Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 202/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 202/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda, A, að stofnunin hefði aflað frekari gagna í máli hennar og hefði á fundi sínum þann 4. maí 2010 tekið ákvörðun um að færa niður hlutfall bótaréttar kæranda úr 100% í 46%. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. október 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 27. febrúar 2010. Ásamt umsókn um atvinnuleysisbætur fylgdi vottorð síðasta vinnuveitanda, B ehf. Þar segir að kærandi hafi starfað sem rekstrarstjóri hjá fyrirtækinu í fullu starfi frá 1. nóvember 2007 til 26. febrúar 2010. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar fullar atvinnuleysisbætur frá 1. mars 2010. Við vinnslu umsóknar kæranda hjá Vinnumálastofnun var kærandi fyrst reiknuð með 100% bótarétt. Frekari gagnaöflun í máli kæranda leiddi í ljós að hún var stjórnarmaður og prókúruhafi í fyrirtækinu B ehf. Til að staðreyna starfshlutfall kæranda í samræmi við vinnuveitandavottorð, leitaði Vinnumálastofnun frekari upplýsinga úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og samþykkti umsókn kæranda á ný á fundi sínum þann 4. maí 2010, með 46% bótarétti í samræmi við viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra. Ekki kemur fram í gögnum málsins að kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins áður en Vinnumálastofnun tók framangreinda ákvörðun.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. október 2010, segir kærandi að hún hafi ávallt verið launþegi og að öll lögbundin gjöld vegna hennar sem launþega hafi verið greidd af vinnuveitanda. Fram kemur af hálfu kæranda að henni hafi verið tjáð í símtali við Vinnumálastofnun að hún sem atvinnurekandi eigi að hafa hærri laun fyrir starf sitt, samkvæmt fyrirmælum ríkisskattstjóra. Kærandi bendir á að hún hafi verið skráð sem stjórnandi félags sem fór í þrot, en hún hafi ávallt verið launþegi. Því telji hún sig eiga rétt á fullum launatengdum bótum frá umsóknardegi.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. febrúar 2011, vísar Vinnumálastofnun til 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kemur fram að launamaður teljist hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og sem greitt er tryggingagjald fyrir vegna starfsins, samkvæmt lögum um tryggingagjald. Ljóst sé því að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að staðið hafi verið skil á tryggingagjaldi vegna vinnu viðkomandi. Þeir sem starfi hjá eigin einkahlutafélögum teljist því launamenn og ákvarðist réttur þeirra til atvinnuleysistrygginga á ákvæðum laganna er lúti að réttindum launafólks. Vinnumálastofnun vísar til þess að skv. 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist launamaður, sbr. a-lið 3. gr. laganna, að fullu tryggður eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun áréttar að í 1. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að launamaður skuli, sbr. a-lið 3. gr. sömu laga, leggja fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda er hann sæki um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar er fram komi í vottorði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skuli staðreyna hvort starfshlutfall hins tryggða sem tilgreint er í vottorði vinnuveitanda og skuli Vinnumálastofnun meðal annars líta til þess hvort laun hins tryggða hafi verið í samræmi við tilgreint starfshlutfall á ávinnslutímabilinu. Skuli þá miða við ákvæði gildandi kjarasamninga í viðeigandi starfsgrein eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.

Vinnumálastofnun vísar til umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur og vottorðs vinnuveitanda frá B ehf. Þar komi fram að kærandi hafi starfað sem rekstrarstjóri hjá fyrirtækinu. Við mat á réttindum launamanns sem starfað hafi hjá eigin hlutafélagi eða félagi tengdu atvinnuleitanda, sé meðal annars litið til viðmiðunarfjárhæða sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun þessa lágmarksendurgjalds sé höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf.

Vinnumálastofnun vísar til þeirra gagna sem kærandi hafi lagt fram í máli sínu og sem sýni fram á að kærandi hafi starfað hjá B ehf. frá 1. nóvember 2007 til 26. febrúar 2010. Samkvæmt útskrift úr hlutafélagaskrá sé kærandi stjórnarmaður og prókúruhafi fyrirtækisins. Maki kæranda sé stofnandi þess.

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en þar sé kveðið á um að endurgjald fyrir vinnu manns sem reiknar sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. a-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, skuli eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Gildi ákvæðið um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin sé í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Við frekari athugun á því hvort laun kæranda séu í samræmi við uppgefið starfshlutfall á ávinnslutímabilinu telji Vinnumálastofnun að í ljósi 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, sé stofnuninni skylt að líta til viðmiðunarfjárhæðar sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt. Vinnumálastofnun áréttar að ávinnsla bótaréttar kæranda byggi á störfum hennar hjá B ehf. og falli undir tekjuflokk B-4 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt og nemi lágmarks viðmiðunarfjárhæð í þeim flokki 429.000 kr.

Vinnumálastofnun hefur við útreikninga á reiknuðu endurgjaldi fyrir starf kæranda, byggt á gögnum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og samkvæmt því er hlutfall bótaréttar kæranda 46%.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því sú að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. febrúar 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. mars 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 27. febrúar 2010 og var umsókn hennar afgreidd í kjölfarið þannig að hún ætti rétt á fullum atvinnuleysisbótum, sem hún fékk greiddar frá 1. mars 2010. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar segir að þann 4. maí 2010 hafi umsókn kæranda verið endurskoðuð þar sem sú niðurstaða varð að kærandi teldist vera sjálfstætt starfandi einstaklingur en ekki launþegi og að því lækki bótahlutfall hennar. Í kjölfarið var ákveðið að bótahlutfall kæranda væri 46% í stað fulls bótahlutfalls.

Með 1. gr. laga nr. 37/2009 var skilgreining á hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingi breytt. Í athugasemdum greinargerðar við 1. gr. frumvarps þess er síðar varð lögum nr. 37/2009 sagði meðal annars að breytingin myndi leiða til þess „að þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum teljast launamenn og ákvarðast réttur þeirra til atvinnuleysistrygginga á þeim ákvæðum laganna er lúta að réttindum launafólks innan kerfisins“. Kærandi starfaði hjá einkahlutafélagi þar sem hún var einnig stjórnarmaður og prókúruhafi. Þrátt fyrir þessi tengsl sín við félagið reiknaði hún sér ekki endurgjald heldur fékk hún greidd laun. Engar forsendur voru því fyrir hendi að miða við að kærandi væri sjálfstætt starfandi einstaklingur eins og Vinnumálastofnun virðist hafa gert þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Fyrir úrskurðarnefndinni hefur Vinnumálastofnun réttlætt hina kærðu ákvörðun með vísan til svohljóðandi 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 11. gr. laga nr. 37/2009:

Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar er fram koma í vottorði skv. 1. mgr. Þegar staðreyna skal starfshlutfall hins tryggða sem tilgreint er í vottorði vinnuveitanda skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meðal annars líta til þess hvort laun hins tryggða hafi verið í samræmi við tilgreint starfshlutfall á ávinnslutímabilinu og skal þá miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hinn tryggði starfaði eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.

Af þessu ákvæði leiðir meðal annars að Vinnumálastofnun er heimilt að afla upplýsinga um starfshlutfall umsækjanda um atvinnuleysisbætur og hvort þær upplýsingar séu í samræmi við vinnuveitendavottorð sem aflað er skv. 1. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Við mat á starfshlutfalli á ávinnslutímabila skal miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem atvinnuleitandi starfaði eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð viðkomandi ráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein. Af þessum lagatexta leiðir að Vinnumálastofnun ber fyrst að rannsaka ákvæði viðeigandi kjarasamnings áður en rýnt er í viðmiðunarfjárhæðir stjórnvalda fyrir reiknað endurgjald. Þessi skilningur er ekki í ósamræmi við ummæli sem er að finna í athugasemdum greinargerðar um 11. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/2009.

Áður en hin kærða ákvörðun var tekin fór engin rannsókn fram á efni þeirra kjarasamninga sem gætu gilt í máli kæranda. Við töku ákvörðunarinnar var því brotið á rannsóknareglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að Vinnumálastofnun hafi gefið kæranda kost á því að andmæla hinni fyrirhugaðu ákvörðun áður en hún var tekin þann 4. maí 2010 þrátt fyrir að ákvörðunin væri óhjákvæmilega íþyngjandi fyrir kæranda. Telja verður slíkt brot á andmælareglunni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Stjórnsýsla hins opinbera er lögbundin. Við töku stjórnvaldsákvarðana þarf í senn að gæta að réttum málsmeðferðareglum og haga ákvörðunartöku í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma. Vinnumálastofnun ber því að taka sínar ákvarðanir samkvæmt gildandi lögum og á grundvelli meginreglna stjórnsýsluréttar. Í þessu tiltekna máli var farið á svig við þessi grundvallaratriði og því er nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Það athugast að með þessari ákvörðun tekur í gildi fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi eigi 100% bótarétt frá og með umsóknardegi. Niðurstaðan í þessu máli kemur ekki í veg fyrir að Vinnumálastofnun endurskoði þá tilhögun enda gæti hún að réttum málsmeðferðareglum við þá endurskoðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. maí 2010 í máli A um þess efnis að hlutfall atvinnuleysisbóta kæranda skuli vera 46% er felld úr gildi.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta