Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2024

Efnahagslegt öryggi ESB og langtímastuðningur við Úkraínu

Að þessu sinni er fjallað um:

  • tillögur að aðgerðum til að efla efnahagslegt öryggi ESB
  • aukafund leiðtogaráðs ESB og langtímastuðning við Úkraínu
  • fráveitur og hreinsun skólps
  • lokafrágang nýrrar reglugerðar um gervigreind
  • gæði og öryggi blóðs, fruma og vefja úr mönnum sem notað er í lækningaskyni
  • CO2 losunarkröfur til þungra ökutækja
  • markaðsreglur fyrir gas og vetni
  • morgunverðartilskipanir
  • Evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum
  • óformlegan fund atvinnu- og félagsmálaráðherra

Tillögur að aðgerðum til að efla efnahagslegt öryggi ESB

Hinn 24. janúar sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram umræðuskjöl og tillögur að aðgerðum sem miða að því að efla efnahagslegt öryggi sambandsins. Tillögupakkinn tekur mið af nýrri efnahagsöryggisáætlun ESB sem kynnt var síðastliðið sumar, sbr. umfjöllun í Vaktinni 22. júní sl. og eru tillögurnar hluti af víðtækri þriggja þátta nálgun ESB um það hvernig efla megi efnahagslegt öryggi, þ.e. að i) efla samkeppnishæfni ESB, ii) verja efnahagslífið gegn hættum og iii) efla samstarf við önnur ríki til að gæta sameiginlegra hagsmuna.

Með fylgir orðsending til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB þar sem umræðuskjölin og tillögurnar eru kynnt heildstætt en meginmarkmið pakkans er að leita leiða til að tryggja efnahagslegt öryggi um leið og reynt er að viðhalda frjálsum viðskiptum og rannsóknum í þeim viðsjárverðu aðstæðum sem nú ríkja í heimsmálum.

Um er að ræða eftirfarandi tillögur og umræðuskjöl:

  • Tillögu að reglugerð um samræmt rýniferli erlendra fjárfestinga innan ESB (e. Screening of foreign investments in the Union).
  • Hvítbók um fjárfestingar í þriðju ríkjum (e. White Paper on Outbound Investments).
  • Hvítbók um útflutningseftirlit (e. White Paper on export controls)
  • Hvítbók um valkosti við að efla stuðning við rannsóknir og þróun á tækni sem unnt er að nota í tvíþættum tilgangi (e. White Paper on options for enhancing support for research and development involving technologies with dual-use potential).
  • Tillögu að tilmælum ráðherraráðs ESB um aukið öryggi rannsókna og rannsóknarniðurstaðna (e. Enhancing research security).

Enda þótt framangreindar tillögur og málefnasvið sem umræðuskjölin lúta að falli að meginstefnu til utan gildissviðs EES-samningsins þá kunna málefnin sem þar er fjallað um að varða hagsmuni Íslands í margvíslegu tilliti. Fókusinn er á mögulegt aukið eftirlit, reglusetningu og takmarkanir á inn- og útflutning og þar þarf Ísland að gæta að stöðu sinni á öllum stigum. Sama gildir er kemur að samstarfi á sviði rannsókna og nýsköpunar en á þeim vettvangi er Ísland virkur aðili með þátttöku í mörgum samstarfsáætlunum ESB. Sjá í þessu samhengi umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl. um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins.

Nánar um framangreindar tillögur og umræðuskjöl:

Tillaga að reglugerð um samræmt rýniferli erlendra fjárfestinga innan ESB hefur það að markmiði að innleiða samræmt rýniferli vegna erlendra fjárfestinga í öllum aðildarríkjum ESB sem og að mæla fyrir um samræmdar reglur um það hvenær slík rýni skuli viðhöfð. Reglugerðin felur í sér breytingu á núgildandi regluverki ESB um erlendar fjárfestingar. Þá er lagt til að fjárfestingar af hálfu fyrirtækja sem þegar eru með staðfestu innan ESB en eru raunverulega talin í eigu eða undir stjórn ríkja utan ESB muni undirgangast sambærilega rýni og nýjar fjárfestingar frá aðilum utan ESB. 

Markmið Hvítbókar um fjárfestingar í þriðju ríkjum er að efna til umræðu og athugunar á fjárfestingum ESB í hátæknigreinum í þriðju ríkjum með hliðsjón af þeim auknu áhyggjum sem uppi eru af því að slík hátækni geti verið nýtt til að styrkja hernaðar- eða njósnagetu aðila sem eru andsnúnir ESB og kynnu að vilja nota slíka tækni gegn ESB eða til þess að grafa undan friði eða öryggi í heiminum almennt. Fjárfestingar af þessu tagi lúta, eins og staðan er nú, engu sérstöku eftirliti, hvorki af hálfu stofnana ESB eða aðildarríkjanna. Lagt er til að ráðist verði í sérstaka greiningu á þessum fjárfestingum meðal aðildarríkjanna, m.a. með sérstöku opnu samráðsferli við haghafa, en því samráðsferli hefur þegar verið hrint af stað, og í kjölfarið verði gefin út áhættumatsskýrsla. Á grundvelli hennar muni framkvæmdastjórnin í samráði við aðildarríkin meta hvort þörf sé á sérstökum viðbrögðum.

Markmið Hvítbókar um útflutningseftirlit er að kynna tillögur að auknu eftirliti með útflutningi frá ESB á vörum sem nota má í skilgreindum tvíþættum tilgangi, þ.e. bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi (e. dual use), t.d. háþróaðri rafeindatæknivöru. Er lagt til að tekið verði upp samræmt eftirlit innan ESB með ákveðnum útflutningsvörum sem falla í þennan flokk. Í gildi er reglugerð um vörur af þessu tagi frá árinu 2021 og er nú stefnt að endurskoðun hennar árið 2025.

Markmið Hvítbókar um valkosti við að efla stuðning við rannsóknir og þróun á tækni sem hægt er að nota í tvíþættum tilgangi er að leita leiða hvernig best verði staðið að stuðningi við slíkar rannsóknir í ljósi vaxandi áskorana á alþjóðasviðinu. Í þessu skyni hefur hvítbókin m.a. verði birt í opnu samráði í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur þar til 8. maí nk. Í hvítbókinni er m.a. fjallað um núverandi fjármögnunarleiðir slíkra rannsókna í gegnum rannsóknarsjóði ESB og samstarfsáætlanir eins og Horizon Europe og þann lagaramma sem um þær gilda og er markmið hvítbókarinnar m.a. að leggja mat að það hvort þær séu fullnægjandi eða hvort breytinga sé þörf.

Tillaga að tilmælum ráðherraráðs ESB um aukið öryggi rannsókna og rannsóknaniðurstaðna er sett fram til að mæta sífellt auknum áhyggjum um að opið og landamæralaust samstarf í rannsóknum kunni að vera misnotað eða notað gegn ríkjum ESB. Tilmælunum er ætlað að styðja við og leiðbeina aðildarríkjunum og rannsóknarsamfélaginu í heild til að takast á við áskoranir og samræma aðferðafræði á þessu sviði.

Langtímastuðningur við Úkraínu

Leiðtogaráð ESB kom saman til sérstaks aukafundar í gær, 1. febrúar.

Meginefni fundarins var fyrirliggjandi tillögupakki framkvæmdastjórnar ESB um endurskoðun fjármálaáætlunar ESB fyrir árin 2021 – 2027 sem lagður var fram 20. júní sl. Er þetta í fyrsta skipti sem slík endurskoðun á langtíma fjármálaáætlun sambandsins er lögð til á miðju tímabili. Ástæðan er fyrst og fremst árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og þær áskoranir og alvarlegu afleiðingar sem það hefur haft í för með sér.

Stefnt hafði verið að því að leiðtogaráðið tæki afstöðu til tillögupakkans á fundi leiðtogaráðsins 14. og 15. desember sl. Það tókst hins vegar ekki, eins og þekkt er, vegna andstöðu forsætisráðherra Ungverjalands, Victor Orbáns, við efni tillögunnar er lítur að langtímastuðningi við Úkraínu.

Fundurinn nú var því einskonar framhald af fundi ráðsins í desember þar sem m.a. var samþykkt að hefja aðildarviðræður við Úkraínu og Moldóvu auk þess sem ákveðið var að veita Georgíu stöðu umsóknarríkis. Sjá í því samhengi umfjöllun um stækkunarstefnu ESB í Vaktinni 10. nóvember sl.

Eins og vikið er að hér að framan fela tillögur framkvæmdarstjórnarinnar í sér að tekin verði langtímaákvörðun um stuðning við Úkraínu auk þess sem það er m.a. sérstakt markmið hennar að skjóta fjárhagslegum stoðum undir nýjan tækniþróunarvettvang ESB (e. Strategic Technologies for Europe Platform - STEP), sem ætlað er spila stórt hlutverk við eflingu á samkeppnishæfni ESB, sbr. umfjöllun um STEP í Vaktinni 23. júní sl. Þá felast í endurskoðuninni tillögur um hækkun fjárhagsramma til fleiri verkefna og málefnasviða svo sem flóttamannamála. Sjá nánar um helstu atriði í tillögu framkvæmdastjórnar ESB frá 20. júní sl. hér.

Merki voru um það í aðdraganda fundarins að leiðtogarnir væru að færast nær því að ná samkomulagi um málið. Þannig gaf það t.d. tiltekin fyrirheit þegar sendiherrar aðildaríkjanna á vettvangi ráðherraráðs ESB samþykktu afstöðu til tillögu er lítur að fyrirkomulagi langtímastuðnings við Úkraínu þann 10. janúar sl. en þann sama dag var einnig samþykkt afstaða til fyrirliggjandi löggjafartillögu um STEP. Ekkert virðist þó hafa verið fyllilega í hendi, ekki opinberlega hið minnsta, þegar leiðtogarnir komu saman til fundar í gær og því var nokkur spenna í loftinu.

Skemmst er frá því að segja að á fundinum náðist einróma niðurstaða um endurskoðunina í heild sinni með tilteknum breytingum. Í ályktun fundarins er lýst stuðningi við tillögur um langtímastuðning við Úkraínu þar sem gert er ráð fyrir fjárhagslegum stuðningi upp á 50 milljarða evra á næstu fjórum árum. Í samkomulaginu felst að framkvæmdastjórn ESB verður gert að gefa út árlega skýrslu um framkvæmd fjárhagsaðstoðarinnar og að þær skýrslur verði teknar til umræðu í leiðtogaráðinu ef tilefni er til. Jafnframt er kveðið á um að leiðtogaráðið muni, eftir tvö ár, kalla eftir því við framkvæmdastjórn ESB að hún taki fjármálaáætlunina til endurskoðunar með hliðsjón af þeim ályktunum leiðtogaráðsins sem þá munu liggja fyrir. Ljóst virðist að ályktanir um framangreinda skýrslugjöf og endurskoðun voru teknar inn til að tryggja stuðning forsætisráðherra Ungverjalands og þær fela þó ekki í sér að honum verði kleift að taka greiðslur á tímabilinu í gíslingu eins og hann lagði upphaflega upp með heldur gildir sú niðurstaða sem leiðtogaráðið samþykkti í dag, sbr. framangreint, út tímabilið.

Í framhaldi af samþykkt leiðtogaráðsins liggur fyrir Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB að álykta um og afgreiða tillögur sem lúta að framangreindri endurskoðun og er þess vænst að afgreiðsla þeirra mála náist á næstu vikum eða fyrir þinghlé í lok apríl nk.

Fráveitur og hreinsun skólps

Þann 29. janúar sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu að heildarendurskoðun tilskipunar um fráveitur og hreinsun skólps frá þéttbýli (e. urban wastewater treatment).

Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 4. nóvember 2022, sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 10. mars sl., þar sem fjallað var um afstöðu íslenskra stjórnvalda til málsins, sbr. afstöðuskjal sem Ísland lagði fram við meðferð málsins hjá stofnunum ESB.

Endurskoðun tilskipunarinnar er ein af lykilaðgerðum samkvæmt aðgerðaráætlun ESB um núllmengun (e. Zero pollution action plan) og er markmið hennar að koma í veg fyrir að skaðleg efni eins og örplast verði losuð út í umhverfið.

Núgildandi tilskipun um hreinsun skólps frá þéttbýli er frá árinu 1991. Samkvæmt henni ber að tryggja að skólp frá þéttbýli sem losar yfir 2.000 persónueiningar (pe) sé safnað og meðhöndlað í samræmi við tilteknar lágmarkskröfur. Í úttekt framkvæmdastjórnar ESB frá árinu 2019 á framkvæmd tilskipunarinnar undanfarna þrjá áratugi var leitt í ljós að framkvæmdin hefur reynst árangursrík við að draga úr mengun vatns og bæta meðhöndlun skólps á þeim þéttbýlissvæðum sem hún tekur til.

