Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 179/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 179/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 25. júní 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 25. júní 2010 fjallað um umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 3. maí 2010. Vinnumálastofnun hafnaði umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til c-liðar 3. gr. og 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem stofnunin taldi hann vera í námi ásamt því að vera skráður í nám á næstu önn. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 21. september 2010. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara krefst hann þess að Vinnumálastofnun verði gert að taka mál hans upp að nýju með nýrri ákvörðun. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 3. maí 2010. Þann 26. maí 2010 leitaði kærandi til þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og spurðist fyrir um rétt sinn til atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafði verið skráður í nám við Háskólann í Reykjavík á vorönn 2010 og var áfram skráður í 6 ECTS–eininga nám við skólann á haustönn árið 2010.

Eftir að kæranda barst synjun Vinnumálastofnunar á umsókn hans um atvinnuleysisbætur, óskaði kærandi eftir endurupptöku á máli sínu með bréfi til stofnunarinnar, dags. 6. júlí 2010. Kærandi bendir á að hann telji sig uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og vísaði til 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar máli sínu til stuðnings.

Vinnumálastofnun tók mál kæranda upp að nýju á fundi þann 23. júlí 2010. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2010, tilkynnti stofnunin kæranda að fyrri ákvörðunin frá 25. júní 2010 hefði verið staðfest.

Í skýringarbréfi kæranda, dags. 6. júlí 2010, vekur hann athygli á því að 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveða á um undanþágur frá námsskilyrðum þegar námið er minna en 20 ECTS–einingar á námsönn. Kærandi bendir einnig á nám það sem hann sé skráður í á haustönn 2010, nemi alls 6 ECTS–einingum og sé því ekki lánshæft. Kærandi bendir á að um sé að ræða einingar sem muni gera honum kleift að ljúka B.Sc. námi í tölvunarfræði sem muni þar af leiðandi gagnast honum verulega í atvinnuleit sinni.

Kærandi bendir jafnframt á að honum hafi verið ráðlagt af fulltrúa Vinnumálastofnunar að bíða fram á haust með það að skrifa undir námssamning, sem sé ástæðan fyrir því að slíkur samningur liggi ekki fyrir.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. september 2010, segir kærandi að hann telji að Vinnumálastofnun hafi við endurupptöku máls kæranda á fundi þann 23. júlí 2010 hvorki tekið tillit til aðstæðna hans né hafi þau rök sem kærandi færir fram í bréfi sínu, dags. 6. júlí 2010, verið tekin til greina.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. apríl 2011, bendir Vinnumálastofnun á að í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á námi. Samkvæmt þeirri skilgreiningu eigi námið að vera við viðurkennda menntastofnun og standa yfir í lágmark sex mánuði. Einnig vísar stofnunin til 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að námsmenn sem eru í námi og hyggist halda námi áfram á næstu önn teljist ekki vera í virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun bendir jafnframt á að með lögum nr. 134/2009 hafi nýrri málsgrein við 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið bætt við. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009 segi meðal annars að það þyki ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn geti talist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í ljósi þess hversu stutt námshlé standa yfir, hafi verið lagt til að námsmenn teldust ekki tryggðir í námsleyfum. Til þess að koma til móts við námsmenn hafi einnig verið lagt til að að sá tími sem námsmenn gætu geymt bótarétt sinn samkvæmt lögunum yrði lengdur úr 36 mánuðum í 72 mánuði, sbr. 7. gr. laga nr. 134/2009.

Vinnumálastofnun vísar til kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. september 2010, þar sem kærandi vísar til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun vísar einnig til athugasemda við 52. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar þar sem sú meginregla sé ítrekuð að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi nema annað leiði af samningi um vinnumarkaðsaðgerð. Vinnumálastofnun bendir á það sé eitt af hinum almennu skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun telur að af orðalagi 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi greina að námsmenn geti talist tryggðir samkvæmt lögunum ef nám þeirra er hluti af vinnumarkaðsaðgerð Vinnumálastofnunar. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að samkvæmt 1. og 2. mgr. 52. gr. laganna geti námssamningur hjá stofnuninni heimilað námsmanni að stunda allt að 20 ECTS–eininga háskólanám ef frekari skilyrði eru til staðar.

Vinnumálastofnun vísar til 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Þar sé kveðið á um að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera námssamning við atvinnuleitanda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal skilyrða sé að atvinnuleitandi þurfi að hafa starfað á vinnumarkaði samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en atvinnuleitandi sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun bendir á að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort kærandi eigi rétt á námssamningi, en stofnunin telji að slíkt sé óháð niðurstöðu stofnunarinnar á því hvort kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum á meðan námsleyfi hans frá B.Sc. námi í tölvunarfræði vari.

Vinnumálastofnun telur að það liggi fyrir að kærandi hafi stundað nám á vorönn 2010 við Háskólann í Reykjavík og hafi verið skráður í 24 ECTS–eininga nám í tölvunarfræði. Haustið áður hafi kærandi verið skráður í 30 ECTS–einingar. Hugðist kærandi halda námi sínu áfram á haustönn og samkvæmt vottorði frá Háskólanum í Reykjavík, dags. 1. júní 2010, hafi kærandi verið skráður í 6 ECTS–eininga nám á haustönn 2010.

Vinnumálastofnun bendir á athugasemdir með 5. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 134/2009 þar sem segir að námsmenn geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit í skilningi laga þessara í námsleyfum, ef þeir eru skráðir í skóla á einni námsönn og eru jafnframt skráðir í nám á næstu námsönn á eftir.

Telur Vinnumálastofnun óumdeilt að háskólanám kæranda teljist nám í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ljóst sé einnig að tölvunarfræðinám á háskólastigi sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Vinnumálastofnun bendir á að stofnuninni sé ekki kunn ástæðan fyrir því að síðasta önn kæranda samanstendur einungis af 6 ECTS–einingum, en telur að kærandi eigi ekki að sæta annarri afgreiðslu en aðrir námsmenn í háskólanámi. Telur Vinnumálastofnun því ljóst að samkvæmt skýrum fyrirmælum í 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, teljist kærandi ekki tryggður á meðan sumarleyfi vari. Þessa niðurstöðu telur Vinnumálastofnun óháða mati á því hvort kærandi kunni að eiga rétt til námssamnings á haustönn 2010.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar hafi því verið sú að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum á meðan námsleyfi varir.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. apríl 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

Starfsmaður nefndarinnar óskaði frekari upplýsinga frá námsmannabókhaldi Háskólans í Reykjavík um nám kæranda haustið 2010. Samkvæmt upplýsingum námsmannabókhaldsins skráði kærandi sig í eitt valnámskeið haustið 2010, en hætti fljótlega án þess að skrá sig úr námskeiðinu. Á þessum tíma vantaði hann eitt tiltekið 6 eininga námskeið til þess að ljúka náminu og hann tók það síðan á vorönn 2011. Námskeiðið sem hann að endingu tók er aðeins kennt annað hvert vor svo hann gat ekki tekið það vorið 2010.

2.

Niðurstaða

Málið lýtur einkum að túlkun á c-lið 3. gr., 5. mgr. 14. gr. og 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Nám er skilgreint með svohljóðandi hætti í c-lið 3. gr. laganna:

 Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í 1. mgr. 52. gr. laganna segir að hver sá sem stundar nám teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Frá þessari meginreglu eru gerðar undantekningar vegna háskólanáms, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 52. gr. laganna. Í fyrri málsgreininni segir meðal annars að atvinnuleitendum sé heimilt að stunda nám að háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS–einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.  

Í máli þessu verður jafnframt að líta til svohljóðandi 5. mgr. 14. gr. laganna:

 Sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námsskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli námsstiga.

Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. eiga námsmenn ekki rétt að atvinnuleysisbótum meðan þeir eru í sumarleyfi á milli námsanna. Er á því byggt að þeir séu skráðir í nám á önninni áður en sumarleyfið hefst og einnig á önninni að loknu sumarleyfi.

Að lokinni vorönn 2010 við Háskólann í Reykjavík átti kærandi eftir 6 ECTS–eininga námskeið til að ljúka námi sínu til B.Sc. gráðu í tölvunarfræði. Þetta námskeið var ekki haldið á haustönn 2010 heldur á vorönn 2011. Þegar svona sérstaklega stendur á telst kærandi ekki hafa haft í hyggju að halda áfram námi á næstu námsönn í skilningi 1. málsl. 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það athugast að engu breytir þótt hann hafi verið skráður í 6 ECTS–eininga námskeið á haustönninni 2010 þar eð námskeiðið hafði engin áhrif á hvort kærandi gæti lokið B.Sc. gráðu í tölvunarfræði. Þegar kærandi skráði sig á það námskeið var hann að nýta sér heimild til að stunda takmarkað háskólanám, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú þátttaka hafði engin áhrif á nauðsyn þess að hann lyki öðru 6 ECTS–eininga námskeiði á vorönn 2011.

Með hliðsjón af framansögðu er sú ákvörðun Vinnumálastofnuar að synja kæranda um rétt til atvinnuleysisbóta felld úr gildi. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvenær kærandi lauk námi á vorönninni 2010. Rétt er að miða við að hann hafi átt rétt á greiðslu bóta frá og með því tímamarki, að öðrum skilyrðum laga uppfylltum.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. júlí 2010 í máli A um synjun á umsókn um greiðslu atvinnuleysistrygginga er hrundið. Kærandi á rétt til atvinnuleysisbóta frá lokum vorannar 2010 að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta