Hoppa yfir valmynd
21. maí 2016 Dómsmálaráðuneytið

Tíu skiluðu framboðum til kjörs forseta Íslands 25. júní 2016

Gögnum um framboð til embættis forseta Íslands var skilað í gær. - mynd
Fundur var haldinn í dag í innanríkisráðuneytinu þar sem tilkynnt var hvaða framboð til embættis forseta Íslands hefðu borist ráðuneytinu fyrir lok framboðsfrests á miðnætti 20. maí 2016. Forsetaefnum og/eða fulltrúum þeirra var boðið að sitja fundinn og fengu þau einnig tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum. Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri stýrði fundinum og fór yfir næstu skref og var fundarmönnum einnig gefinn kostur á að kynna sér gögn sem lágu frammi.

Ráðuneytisstjóri tilkynnti hver hefðu skilað framboðum fyrir lok framboðsfrests en þau eru:

  • Andri Snær Magnason
  • Ástþór Magnússon Wium
  • Davíð Oddsson
  • Elísabet Kristín Jökulsdóttir
  • Guðni Th. Jóhannesson
  • Guðrún Margrét Pálsdóttir
  • Halla Tómasdóttir
  • Hildur Þórðardóttir
  • Magnús Ingberg Jónsson
  • Sturla Jónsson

Fram kom að Magnús Ingberg Jónsson hefði lýst því yfir að hann hefði ekki náð að skila til ráðuneytisins nægjanlegum fjölda meðmælenda. Hefði hann óskað eftir fresti fram á mánudagskvöld til að afla fullnægjandi gagna en upplýst var á fundinum að ekki væru lagaheimildir til að verða við því.

Í 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, segir að framboðum til forsetakjörs skuli skila eigi síðar en 5 vikum fyrir kjördag til ráðuneytisins ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir. Einnig segir í lögunum að ráðuneytið skuli auglýsa í útvarpi og Lögbirtingablaðinu innan viku hver séu í kjöri til forsetaembættisins.

Ráðuneytið mun á næstu dögum fara yfir það hvort ofangreindum framboðum fylgi tilskilin gögn og auglýsa í kjölfarið hver séu formlega í kjöri til forsetaembættisins 25. júní 2016 eins og kveðið er á um í áðurnefndri 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands. Sú auglýsing verður birt í síðasta lagi næstkomandi föstudag, 27. maí 2016 og afgreiðir ráðuneytið þá jafnframt öll framkomin skjöl til Hæstaréttar Íslands eins og lög kveða á um.

 

Frá fundi með forsetaefnum í innanríkisráðuneytinu í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta