Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 93/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. janúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 93/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi dags. 8. júlí 2011 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að hann félli ekki undir þann hóp sem geti nýtt sér átakið Nám er vinnandi vegur hjá Vinnumálastofnun. Ástæðan væri sú að þeir sem falli undir þann hóp sem geti nýtt sér það átak, hefðu þurft að hafa komið inn á atvinnuleysisskrá fyrir 1. mars 2011. Kærandi hafi komið inn á atvinnuleysisskrá þann 30. mars 2011. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. júlí 2011. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði dregin til baka. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði við pípulagnir hjá B hf. í fullu starfi frá 25. nóvember 2009 til 31. mars 2011, en var sagt upp störfum þann 31. mars 2011 vegna samdráttar. Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 30. mars 2011 og umsókn hans samþykkt þann 20. apríl 2011. Kærandi á lítið eftir af námi í pípulögnum og sótti um á pípulagnabraut í Iðnskólanum í Hafnarfirði fyrir haustönn 2011 og fékk þar inni. Kærandi sótti þann 3. júní 2011 um að komast í átak Vinnumálastofnunar, Nám er vinnandi vegur. Honum var synjað þar sem hann uppfyllti ekki það skilyrði átaksins að hafa verið komin á atvinnuleysisskrá fyrir 1. mars 2011, eins og fram hefur komið.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. ágúst 2011, vísar stofnunin á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og bendir á að meginreglan samkvæmt lagagreininni sé að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga meðan þeir leggi stund á nám sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerð sem samþykkt sé af hálfu Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun vísar til þess að skv. 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki sé Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamningi við atvinnuleitanda sem sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að slíkur samningur sé gerður sé að viðkomandi einstaklingur óski eftir því að slíkur samningur verði gerður við sig í upphafi annar og að því gefnu að hann uppfylli sett skilyrði. Meðal skilyrða sem þurfi að vera uppfyllt sé að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, námið sé viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, og að námið kunni að nýtast atvinnuleitandanum beint við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun bendir á að í fyrirhuguðu átaki stofnunarinnar „Nám er vinnandi vegur“ felist að stofnuninni sé heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitendur sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Átakið feli það í sér að atvinnuleitendur geti lagt inn umsókn þess efnis að fá að stunda nám í eina önn samhliða fullum atvinnuleysisbótum. Skilyrði þess að eiga kost á slíkum námssamningi séu meðal annars að atvinnuleitandi hafi skráð sig hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. mars 2011 og hafi verið samtals a.m.k. sex mánuði á atvinnuleysisskrá þann 1. september 2011. Það sé gert svo að ekki skapist hvati til þess að fara á atvinnuleysisskrá til að komast að í námi en markmið verkefnisins sé að skapa langtímaatvinnulausum tækifæri til náms í eina önn. Frá þeim skilyrðum hafi ekki verið talið unnt að veita undanþágur og sé því ljóst að kærandi uppfylli ekki þau skilyrði að eiga kost á fyrrgreindum námssamningi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. ágúst 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 19. ágúst 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

 

Niðurstaða

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 30. mars 2011. Hann leitaðist eftir því að komast til náms á pípulagningabraut í Iðnskólanum í Hafnarfirði haustið 2011 í gegnum átakið „Nám er vinnandi vegur“ en hann á tvær annir eftir af námi sínu. Honum var synjað um það með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði þess efnis að hafa verið skráður hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. mars 2011.

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, kemur fram sú meginregla að námsmenn eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og skiptir þá ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Í 4. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, er hins vegar gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist framkvæmd laganna í umboði ráðherra. Í 3. mgr. 12. gr. laganna er gert ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um skipulag vinnumarkaðsúrræða. Á grundvelli síðastnefnda ákvæðisins og laganna í heild sinni var sett reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum. Þessi reglugerð er enn í gildi og hefur verið allt frá setningu hennar. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um námssamninga og hljóðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar svona:

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda ekki talið líklegt að atvinnuleitanda verði boðið starf á næstu vikum að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Með námssamningnum skuldbindur atvinnuleitandinn sig til að stunda að fullu starfstengt nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar eftir að færni hans og staða hefur verið metin og greiðir Vinnumálastofnun honum á sama tíma atvinnuleysisbætur sem hann á rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Skilyrði er að atvinnuleitandi hafi starfað sem launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þó án tillits til starfshlutfalls skv. 4. mgr. 15. gr. laganna, námið sé viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir og að það kunni að nýtast atvinnuleitandanum beint við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Jafnframt er það skilyrði að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Þann 12. maí 2011 auglýsti Vinnumálastofnun sérstakt átak, „nám er vinnandi vegur“ þar sem kynningin byggði á „tillögum frá samráðshópi ráðuneyta, allra þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og hreyfinga námsmanna sem forsætisráðherra skipaði“ eins og átakið var kynnt á vef Vinnumálastofnunar. Með átakinu átti að auðvelda atvinnulausum að komast að í ýmsum skólum eftir námshlé. Þannig var kynntur nýr möguleiki fyrir atvinnuleitendur.

Sérstök áhersla var lögð á starfstengt nám annars vegar og nám í skapandi greinum hins vegar. Ákveðið var að fara þess á leit við Atvinnuleysistryggingasjóð að hann stæði straum af kennslukostnaði vegna þessa haustið 2011 og úrræðið næði til þeirra sem hefðu verið atvinnulausir í meira en sex mánuði haustið 2011. Þá var enn fremur sett sem skilyrði að umsækjandi um þátttöku í átakinu hefði verið skráður atvinnulaus fyrir 1. mars 2011.

Umsókn kæranda var afgreidd með vísan til þess að hann félli ekki undir skilyrði þess að geta tekið þátt í átakinu „nám er vinnandi vegur“ og var hafnað. Hins vegar var honum ekki kynnt að hann gæti fallið undir heimild 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009 sem að framan greinir. Þrátt fyrir að greint átak væri í gangi voru ákvæði reglugerðarinnar ekki fallin úr gildi. Vinnumálastofnun gat ekki með auglýsingu um átak í að aðstoða atvinnulausa við að komast í nám eftir hlé, þrengt ákvæði reglugerðarákvæðisins.

Vinnumálastofnun bar að leiðbeina kæranda um að hann gæti átt rétt til að gerður yrði við hann námssamningur skv. 5. mgr. reglugerðar nr. 12/2009 þegar stofnuninni var ljóst að hann félli ekki undir auglýst skilyrði átaksins vorið 2011. Þetta gerði Vinnumálastofnun ekki þrátt fyrir skyldu sína skv. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Vinnumálastofnun gætti ekki meðalhófsreglu sömu laga í 12. gr. Á grundvelli þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka beiðni kæranda fyrir að nýju.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A er felld úr gildi.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta