Mál nr. 30/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. mars 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 30/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 30. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 3. desember 2010 fjallað um fjarveru kæranda á boðuðum fundi á vegum Vinnumálastofnunar þann 28. júlí 2010. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með 30. desember 2010. Ákvörðun stofnunarinnar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi fór fram á endurupptöku málsins með bréfi, dags. 9. janúar 2011, en þeirri beiðni var synjað með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. febrúar 2011. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 14. febrúar 2011, og krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 4. febrúar 2009.
Með bréfi, dags. 21. júlí 2010, boðaði Vinnumálastofnun kæranda til fundar hjá eftirlitsdeild stofnunarinnar sem var haldinn þann 28. júlí 2010. Bréfið var sent á lögheimili kæranda, B, en það heimilisfang hafði hann tilkynnt sem aðsetur sitt. Kærandi mætti ekki á fund stofnunarinn og var honum þá sent bréf, dags. 29. júlí 2010, þar sem honum var gefinn kostur á að skila inn skýringum vegna fjarveru sinnar á fundinum innan sjö daga. Engar skýringar bárust. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. september 2010, var kæranda tjáð að fjarvera hans á fyrrgreindum fundi gæfi stofnuninni tilefni til að telja hann ekki lengur í virkri atvinnuleit og því hafi greiðslur til hans verið stöðvaðar, sbr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 4. nóvember 2010 barst Vinnumálastofnun bréf frá kæranda vegna fundar stofnunarinnar þann 28. júlí 2010 ásamt reikningi vegna endurnýjunar á símkorti. Skýringar kæranda á fjarveru sinni á fundinum voru þær að hann búi við slæmar aðstæður þar sem sambýlingar hans séu drykkfelldir og andlega veikir. Hann sé sannfærður um að sambýlingar hans hafi hent þeim bréfum sem send hafi verið á lögheimili hans. Jafnframt hafi hann greint frá því að hann hafi dvalið tímabundið í Garði þar sem hann hafi verið í atvinnuleit. Hann kvaðst vita að honum hefði verið sent sms í farsíma sinn en síminn hafi verið inneignarlaus þannig að hann hafi ekki svarað. Ekki liggur fyrir í málinu hvenær umrætt sms var sent. Kærandi hefur einnig bent á að hann hafi týnt símanum sínum, hann þekki ekki mikið á tölvur og kunni ekki mikið í íslensku.
Með bréfi sínu, dags. 9. janúar 2011, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Fram kemur í bréfinu að hann hafi verið í stöðugu sambandi við Vinnumálastofnun og í virku sambandi á tímabilinu frá 1. ágúst 2010 til 31. október 2010. Hann hafi leitað að vinnu bæði í Garði og í Reykjavík. Hann hafi týnt símanum sínum, hann þekki ekki mikið á tölvur og kunni ekki mikið í íslensku. Fólkið sem hann hafi búið með hafi verið háð áfengi, bréfin hafi týnst og hann hafi verið veikur um tíma. Beiðninni var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 4. febrúar 2011.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. júní 2011, vísar Vinnumálastofnun til 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er þess efnis að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Skuli hinn tryggði þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Þá bendir Vinnumálastofnun á að í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpinu því er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, segi efnislega að gert sé ráð fyrir að stofnunin boði atvinnuleitendur til sín með sannanlegum hætti enda lagt til að það geti leitt til missis bóta skv. XI. kafla laganna láti atvinnuleitandi hjá líða að sinna þessari boðun, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Með sannanlegum hætti sé átt við bréf á lögheimili hlutaðeigandi. Jafnframt sé gert ráð fyrir að stofnunin geti boðað atvinnuleitanda með allt að sólarhringsfyrirvara á þá skrifstofu sína sem næst sé lögheimili viðkomandi enda þyki þetta mikilvægur liður í eftirliti stofnunarinnar með því að þeir sem fá greiddar atvinnuleysisbætur séu í virkri atvinnuleit.
Vinnumálastofnun bendir einnig á 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og segir að í lagagreininni komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi fram að sömu viðurlög skuli eiga við í þeim tilvikum þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé hafnað og þegar atvinnuleitendur séu boðaðir til stofnunarinnar til að kanna hvort hann uppfylli enn skilyrði laganna. Þá sé sérstaklega tekið fram að bréf á lögheimili hlutaðeigandi sé sannanleg boðun í skilningi laganna. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að bregðist atvinnuleitandi skyldu sinni, skuli það leiða til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Í máli þessu sé ljóst að Vinnumálastofnun hafi sent kæranda boðunarbréf á lögheimili hans að B. Í skýringar sínum til stofnunarinnar segist kærandi ekki hafa móttekið það boðunarbréf sem sent hafi verið og að honum finnist líklegt að sambýlingar hans hafi fleygt bréfum stofnunarinnar, þeir séu drykkfelldir og andlega veikir. Kærandi staðfesti í skýringum sínum að honum hafi verið sent textaskeyti í farsíma þar sem honum hafi verið tilkynnt um að boðunarbréf hafi verið sent á lögheimili hans vegna fundar við eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar.
Hjá Vinnumálastofnun kemur fram að það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega séu send með viðurkenndum hætti. Það sé mat stofnunarinnar að á bótaþegum hvíli sú skylda að ganga úr skugga um að þau bréf sem stofnunin sendi á lögheimili þeirra geti komist til skila og í því samhengi brýna þá fyrir sambýlingum að halda til haga þeim bréfum sem þangað berast. Þar af leiðandi geti skýringa kærandi ekki réttlætt fjarveru hans á umræddum fundi og í ljósi þess að kærandi hafi verið meðvitaður um að honum hafi verið sent bréf á lögheimili hans með tilkynningu þar að lútandi í formi textaskilaboða í farsíma hans. Jafnframt sé ekki unnt að líta fram hjá þeirri staðreynd að kærandi dvaldist um tíma í Garði og því ekki í aðstöðu til að móttaka þau bréf sem send voru á lögheimili hans. Vinnumálastofnun líti svo á að það teljist liður í virkri atvinnuleit að upplýsa stofnunina um þær breytingar sem verða á högum atvinnuleitenda, hafi þær breytingar bein áhrif á getu atvinnuleitandans til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinna viðtölum sem stofnunin boði til með sannanlegum hætti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“
Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og þeir sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga til atvinnuleitanda. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða. Í 3. mgr. 13. gr. er kveðið á um heimild til handa Vinnumálastofnun til þess að boða atvinnuleitanda til stofnunarinnar með sannanlegum hætti og skal atvinnuleitandi vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Í h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti.
Í máli þessu liggur fyrir að Vinnumálastofnun gerði tilraunir til að boða kæranda til fundar á vegum stofnunarinnar. Var kæranda sent bréf á lögheimilisfang hans, dags. 21. júlí 2010, og þar sem hann mætti ekki á fundinn var honum sent annað bréf, dags. 29. júlí 2010, þar sem honum var gefinn kostur á að skila inn skýringum vegna fjarveru hans á fundinum. Kærandi mætti ekki á fundinn og sendi ekki skýringar á fjarveru sinni. Hann kveðst ekki hafa fengið umrædd bréf og hann telur að sambýlisfólk hans hafi fleygt bréfunum. Þá hafi hann dvalið tímabundið í Garði í atvinnuleit, en kærandi lét Vinnumálastofnun ekki vita af því eins og honum bar skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar hvílir rík skylda á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og mætingar á boðaða fundi stofnunarinnar. Telja verður að með fjarveru sinni á boðaðan fund Vinnumálastofnunar hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr., 2. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er hin kærða ákvörðun því staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. desember 2010 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson