Hoppa yfir valmynd
10. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 342/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 342/2019

Þriðjudaginn 10. desember 2019

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. ágúst 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu sveitarfélagsins vegna beiðni hans um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir janúar og febrúar 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. ágúst 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. ágúst 2019, var óskað eftir afriti af gögnum frá Reykjanesbæ vegna kærunnar. Greinargerð Reykjanesbæjar barst með bréfi, dags. 17. september 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. september 2019. Athugasemdir kæranda bárust, dags. 2. október 2019, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. október 2019, voru þær sendar Reykjanesbæ til kynningar.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. október 2019, var óskað eftir frekari upplýsingum frá Reykjanesbæ. Upplýsingar bárust úrskurðarnefndinni 18. nóvember 2019 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. nóvember 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ í desember 2018, janúar 2019 og febrúar 2019. Hann hafi fengið greiðslu fyrir desember í febrúar og því hafi hann ekki fengið bætur fyrir febrúar. Hann hafi sótt um bætur fyrir janúar í lok desember. Kærandi sé enn að bíða eftir að fá greitt fyrir janúar og febrúar eins og honum hafi verið lofað.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Reykjanesbæjar rekur hann forsögu málsins. Hann greinir frá því að hann hafi verið beðinn um að skila inn staðgreiðsluyfirliti og því farið til Tollstjórans í Reykjavík og fengið upplýsingar um að staðgreiðsluyfirlit skatta frá tollstjóra og sýslumanni væri sami hluturinn. Kærandi hafi þó á endanum skilað inn staðgreiðsluyfirliti frá sýslumanni.

Að lokum vilji kærandi benda á að bætur sem séu greiddar frá Reykjanesbæ dugi ekki fyrir nauðsynjum. Bæturnar hafi hækkað um 5.000 kr. fyrir árið en húsaleiga kæranda hafi á sama tíma hækkað um tæpar 10.000 kr. Kærandi hafi ekki efni á internet aðgangi sem samkvæmt Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna séu talin almenn mannréttindi. Kærandi fái ekki aðstoð frá Reykjanesbæ til að sækja sér menntun og kærandi hafi ekki farið á neitt námskeið eða fengið aðstoð til að komast í VIRK eða aðra þjónustu. Sú fullyrðing Reykjanesbæjar að hann hafi fengið margs konar ráðgjöf sé einfaldlega röng. Kærandi hafi aldrei upplifað að Reykjanesbær hafi nokkurn vilja til að aðstoða hann til að komast úr þeirri aðstöðu sem hann hafi verið í síðan sumarið 2008. Kærandi upplifi frekar að félagsfræðingar sveitarfélagsins leggi hann í einelti og geri hlutina frekar erfiðari heldur en hitt.

III.  Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi fyrst komist inn á fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ árið 2003. Frá þeim tíma hafi hann unnið ýmis störf í stuttan tíma og þegið fjárhagsaðstoð inn á milli, ásamt því að hafa fengið endurhæfingarlífeyri árin 2009 til 2010. Á þessum árum hafi kærandi notið margs konar ráðgjafar og aðstoðar varðandi atvinnumál, húsnæðismál og fleira.

Á árinu 2018 hafi kærandi fengið greidda fjárhagsaðstoð frá apríl og fram í október. Í febrúar 2019 hafi greiðslur til kæranda verið leiðréttar vegna desember og hafi kærandi síðan fengið reglulegar greiðslur frá því í mars 2019. Þann 27. maí 2019 hafi kærandi haft samband símleiðis við ráðgjafa og óskað eftir að fá greidda fjárhagsaðstoð aftur í tímann. Hann hafi farið fram á að fá greitt fyrir desember 2018, janúar og febrúar 2019. Ráðgjafi hafi farið yfir stöðuna með honum og upplýst að hann hafi ekki skilað inn viðeigandi gögnum þegar þess hafi verið óskað og þess vegna hafi hann ekki fengið greitt fyrir þessa mánuði. Að auki hafi hann verið upplýstur um að hann hafi fengið leiðréttingu í febrúar vegna desember 2018 sem hann hafi í raun ekki átt rétt á vegna vöntunar á gögnum. Kærandi hafi ítrekað verið upplýstur að samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð sé nauðsynlegt að skila inn nýjustu staðgreiðsluskrá svo að hægt sé að fá greidda fjárhagsaðstoð. Kærandi hafi skilað staðgreiðsluskrá vegna 2018 í janúar 2019 og þar hafi komið fram að hann hafi verið að þiggja greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins samhliða því að fá greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ.

Í október 2018 hafi kærandi skilað inn minnisblaði, ásamt staðgreiðsluskrá fyrir árin 2016 og 2017. Ráðgjafi hafi haft samband við hann símleiðis og upplýst hann um að staðgreiðsluskrárnar sem hann hafi skilað inn væru of gamlar og að nauðsynlegt væri að skila inn nýrri staðgreiðsluskrá sem væri dagsett í október 2018 svo að hægt væri að greiða fjárhagsaðstoð fyrir hvern mánuð. Hann hafi hins vegar fengið undanþágu fyrir október, þrátt fyrir vöntun nýrra gagna og fengið greiddar 144.283 kr.

Kærandi hafi skrifað undir minnisblað 23. nóvember 2018. Þann 29. nóvember hafi umsókn hans um fjárhagsaðstoð verið sett á bið þar sem nýjasta afritið af staðgreiðsluskrá hafi vantað. Daginn eftir hafi kærandi skilað inn yfirliti frá tollstjóra. Starfsmaður í þjónustuveri hafi tekið við yfirlitinu og gert kæranda ljóst að ekki væri víst að hann fengi greitt þar sem þetta væri ekki rétt gagn sem hann hafi verið að skila inn. Kærandi hafi haldið því fram að þetta yfirlit væri það sama og staðgreiðsluskrá og ætti því að vera nóg. Ráðgjafi hafi reynt að útskýra fyrir kæranda að svo væri ekki þar sem þarna kæmi ekki fram yfirlit yfir tekjur og samkvæmt reglum þurfi hann að skila inn nýjustu staðgreiðsluskrá. Þann 11. desember 2018 hafi enn vantað nýjustu staðgreiðsluskrá og 21. desember hafi kærandi aftur skrifað undir minnisblað en staðgreiðsluskrá hafi ekki fylgt með. Þann 11. janúar 2019 hafi kærandi skilað inn staðgreiðsluskrá fyrir árið 2018 og í kjölfarið hafi verið reynt að hafa samband við kæranda símleiðis án árangurs. Þann 8. og 21. febrúar 2019 hafi aftur verið reynt að hafa samband án árangurs. Þann 11. mars 2019 hafi verið ákveðið að leiðrétta greiðslur til kæranda vegna desember, 122.640 kr., þrátt fyrir að kærandi hafi ekki skilað inn umbeðnum gögnum. Hafi því verið ákveðið að bóka hann í viðtal hjá nýjum ráðgjafa. Þann 14. mars 2019 hafi kærandi mætt í bókað viðtal þar sem hann hafi verið upplýstur um að umsókn hans yrði lokað og hann fengi ekki greitt nema með því að fylla út nýja umsókn og skila inn viðeigandi gögnum. Það hafi gengið erfiðlega þar sem kærandi sé hvorki með rafræn skilríki né íslykil. Þann 29. mars 2019 hafi komið inn ný umsókn vegna fjárhagsaðstoðar frá kæranda. Hann hafi fengið undanþágu frá rafrænum skilum og skilað inn skriflegri umsókn. Þegar ráðgjafi hafi farið yfir mál kæranda hafi komið í ljós að kærandi hafi fengið ofgreitt á síðasta ári þar sem hann hafi verið að fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins frá maí til september 2018, 244.000 kr. á mánuði, og samhliða þeim greiðslum hafi hann einnig fengið greiðslur vegna fjárhagsaðstoðar frá Reykjanesbæ 144.283 kr. á mánuði. Kærandi hafi því gefið upp rangar og villandi upplýsingar samkvæmt grein 4.6.6 í reglum um félagslega þjónustu í Reykjanesbæ.

Í athugasemdum Reykjanesbæjar er vísað til þess að ekki hafi borist neitt erindi frá kæranda með ósk um afturvirkar greiðslur. Hans óskir séu því einnig munnlegar. Vegna þessa hafi ekki verið hægt að synja neinu erindi þar sem það hafi aldrei borist. Þá kemur fram að engin gögn liggi fyrir um hvort kærandi hafi óskað eftir að vísa máli sínu til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjanesbæjar og því hafi ekki verið óskað eftir því að hann fengi greidda fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

IV.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Reykjanesbæjar vegna beiðni kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir janúar og febrúar 2019. Af gögnum málsins er ekki ljóst hvenær kærandi sótti um greiðslur fyrir þá mánuði. Reykjanesbær hefur vísað til þess að kærandi hafi haft samband við ráðgjafa símleiðis þann 27. maí 2019 og óskað eftir greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar að hann hafi ekki skilað viðeigandi gögnum þegar þess hafi verið óskað og því hafi hann ekki fengið greitt fyrir þá mánuði. Þá hefur sveitarfélagið vísað til þess að ekki hafi borist neitt erindi frá kæranda, hans óskir væru munnlegar og því hafi ekki verið hægt að synja neinu erindi.

Í kafla 4.2. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð er kveðið á um formskilyrði vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð. Þar segir í 3. mgr. kafla 4.2.1. að umsókn skuli fylgja staðfest skattframtal vegna síðastliðins árs, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans eða sambýlismanns þann mánuð sem umsókn sé lögð fram og tvo mánuði þar á undan, þar með taldar greiðslur frá almannatryggingum, lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun, sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða öðrum aðilum. Í 6. mgr. kaflans kemur fram að sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgi ekki nauðsynleg gögn, skuli umsækjanda gerð grein fyrir því sem ábótavant sé og honum gefinn kostur á að bæta úr. Ekki sé hægt að taka umsókn til umfjöllunar og afgreiðslu fyrr en öll nauðsynleg gögn liggi fyrir. Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að umsókn kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir janúar og febrúar 2019 hafi ekki uppfyllt framangreind formskilyrði og að hann hafi ekki brugðist við ábendingum sveitarfélagsins um úrbætur. Samkvæmt því var umsókn kæranda ekki tekin til umfjöllunar.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins lá ekki fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Að því virtu og í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur lagt inn kæru til úrskurðarnefndarinnar þegar endanleg ákvörðun Reykjanesbæjar liggur fyrir.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta