Hoppa yfir valmynd
16. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 243/2010

Miðvikudaginn 16. mars 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. júní 2010, kærir A ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um áætlun bótagreiðslna vegna ársins 2010.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi fékk senda greiðsluáætlun fyrir árið 2010 frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 19. janúar 2010. Útreikningur greiðsluáætlunarinnar var framkvæmdur samkvæmt upplýsingum úr tekjuáætlun fyrir árið 2010 og gengisviðmiðun Seðlabanka Íslands. Nýjar tekjuupplýsingar bárust frá kæranda og var greiðsluáætlunin uppfærð til samræmis við þær. Kæranda var kynnt sú niðurstaða með bréfi dags. 19. febrúar 2010 og mótmælir kærandi því hvernig staðið var að útreikningi hennar.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 „Við viljum kæra þessa ákvörðun varðandi lækkun Ellilífeyris okkar Íslendinga búsetta erlendiss, þar sem ellilífeyrir í X lækkaði frá og með janúar 2010. Við álítum það ekki rétt að reikna út ellilífeyrir í X eins og við hefðum komið með peningana til Íslands og notað þá þar. Íslendingar sem hafa flutt tilbaka til Islands þéna á þessum útreikningi en við sem erum utanlands stórtöpum á þessu, peningarnir eru horfnir áður en þeir koma út úr hraðbönkonum. Þetta er mjög óréttlátt og þarf að skoða betur, við lifum í X eftir X verðlagi, Notið þið sama reknisett fyrir Íslendinga sem hafa unnið erlendis og fá ellilífeyri erlendis frá.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 10. júní 2010. Úrskurðarnefnd barst greinargerð frá stofnuninni dags. 30. júlí 2010 þar sem segir:

 Kærð er lækkun á ellilífeyrisgreiðslur frá 1. janúar 2010.

Kærandi fær greiddan ellilífeyri hér á landi og nýtur einnig lífeyrisgreiðslna frá X.

Ellilífeyrisgreiðslur eru tekjutengdar greiðslur og er fjallað um tekjutenginguna í 16.gr. almannatryggingalaga og reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta o.fl.   Í 2.gr. þeirrar reglugerðarinnar kemur fram að tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Tekjutengdar lífeyrisgreiðslur til kæranda í X hafa áhrif á ellilífeyrisgreiðslur hér á landi eins og greiðslur úr lífeyrissjóðum hér á landi.  Þar sem ellilífeyrisgreiðslur hér á landi fara fram í íslenskum krónum þarf að umreikna tekjur úr X krónum (X) í íslenskar krónur fyrir útreikning á rétti til ellilífeyrisgreiðslna hér á landi.

Í útreikning á greiðslum fyrir árið 2009 hjá þeim lífeyrisþegum sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum var miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðils gagnvart íslensku krónunni í janúar 2008. Byggðist það á tilmælum í bréfi frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu dags. 1. desember 2008 og var frávik frá venjulegum reglum vegna mikilla umbrotatíma í íslensku efnahagslífi.  Fram kom að tilmælin gildi vegna útreiknings tekjutengdra bóta ársins 2009 eða þar til annað verði ákveðið.

Eins og kunnugt er varð Ísland fyrir miklum efnahagslegum áföllum haustið 2008.  Þetta hafði meðal annars þau áhrif að gengi íslensku krónunnar veiktist mjög gagnvart erlendum gjaldmiðlum. 

Kærandi fékk sent bréf sem frá Tryggingastofnun dags. 12. desember 2008 þar sem upplýst var um ýmsar aðgerðir stofnunarinnar fyrir hönd sinna skjólstæðinga í tengslum við þær óvenjulegu aðstæður sem upp höfðu komið.  Þar kom m.a. fram að vegna tekjutengdra greiðslna á árinu 2009 yrði miðað við gengi erlendra gjaldmiðla eins og það var í  janúar 2008. 

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands var meðalgengi X í íslenskum krónum X kr. á árinu 2009 sem er miklu hærra en í janúar 2008 þegar það var X kr.  Þessi ákvörðun var bótaþegum búsettum erlendis mjög í hag, því tekjur þeirra erlendis voru reiknaðar á gömlu og lægra gengi og höfðu þar af leiðandi minni áhrif á bætur.

Endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2009 hefur hvað tekjur kæranda í X varðar farið fram miðað við gengi íslensku krónunnar í janúar 2008 en ekki raunverulegt meðalgengi árið 2009.  Þetta gervigengi verður að teljast kæranda mjög í hag og mildar áhrifin af mikilli raunlækkun krónunnar fyrir bótaþega Tryggingastofnunar erlendis.

Á árinu 2010 er á hinn bóginn miðað við gengi krónunnar í október 2009 sem var miklu lægra gagnvart erlendum gjaldmiðlum en janúargengið 2008.  Þetta hefur þau áhrif að erlendar tekjur vega mun þyngra til skerðingar í bótaútreikningi fyrir árið 2010 en þær gerðu í bótaútreikningi fyrir árið 2009.  Eðlilega eru ellilífeyrisgreiðslur kæranda hér á landi því lægri á árinu 2010 en þær voru á árinu 2009.

Kæranda var sent bréf dags. 19. janúar 2010 ásamt greiðsluáætlun fyrir árið 2010 og tillögu að tekjuáætlun kæranda árið 2010.  Upplýsingar um viðmiðunargengi þeirra gjaldmiðla sem um getur verið að ræða kom fram á bakhlið tekjuáætlunarinnar. Þar kemur fram að miðað verði við að ein X jafngildi X krónum.

Ný tekjuáætlun kom frá kæranda dags. 3. febrúar 2010 þar sem að áætlaðar lífeyristekjur voru lækkaðar úr X í X.  Í framhaldi af tekjuáætluninni var þann 19. febrúar 2010 send ný greiðsluáætlun 2010.

Tryggingastofnun ríkisins telur að í þeirri tillögu að tekjuáætlun fyrir kæranda sem send var í janúar 2010 og einnig þeirra sem honum var send síðar í febrúar 2010 sé eðlilegt tillit tekið til áætlaðra tekna í X miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda með bréfi dags. 10. ágúst 2010 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum eða viðbótargögnum. Með bréfi dags. 18. ágúst 2010 bárust eftirfarandi athugasemdir frá kæranda:

 „Að ellilífeyrin lækkaði svo mikið að við höfum minna í mánuðin til saman en hvað annað okkar hafði í mánuðinn 2009. Það er ansi mikil lækkun þó að Krónan á Íslandi hafi breists. Svo hefur A ekki lengur orlofs uppbót ekki Desemberuppbót og ekki Tekjutryggingu lengur en lágar bætur að öðru leiti bæði á Íslandi og í X.“

 

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 23. ágúst 2010. Viðbótargreinargerð barst frá stofnuninni dags. 23. nóvember 2010 þar sem segir:

 „Borist hafa viðbótarathugasemdir þar sem fram kemur að bætur þeirra hjóna hafi lækkað það mikið að þau fái nú til samans á mánuði minna en annað þeirra hafði á árinu 2009.

Vissulega hafa mánaðarlega bætur þeirra hjóna frá Tryggingastofnun lækkað úr X kr. á árinu 2009 í X kr. á árinu.  Þessi lækkun er í fullu samræmi við þá lækkun sem orðið hefur  á gengi íslensku krónunnar eftir efnahagshrunið í október 2008 og frá því sem það var í janúar 2008.

Þar sem greiðslur á árinu 2009 voru ekki í neinu samræmi við raunverulegt gengi á árinu 2009 voru greiðslur á því ári hærri en þær hefðu verið ef miðað hefði verið við það gengi sem raunverulega átti á þeim tíma.  Það að greiðslur til kæranda voru þannig tímabundið reiknaðar út frá hagstæðara gengi en raunverulega átti við hefur ekki í för með sér að heimilt sé að halda því áfram á árinu 2010.“

 

Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt kæranda með bréfi dags. 25. nóvember 2010.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ágreining um greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins vegna ellilífeyrisgreiðslna til kæranda á árinu 2010.

Í rökstuðningi fyrir kæru greindi kærandi frá því að ellilífeyrisgreiðslur til hans hafi lækkað verulega frá árinu 2009. Kærandi taldi ósanngjarnt að lífeyrisgreiðslurnar væru reiknaðar út eins og hann hefði komið með tekjur sínar til Íslands og notað þær þar. Þeir Íslendingar sem hafi flutt aftur til Íslands græði á þessum útreikningum á meðan þeir sem ennþá búi erlendis stórtapi. Kærandi búi í X og lifi samkvæmt X verðlagi.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að stofnunin hafi talið útreikninga ellilífeyrisgreiðslnanna rétta. Við útreikning hafi verið litið til tekjuupplýsinga í tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2010. Þá hafi erlendar tekjur kæranda verið umreiknaðar yfir í íslenskan gjaldmiðil þar sem tekið hafi verið mið af meðalgengi X krónunnar í október 2009 samkvæmt gengisviðmiðun Seðlabanka Íslands.

Réttur kæranda til ellilífeyrisgreiðslna hér á landi hefur stoð í 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar þar sem segir meðal annars að þeir sem búsettir hafa verið hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs eigi rétt til ellilífeyris. Ellilífeyrir greiðist í hlutfalli við búsetutíma hér á landi sé hann skemmri en 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Þá kemur fram í 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar að ellilífeyrisgreiðslur séu tekjutengdar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar kemur fram hvaða tekjur leiða til skerðingar á lífeyristryggingum og hafa þar með áhrif við bótaútreikning. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að til tekna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Samkvæmt a lið 7. gr. þeirra laga teljast lífeyrisgreiðslur til tekna.

Hugtakið tekjur hefur verið nánar skilgreint í 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, þar sem segir:

Tekjur: Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.“

Samkvæmt tilvitnuðu reglugerðarákvæði hafa erlendar tekjur sömu áhrif á bótagreiðslur og væri þeirra aflað hér á landi. Í tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2010 var gert ráð fyrir lífeyrisgreiðslum frá erlendum lífeyrissjóðum og getur fjárhæð þeirra leitt til skerðingar á ellilífeyrisgreiðslum hér á landi fari þær yfir ákveðin frítekjumörk, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi telur ósanngjarnt að gengisbreytingar hafi áhrif við útreikning bótagreiðslna.

Lög um almannatryggingar gera ráð fyrir bótagreiðslum í íslenskum gjaldmiðli samkvæmt ákvæðum laganna. Þar af leiðandi er óhjákvæmilegt að umreikna erlendar tekjur yfir í íslenskan gjaldmiðil. Þá umreiknar Tryggingastofnun ríkisins fjárhæð erlendra tekna yfir í íslenskan gjaldmiðil samkvæmt heimild í 107. gr. reglugerðar EBE nr. 574/72, sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðilarríkja.

Eftir að erlendar lífeyrissjóðstekjur kæranda hafa verið umreiknaðar er fyrst unnt að áætla ellilífeyrisgreiðslur fyrir árið á grundvelli laga um almannatryggingar. Áætlaðar lífeyrissjóðstekjur kæranda árið 2010 voru X X krónur samkvæmt leiðréttri tekjuáætlun. Meðalgengi X krónunnar í október 2009 var X samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands. Þar af leiðandi voru áætlaðar lífeyrissjóðstekjur til kæranda X kr. árið 2010. Við endurreikning og uppgjör greiddra bóta árið 2010 kemur Tryggingastofnun ríkisins til með að miða við meðalgengi X krónunnar árið 2010.    

Með frítekjumarki er átt við fjárhæð tekna á ári sem ekki skerðir bætur, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1055/2009, um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2010. Samkvæmt d lið 1. gr. reglugerðarinnar miða frítekjumörk ellilífeyrisgreiðslna við X kr. Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar skal skerða ellilífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram eru þar til hann fellur niður fari tekjur umfram frítekjumörkin. Lífeyrissjóðstekjur kæranda á ársgrundvelli fara yfir umrædd mörk á árinu 2010 sem hefur þær afleiðingar að ellilífeyrisgreiðslur skerðast með þeim hætti sem ákvæðið kveður á um.

Réttur kæranda til tekjutryggingar féll niður á árinu 2010. Samkvæmt 22. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun ríkisins greiða þeim sem fá greiddan ellilífeyri tekjutryggingu að fjárhæð 942.504 kr. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal skerða tekjutrygginguna um 38.35% þeirra tekna sem lífeyrisþegi hefur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. laganna. Kærandi hefur X kr. í lífeyrissjóðstekjur yfir árið sem hefur þær afleiðingar að tekjutryggingin fellur niður þar sem umrætt skerðingarhlutfall af þeirri fjárhæð fer yfir hámarksfjárhæð tekjutryggingarinnar.

Kærandi er ósáttur við hve ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafa lækkað frá árinu 2009 og því er vert að árétta eftirfarandi. Vegna efnhagshrunsins hér á landi árið 2008 beindi félags- og tryggingamálaráðuneytið þeim tilmælum til Tryggingastofnunar ríkisins að við útreikning á tekjum lífeyrisþega sem búsettir væru erlendis yrði miðað við gengi íslensku krónunnar eins og það var í janúar 2008. Viðmiðunargengi X krónunnar var þá X. Tilmælin höfðu gildi vegna útreikninga tekjutengdra bóta ársins 2009. Þessi tilhögun var mjög hagkvæm fyrir bótaþega sem búsettir voru erlendis þar sem erlendar tekjur þeirra höfðu talsvert minni áhrif á bótarétt þeirra en ella hefði orðið þar sem raunverulegt gengi á árinu 2009 var mun hærra.

Greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins fyrir kæranda árið 2010 byggir á tekjuáætlun þess árs og höfðu framangreind tilmæli fallið úr gildi við gerð hennar.

Samkvæmt útreikningi voru lífeyrissjóðstekjur kæranda X kr. á árinu 2010. Þar af leiðandi eru þær yfir frítekjumörkum sem hefur þær afleiðingar að ellilífeyrisgreiðslur skerðast. Þá leiðir fjárhæð lífeyrissjóðsteknanna einnig til þess að tekjutrygging samkvæmt 22. gr. laga um almannatrygginga fellur niður.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að rétt hafi verið staðið að útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna til kæranda á árinu 2010 miðað við fyrirliggjandi tekjuupplýsingar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins vegna ársins 2010 á tekjutengdum bótagreiðslum til A er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta