Hoppa yfir valmynd
28. desember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 611/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 611/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19110039 og KNU19110038

 

Kæra [...] og

[...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 18. nóvember 2019 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Norður-Makedóníu (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgari Norður-Makedóníu (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2019, um að synja þeim um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og þeim verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi hvað varðar brottvísanir og endurkomubönn, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. og 101. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. október 2019. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 15. október 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 21. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærendum var jafnframt brottvísað frá landinu og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Að ósk kærenda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðunum Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 13. nóvember 2019. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 18. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 25. nóvember 2019. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda þann 27. desember sl.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd aðallega á erfiðum fjölskylduaðstæðum.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kærendum var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kærendum ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að helsta ástæða flótta frá Norður-Makedóníu væri fjölskylduvandamál. Fjölskyldur þeirra beggja væru mótfallnar sambandi þeirra, bæði vegna aldursmunar þeirra og mismunandi trúar. Þá hafi bróðir K beitt hana alvarlegu heimilisofbeldi um árabil og hafi það leitt til þess að hún hafi reynt að taka eigið líf. Kærendur hafi ekki getað leitað verndar yfirvalda, m.a. vegna spillingar, og vísa þau til skýrslna alþjóðlegra stofnana máli sínu til stuðnings. Bróðir K sé einnig vel tengdur og það geri þeim ókleift að leita til yfirvalda. Þá kvaðst M hafa verið meðlimur í Democratic Party of Albania og að kærendur verði fyrir mismunun vegna þess og því að þau tilheyri albanska minnihlutanum í Norður-Makedóníu. Þá eigi kærendur von á barni.

Í greinargerð er fjallað almennt um aðstæður í Norður-Makedóníu og stöðu mannréttindamála þar. Vísa kærendur í alþjóðlegar skýrslur til stuðnings þeirrar umfjöllunar.

Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærendur óttist hótanir fjölskyldna sinna og telji sig ekki getað leitað til lögreglu eða flutt sig um set í Norður-Makedóníu. Þá verði þau fyrir mismunun vegna albansks uppruna þeirra og vegna stjórnmálaþátttöku M. Þetta leiði til þess að þau eigi í hættu á að sæta illri og vanvirðandi meðferð verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis síns og ljóst sé að þau geti ekki treyst á yfirvöld um vernd. Verði kærendur send aftur til heimaríkis bíði þeirra mjög erfiðar félagslegar aðstæður vegna framangreindra fjölskylduaðstæðna, meðgöngu K og fordóma sem þau verði fyrir vegna sambands þeirra.

Til vara krefjast kærendur þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi hvað varðar brottvísanir og endurkomubönn. M hafi m.a. borið fyrir sig pólitískar ofsóknir og mismunun vegna uppruna síns. Af rannsókn Útlendingastofnunar mætti leiða að stofnunin hafi ekki talið augljóst að málsástæður M féllu ekki undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því hafi kröfur hans ekki verið bersýnilega tilhæfulausar. Þá hafi K orðið fyrir heimilisofbeldi sem getur fallið undir erfiðar félagslegar aðstæður í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með tilliti til erfiðra aðstæðna kærenda í heimaríki væri mjög þungbært að refsa þeim með brottvísun og endurkomubanni og slíkt geti ekki samræmst meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í greinargerð kærenda kemur fram að kærendur telji að vegna ákvæðis 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga hafi Útlendingastofnun verið óheimilt að ákvarða kærendum brottvísun. Ákvarðanir um brottvísanir og endurkomubönn séu ekki sanngjarnar í málum kærenda þar sem slíkar ráðstafanir eigi við þegar einstaklingar hafa brotið af sér með saknæmum og refsiverðum hætti. Því sé um óeðlilega og ósanngjarna ráðstöfun að ræða gagnvart kærendum. Ennfremur telja kærendur að umræddar ákvarðanir gangi gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda verði ekki séð að Útlendingastofnun hafi tekið tillit til hagsmuna og réttinda kærenda. Ljóst hafi verið að fleiri úrræði hafi verið í boði til að ná markmiði stofnunarinnar, sem talist geti vægari í garð kærenda. Sem dæmi hafi í sama tilgangi verið samþykkt lög um breytingu á lögum um útlendinga nr. 106/2016 sem geri það að verkum að kærendum sé óheimilt að óska eftir frestun réttaráhrifa ákvarðana í málum sínum. Þá hafi stofnunin haft heimild til að veita kærendum styttri frest en sjö daga til að fara úr landi, sbr. 2. mgr. 104 gr. laga um útlendinga. Hefði stofnunin gert það hefði ekki komið til endurkomubanna, sbr. b-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þannig hafi stofnunin brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og því sé rétt að ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann verði felldar úr gildi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað makedónskum vegabréfum. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur séu norður-makedónskir ríkisborgarar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Norður-Makedóníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18. The State of the World´s Human Rights (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Analysis of the Legal Framework and Institutional Response to violence against women (Association for Emancipation, Solidarity and Equality of Women, nóvember 2017);
  • EASO Country of Origin Information Report. The former Yugoslav Republic of Macedonia (European Union: European Asylum Support Office, nóvember 2016);
  • Findings regarding the Court Monitoring Conducted in Terms of Cases of Violence against Women (Association for Emancipation, Solidarity and Equality of Women, nóvember 2017);
  • Freedom in the World 2018 - Macedonia (Freedom House, 28. maí 2018);
  • Human Rights in Macedonia (Civil Rights Defenders, október 2015);
  • North Macedonia 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars, 2019);
  • Making work pay in Balkan countries: the case of Serbia and Macedonia (European Union: European Asylum Support Office, nóvember 2016);
  • One decade after the Ohrid Framework Agreement: Lessons (to be) Learned from the Macedonian Experience (Center for Research and Policy Making, 2011);
  • Report by Nils Muižnieks, Commissioner for Human Rights of the Council of Europe following his visit to “the former Yugoslav Republic of Macedonia“ from 26 to 29 November 2012 (Commissioner for Human Rights, 9. apríl 2013);
  • Republic of Macedonia. National Program for Development of Social Protection 2011-2021 (Ministry of Labor and Social Policy, 2010);
  • Review of the national tuberculosis programme in former Yugoslav Republic of Macedonia (World Health Organization, 29 ágúst – 5 september 2016).
  • Social Protection and Social Inclusion in the former Yugoslav Republic of Macedonia (European Commission, október 2017);
  • The former Yugoslav Republic of Macedonia – Health system review. árg. 19., tbl. 3, 2017 (World Health Organization, 2017);
  • Welfare in the Mediterranean Countries. The Former Yugoslav Republic of Macedonia, Republic of Macedonia (Center for Administrative Immovation in the Euro-Mediterranean Region, 2012) og
  • WHO-AIMS Report on Mental Health System in the Former Yugoslav Republic of Macedonia (World Health Organization, 2009).

Lýðveldið Norður-Makedónía er ríki með um tvær milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt virt af stjórnvöldum þar í landi. Norður-Makedónía gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1993. Landið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 18. janúar 1994, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 18. janúar 1994 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 12. desember 1994. Þá gerðist ríkið aðili að Evrópuráðinu árið 2005 en varð aðili að mannréttindasáttmála Evrópu árið 1997. Norður-Makedónía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2004 og gerðist formlegt umsóknarríki árið 2005. Norður-Makedónía er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki.

Í framangreindum gögnum kemur m.a. fram að spilling sé þó nokkur í norður-makedónska stjórnkerfinu. Yfirvöld hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu með misgóðum árangri. Þá kemur fram að dómskerfið í Norður-Makedóníu sé óskilvirkt og taki meðferð mála langan tíma. Hins vegar er í stjórnarskrá og lögum landsins kveðið á um rétt borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar og að enginn verði dæmdur án dóms og laga. Þá kemur fram að starfræktar séu stofnanir hjá stjórnvöldum sem taki við kvörtunum vegna misferlis hjá lögreglu, m.a. sé starfandi sjálfstæð stofnun sem heyri undir innanríkisráðuneytið og þá sé einnig hægt að kvarta til umboðsmanns (e. Ombudsman‘s Office). Þessar stofnanir hafi þó sætt ákveðinni gagnrýni fyrir að vera ekki nægjanlega sjálfstæðar í störfum sínum ásamt því að hafa takmarkaðar valdheimildir. Þá séu grundvallarmannréttindi tryggð samkvæmt stjórnarskrá landsins og norður-makedónsk yfirvöld hafi á undanförnum árum sett á fót landsáætlun til styrktar jafnræðis og útrýmingu mismunar á grundvelli uppruna, kyns, aldurs og líkamlegrar eða andlegrar fötlunar. Þá er einnig greint frá því að spenna ríki í samskiptum milli Albana og Norður-Makedóníumanna og að hlutfall Albana sem starfi í dómskerfinu sé lágt. Af gögnum verður hins vegar ekki séð að yfirvöld í Norður-Makedóníu stundi kerfisbundnar ofsóknir, ofbeldi eða mismunun gagnvart fólki af albönskum uppruna í landinu.

Fram kemur að í Norður-Makedóníu séu í gildi sérstök lög um heilbrigðiskerfið sem eigi að tryggja rétt allra íbúa landsins til heilbrigðisþjónustu óháð kynþætti, kyni, aldri, þjóðerni, félagslegum bakgrunni, stjórnmálaskoðunum, fjárhagsstöðu, menningu, tungumáli og eðli veikinda. Þá kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar að lögbundin heilbrigðisþjónusta sem sé fjármögnuð af ríkinu hafi batnað og hún sé endurgjaldslaus fyrir ríkisborgara og einstaklinga með skráða langtímabúsetu í ríkinu. Atvinnuleysi sé talsvert í landinu en í stjórnarskrá Norður-Makedóníu sé kveðið á um félagslega vernd og félagslegt öryggi íbúa landsins í samræmi við meginregluna um félagslegt réttlæti. Þar segi enn fremur að ríkið skuli tryggja rétt þeirra sem séu óvinnufærir til aðstoðar. Þá hafi ríkið veitt margvíslega fjárhagsaðstoð þeim borgurum sem þurfi á slíkri aðstoð að halda. Enn fremur sé hægt að sækja um atvinnuleysisbætur hjá ríkinu en aðeins einn í hverri fjölskyldu geti fengið slíkar bætur á hverjum tíma.

Í framangreindum gögnum um aðstæður í Norður-Makedóníu kemur fram að heimilisofbeldi sé útbreitt vandamál sem hafi ekki verið í miklum forgangi hjá þarlendum yfirvöldum að takast á við. Hins vegar hafi átt sér stað hægfara breytingar í þá átt, m.a. vegna þrýstings frá alþjóðlegum stofunum og samtökum og Evrópusambandinu. Til að mynda hafi ákvæðum um heimilisofbeldi verið breytt í lögum um fjölskyldu og lögum um félagslega vernd og þá hafi sakamálalöggjöfinni verið breytt árið 2004. Í lögum um fjölskyldu sé nú kveðið á um málsmeðferð vegna beiðna um verndarráðstafanir og þá sé gerð krafa um að þolanda heimilisofbeldis sé veitt heilbrigðis- og sálfræðiráðgjöf, og að þolandi hafi aðgengi að athvarfi og lögfræðiaðstoð. Þá hafi makedónsk yfirvöld samþykkt í júlí 2012 að setja á fót aðgerðaráætlun á landsvísu, fyrir árin 2012-2015, til að koma í veg fyrir og vernda einstaklinga gegn heimilisofbeldi. Þrátt fyrir að refsing liggi við heimilisofbeldi bera gögn málsins með sér að nokkuð skorti á að lögum sé framfylgt að þessu leyti og tregða sé hjá lögreglu og öðrum yfirvöldum að sækja gerendur til saka vegna slíkra brota. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að aðstoð við þolendur heimilisofbeldis sé af skornum skammti en hún sé einkum á hendi frjálsra félagasamtaka, t.d. Samtaka um frelsun, samstöðu og jafnrétti. Starf framangreindra samtaka felst m.a. í því að styrkja stöðu kvenna í Norður-Makedóníu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og framan greinir byggja kærendur kröfur sínar um alþjóðlega vernd aðallega á erfiðum fjölskylduaðstæðum. K hafi sætt ofbeldi af hálfu bróður síns og þá séu bræður þeirra beggja andvígir sambandi þeirra. Kærendur óttist um öryggi sitt og velferð verði þeim gert að snúa aftur til Norður-Makedóníu en þau geti ekki leitað til yfirvalda um vernd vegna stjórnmálaskoðana M, tengsla bróður K og albansks uppruna þeirra.

M kvaðst hafa verið aðili að Albanian Democratic Party (PDSH) og nú væri hann aktívisti. Kvaðst hann hafa orðið fyrir mismunun af þeim sökum hvað varðaði atvinnu og þá hafi K heldur ekki fengið vinnu af þessum sökum. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi ekki frá neinu sérstöku atviki eða áreiti sem hann hafi sætt vegna stjórnmálaskoðana hans. Þá kvað M að bróðir K hefði tengsl við stjórnmálaflokkinn Democratic Uninon for Integration (BDI) sem sé flokkur í ríkisstjórn Norður-Makedóníu. Af þeim sökum og vegna spillingar yfirvalda í heimaríki geti kærendur ekki fengið vernd vegna þess ofbeldis sem þau kveðast eiga á hættu. Kærunefnd óskaði eftir frekari upplýsingum varðandi ofangreint frá kærendum. Í svari sem barst í tölvupósti frá talsmanni þeirra þann 23. desember 2019 kom fram að M hafi tekið þátt í starfi PDSH frá unga aldri og að hann hafi sagt sig úr flokknum eftir að hann taldi hann hafa svikið sig og kjósendur. M lagði einnig fram nokkrar myndir sem hann kvað sýna sig viðstaddan viðburði tengdum flokknum. Í svari kærenda voru taldir upp nokkrir einstaklingar sem að sögn kærenda séu tengdir kærendum og meðlimir í BDI. Sumir þeirra gegni að sögn kærenda mikilvægum stöðum innan flokksins. Ekki voru lögð fram frekari gögn um hvaða stöðum þessir einstaklingar gegni innan flokksins eða upplýsingar um það hvernig staða þeirra gæti komið í veg fyrir að kærendur geti leitað aðstoðar stjórnvalda í heimaríki sínu. Ekki er ástæða til þess að draga í efa að M hafi takið þátt í pólitísku starfi í heimaríki sínu eða hafi komið að mótmælum og öðru gegn ríkjandi stjórnvöldum. Þá er ekki ástæða til að draga í efa að fjölskyldumeðlimir þeirra og vinir hafi tengsl við stjórnmálaflokka sem sitji í ríkisstjórn. Fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um heimaríki kærenda bera þó ekki með sér að staða þessara einstaklinga sé slík að kærendum sé ómögulegt að leita aðstoðar yfirvalda í heimaríki sínu telji þau sig þurfa á henni að halda. Kærandi gaf til kynna að hann gæti lagt fram frekari gögn varðandi þessa málsástæðu. Með hliðsjón af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir og skýrslum um heimaríki kærenda telur kærunefnd ljóst að frekari gögn muni ekki hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls og að málið sé nægilega upplýst til að hægt sé að taka rétta ákvörðun í því.

M kvaðst hafa sætt ofbeldi af hálfu bróður síns síðastliðin sjö ár. Ekki er ástæða til þess að draga í efa að kærandi hafi verið þolandi heimilisofbeldis í heimaríki. Eins og fram hefur komið þá geta þolendur heimilisofbeldis leitað til lögreglu vegna þessa og m.a. lagt fram beiðnir um verndarráðstafanir, s.s. nálgunarbann. Þá geti þolendur leitað til frjálsra félagasamtaka sem sérhæfa sig sérstaklega í aðstoð við konur sem eru þolendur heimilisofbeldis. Kærendur kváðust ekki hafa leitað til lögreglu eða annarra yfirvalda í heimaríki vegna þessa. Líkt og áður segir er ekki ástæða til annars en að ætla að kærendur geti fengið aðstoð yfirvalda í heimaríki sínu.

Kærendur hafa ekki borið fyrir sig að öðru leyti að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu norður-makedónskra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu. Jafnframt kemur fram í ofangreindum gögnum að þeir ríkisborgar Norður-Makedóníu sem telja að á réttindum sínum sé brotið geti leitað sér verndar yfirvalda þar í landi. Þá sé í Norður-Makedóníu til staðar úrræði fyrir þá sem telja sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. M.a. sé hægt að leita til sjálfstæðrar stofnunar (e. Department for Internal Control, Criminal Investigations and Professional Standards) sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og til umboðsmanns. Af þeim gögnum sem kærunefndin hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík þó svo að úrbóta sé enn þörf varðandi sjálfstæði þeirra stofnanna sem að þeim koma. Að mati kærunefndar hefur því ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki skorti vilja eða getu til að veita kærendum vernd gegn athöfnum sem feli í sér ofsóknir, m.a. með því ákæra og refsa fyrir slíkar athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá verður ekki ráðið af ofangreindum gögnum að aðgangur að þessum úrræðum sé takmarkaður á grundvelli stjórnmálaskoðana, uppruna, stöðu eða annarra ástæðna sem þýðingu hafa fyrir mál þetta.Í greinargerð er jafnframt byggt á því að kærendur sæti mismunun í heimaríki vegna þess að þau tilheyri þjóðarbroti Albana. Af framangreindum gögnum og skýrslum um aðstæður í Norður-Makedóníu má sjá að Albanir eru minnihlutahópur í Norður-Makedóníu og sé spenna á milli makedónska meirihlutans og albanska minnihlutans í landinu. Hins vegar benda framangreind gögn ekki til þess að yfirvöld í landinu mismuni einstaklingum af albönskum uppruna, beiti þá ofbeldi eða að Albanir sæti þar ofsóknum í skilningi laga um útlendinga.Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37.gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærendur séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærendur verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kærenda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærendur hafa greint frá erfiðum fjölskylduaðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimlandi en verndarþörf þjóðfélagshópa fari eftir aðstæðum í hverju máli. Með erfiðum félagslegum aðstæðum að öðru leyti er einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þrátt fyrir fjölskylduaðstæður kærenda telur kærunefnd með vísan til umfjöllunar um aðstæður í Norður-Makedóníu að aðstæður þeirra séu ekki slíkar að unnt sé að veita þeim dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun þann 15. október greindu kærendur frá því að heilsufar þeirra væri almennt gott en að K sé full vonleysis yfir stöðu sinni í heimaríki og ofbeldis af hálfu bróður síns. Af þessum sökum hafi hún gert tilraun til sjálfsvígs og M hafi bjargað henni og komið henni á spítala í tæka tíð. Engin gögn voru lögð fram um líkamlega eða andlega heilsu kærenda. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar kemur fram að íbúar í Norður-Makedóníu eigi rétt á heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Allir íbúar landsins hafi jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu og miðist kostnaðarþátttaka einstaklings við tekjur hans. Kærendur eru ekki í meðferð hér á landi sem ekki er læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa. Með vísan til framburðar þeirra og ofangreindra gagna um heilbrigðisaðstæður í Norður-Makedóníu og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum þeirra telur kærunefnd að kærendur hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimaríki þeirra leiti þau eftir því. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að K fái ekki fullnægjandi fæðingarþjónustu í heimaríki.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í málum kærenda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda þangað.

Frávísun, brottvísun og endurkomubann

Með vísan til atvika málsins tekur kærunefnd undir forsendur Útlendingastofnunar varðandi frávísun kærenda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 540/2017.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar var kærendum brottvísað og ákvarðað endurkomubann, sbr. b-lið 2. tölul. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ástæða þess er að Útlendingastofnun mat umsóknir kærenda bersýnilega tilhæfulausar í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að fella niður frest sem að jafnaði er veittur útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur í kjölfar ákvörðunar um að yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn.

Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við þegar:

a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,

b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og

c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.

Kærendur byggja umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að þau búi við erfiðar fjölskylduaðstæður og geti ekki fengið aðstoð yfirvalda í heimaríki sínu. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kærenda og aðstæður þeirra þar, að það hafi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður þeirra vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kærenda séu ekki þess eðlis eða nái því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti. Þá er einnig ljóst að frekara mat og gagnaöflun hafi ekki breytt ofangreindu mati.

Að mati kærunefndar eru líkur á því að ákvörðun um niðurfellingu frests hafi varnaðaráhrif sem þjóni því markmiði að stuðla að fækkun bersýnilega tilhæfulausra umsókna frá öruggum upprunaríkjum. Fyrir liggur mat Útlendingastofnunar á því að framangreindu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti. Kærunefnd telur sig ekki hafa forsendur til að draga í efa þetta mat. Er það því mat kærunefndar að 12. gr. stjórnsýslulaga standi því ekki í vegi að kærendum verði ekki veittur frestur til að yfirgefa landið. Þá fær kærunefnd ekki séð að 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna komi í veg fyrir að framangreindu úrræði verði beitt í máli kærenda.

Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kærenda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og heimilt að veita kærendum ekki frest til að yfirgefa landið sjálfviljugum.

Eins og að framan greinir hefur kærendum verið vísað frá landinu og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar hér á landi. Þá hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að fella niður frest til að kærendur geti yfirgefið landið sjálfviljug. Liggur því fyrir að kærendur dveljast ólöglega í landinu, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og er því heimilt að brottvísa þeim.

Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd þann 8. október 2019. Kærendur kveða í greinargerð að erfitt sé fyrir þau að búa í heimaríki vegna mótlætis og hótana fjölskyldna þeirra. Þá geti þau ekki leitað til yfirvalda vegna spillingar og tengsla bróður K við stjórnvöld. Það er mat kærunefndar, í ljósi grundvallar brottvísunar kærenda og með vísan til umfjöllunar kærunefndar um aðstæður í heimaríki kærenda, að ótti kærenda við hótanir í heimaríki vegi ekki nægilega þungt til að talið verði að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í máli þeirra. Þá voru kærendur spurð út í sérstök tengsl við Ísland eða önnur Schengen-ríki og kvaðst M eiga frændfólk á Schengen svæðinu sem hann sé ekki í samskiptum við. Af þeim svörum sem kærendur gáfu um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun þeirra og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kærenda eða nánustu aðstandenda þeirra, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Eru ákvarðanir Útlendingastofnunar er varða brottvísanir og endurkomubönn því staðfestar.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta