samræmi við ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem hefur að geyma þá almennu reglu að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um hvernig fara skuli með kæru sem berst að liðnum kærufresti.  Þar segir:

 Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

 

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

 

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

 

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Kæranda var með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. júní 2006, tilkynnt um endurreikning og uppgjör bótagreiðslna ársins 2004 og með bréfi, dags. 27. október 2006, tilkynnt um endurreikning og uppgjör bótagreiðslna ársins 2005.  Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 26. janúar 2010.

Samkvæmt framangreindu leið meira en ár frá því að kæranda var kynnt niðurstaða endurreiknings og uppgjörs bótagreiðslna áranna 2004 og 2005 þar til kæra hennar barst úrskurðarnefnd almannatrygginga.  Með vísan til þess og framangreinds ákvæðis 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga mun endurreikningur og uppgjör bótagreiðslna áranna 2004 og 2005 ekki sæta efnislegri úrlausn í úrskurði þessum.

Samkvæmt gögnum málsins kom beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar fyrst fram með kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort Tryggingastofnun hafi tekið afstöðu til þeirrar beiðni kæranda og því er ekki upplýst hvort Tryggingastofnun hafi tekið kæranlega ákvörðun tengda beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu.  Úrskurðarnefnd almannatrygginga tekur niðurfellingarbeiðnina því ekki til efnislegrar úrlausnar í úrskurði þessum.  Kæranda skal hins vegar á það bent að hún getur leitað til úrskurðarnefndarinnar á ný eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar varðandi niðurfellingarbeiðni hennar liggur fyrir.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd almannatrygginga.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta