Borgarnesfundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna lokið
Fundum utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (NB8) í Borgarnesi lauk um hádegisbil í dag, en fundarhöld hófust í gær með síðbúnum sumarfundi norrænu ráðherranna. Alþjóða- og öryggismál og málefni norðurslóða voru í brennidepli á fundi NB8-ríkjanna, ásamt loftslagsmálum.
Ráðherrarnir ræddu alþjóða- og öryggismál með áherslu á nýjar ógnir en Eystrasaltsríkin hafa á undanförnum árum aflað sér mikillar þekkingar og getu á þessu sviði. Málefni norðurslóða voru ofarlega á dagskrá og voru ráðherrarnir sammála um að takast yrði á við þær breytingar sem þar eiga sér stað með sjálfbærni að leiðarljósi. Var einnig fjallað um mikilvægi þess að lágmarka spennu á svæðinu. Á fundi sínum samþykktu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu um loftslagsaðgerðir í tengslum við leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem fram fer í New York síðar í þessum mánuði.
Staðan í alþjóðamálum og samskipti við stórveldin voru einnig til umræðu. Samstarf ríkjanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er mjög náið og fjölluðu ráðherrarnir um hvernig standa megi vörð um sameiginleg gildi ríkjanna á þeim vettvangi. Í því samhengi lögðu ráðherrarnir sérstaka áherslu á mikilvægi þjóðaréttar og mannréttinda. Þá voru Evrópumál til umfjöllunar og staða lýðræðis og réttarríkisins í Evrópu rædd í þaula.
Fundarhöldunum lauk með blaðamannafundi þar sem utanríkisráðherrar Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar fóru yfir helstu niðurstöður fundanna tveggja.