Ísland hefur fylgst náið með framgangi tillögunnar frá því að hún var lögð fram í október 2022 og hefur áherslum Íslands verið komið á framfæri. Þó að Ísland styðji metnaðarfull markmið tilskipunarinnar, sérstaklega varðandi vernd ferskvatns og hafs, hefur Ísland lagt áherslu á að nauðsynlegt sé að hafa sveigjanleika í tilskipuninni til að mæta aðstæðum í strjálbýlu landi eins og Íslandi þar sem aðstæður séu oft á tíðum afar ólíkar því sem gengur og gerist á meginlandi Evrópu. Hefur þannig verið lögð áhersla á að taka þurfi tillit til sérstakra aðstæðna að þessu leyti til að kostnaður verði í samræmi við aukinn ávinning fyrir umhverfið þannig að framkvæmd tilskipunarinnar verði hagkvæm og raunhæf.

Gert er ráð fyrir að endanleg drög að texta tillögunnar í samræmi við samkomulagið liggi fyrir innan nokkurra vikna. Þá verður hægt að greina textann betur m.t.t. áherslna Íslands. Með fyrirvara um endanlega útfærslu á textanum þá virðist þó sem þær breytingar sem samkomulagið felur í sér komi nokkuð til móts við athugasemdir sem íslensk stjórnvöld hafa haft uppi í málinu, svo sem að halda inni ákvæðum sem lúta að síður viðkvæmum viðtökum losun frá minni þéttbýlum í strandsjó, lengri tímafrestum og að tilteknar undanþágur séu heimilaðar, að gætt sé að tengingu við stjórn vatnamála og að áhættumat og áhættustjórnun verði beitt og liggi til grundvallar forgangsröðun og ákvörðunum um meðhöndlun skólps.

Meðal helstu breytinga sem ný tilskipun mun fela í sér, sbr. framangreint samkomulag, eru eftirfarandi:

  • Gildissvið tilskipunarinnar
    Lagt er til að gildissvið tilskipunarinnar verði víkkað út þannig að hún taki til fráveitna með 1.000 persónueiningum (pe) í staðinn fyrir 2.000 pe samkvæmt gildandi tilskipun. Í þessu felst að skylt verður að setja upp söfnunar- og hreinsikerfi fyrir fráveitu skólps frá slíku þéttbýli og verður frestur til að uppfylla þessa skyldu til ársins 2035. Í fyrirliggjandi samkomulagi felst þó að bætt er við tilteknum undanþágum fyrir fráveitur smærri þéttbýlisstaða sem losa í strandsjó eða síður viðkvæma viðtaka (e. less sensitive areas).

  • Áætlanir um stjórn fráveitumála
    Kveðið er á um skyldu aðildarríkja til að setja fram áætlanir um stjórn fráveitumála fyrir stærri þéttbýlisvæði sem endurskoða skal á sex ára fresti í samræmi við tilskipun um stjórn vatnamála.

  • Skólphreinsun
    Skylda til að beita svonefndri tveggja þrepa hreinsun áður en skólp er losað út í umhverfið er útvíkkuð þannig að hún nái til allra þéttbýlisstaða sem losa yfir 1.000 pe og skulu kröfur þar að lútandi uppfylltar fyrir árið 2035. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir því að skylda til að viðhafa þriggja og síðan fjögurra þrepa hreinsun verði innleidd í áföngum. Tilteknar undanþágur verða heimilaðar fyrir smærri þéttbýlisstaði.

  • Framlengd framleiðendaábyrgð
    Til að standa straum af þeim viðbótarkostnaði sem mun fylgja fjórða þreps hreinsun er gert ráð fyrir því að framleiðendum lyfja og snyrtivara, sem hafa mengun í för með sér, verði gert að greiða að lágmarki 80% af kostnaði við þá viðbótarhreinsun sem þar um ræðir.

  • Orkuhlutleysi og endurnýjanleg orka
    Gerðar verða kröfur um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda við starfrækslu fráveitu- og skólphreinsistöðva. Gert er ráð fyrir að frá og með árinu 2045 verða hreinsistöðvar í þéttbýli færar um að framleiða orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum sem til falla í starfseminni sem muni mæta kröfum um orkuhlutleysi þeirra að hluta a.m.k.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Lokafrágangur nýrrar reglugerðar um gervigreind

Bráðabirgðasamkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögu að nýrri reglugerð um gervigreind náðist í desember.

Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 9. júní sl. en eins og þar er rakið þá hefur málið verið á aðgerðalista framkvæmdastjórnar ESB allt núverandi skipunartímabil hennar eða frá árinu 2019, sbr. jafnframt umfjöllun í Vaktinni 4. mars 2020, þar sem fjallað var um Hvítbók um gervigreind og í Vaktinni 24. nóvember sl. þar sem fjallað var um siðareglur fyrir þróunaraðila gervigreindar.

Tekist hefur verið á um málið á vettvangi ESB en eftir strangar samningaviðræður dagana 6. - 8. desember sl. var tilkynnt þann 9. desember að samkomulag hefði náðst um meginefni málsins, sbr. fréttatilkynningar þar um frá ráðherraráði ESB, Evrópuþinginu og framkvæmdastjórn ESB.

Helstu breytingar sem framangreint samkomulag felur í sér eru eftirfarandi:

  • Gildissvið og skilgreining gervigreindartækni. Kveðið er skýrar á um skilgreiningu gervigreindar og um heimilaðan tilgang stórra gervigreindarlíkana og -kerfa, sem hafa burði til að hafa mikil áhrif og skapa mikla áhættu. Er tekið mið af skilgreiningu OECD í þessu sambandi. Miðar skilgreiningin að því að greina stór gervigreindarlíkön og -kerfi frá veigaminni hugbúnaði, sem einungis er talinn geta falið í sér takmarkaða áhættu. Eru meiri kröfur, eðli málsins samkvæmt, gerðar til hinar fyrrnefndu tegundar gervigreindarkerfa.  Gervigreindartækni sem talin er hafa takmarkaða áhættu í för með sér þarf að sæta minni kvöðum en tækni með meiri áhættu sem er háð strangari reglum.

Jafnframt er kveðið skýrar á um að reglugerðinni er ekki ætlað að takmarka heimildir opinberra stjórnvalda í aðildarríkjunum til notkunar gervigreindar til að tryggja þjóðaröryggi og varnarhagsmuni. Þá eru gerðar undanþágur fyrir gervigreindarkerfi sem hönnuð eru í rannsóknar- og nýsköpunartilgangi eingöngu.

  • Stjórnkerfi gervigreindarmála. Ákvæði um stjórnkerfi gervigreindarmála eru skýrð og valdheimilum sem unnt er að beita af hálfu stofnanna ESB, m.a. í formi sektarviðurlaga, bætt við. Gert er ráð fyrir að m.a. verði sett á fót ný gervigreindarskrifstofa innan framkvæmdastjórnar ESB (e. AI Office) sem sinnir þessum málum.

  • Fjölgun bannákvæða. Bannákvæðum, þ.e. ákvæðum þar sem lagt er bann við notkun gervigreindartækni, er fjölgað á grundvelli þess að óviðunandi áhætta er talin geta fylgt notkun á því sviði, svo sem beitingu gervigreindar til að hafa óeðlileg áhrif á hugræna atferlismótun (e. cognitive behavioural manipulation) eða til að greina tilfinningar einstaklinga á vinnustað eða í skólum eða með svonefndri félagslegri einkunnagjöf (e. social scoring) o.fl.

  • Líffræðileg auðkenning úr fjarlægð. Löggæsluyfirvöld í aðildarríkjunum munu njóta sérstakra undanþága þegar kemur að tilteknum þáttum reglugerðarinnar. Þannig gerir samkomulagið m.a. ráð fyrir að þeim verði heimilt, að uppfylltum ströngum skilyrðum og á grundvelli laga sem sett eru um slíkt eftirlit í aðildarríkjunum, að nýta sér svonefnda líffræðilega auðkenningu úr fjarlægð (e. Remote biometric identification - RBI) en það er þegar gervigreindarkerfi eru nýtt til að bera kennsl á einstaklinga úr fjarlægð með því að bera saman einstök líffræðileg auðkenni þeirra við upplýsingar úr gagnagrunni, t.d. með andlitsskönnun eða raddgreiningu.

  • Aukin réttindi almennings og neytenda. Mælt er fyrir um aukin réttindi almennings og neytenda til að leggja fram kvartanir og fá efnislega úrlausn þeirra ef þeir telja að reglur laganna séu sniðgengnar. Í þessu samhengi gerir samkomulagið m.a. ráð fyrir að fram fari mat á áhrifum nýrra áhættumikilla gervigreindarkerfa á grundvallarréttindi einstaklinga áður en þau eru sett á markað.

  • Virðiskeðja, ábyrgðarskipting og samspil við aðra löggjöf. Í samkomulaginu er leitast við að skýra nánar skiptingu ábyrgðar og hlutverka milli hinna ýmsu aðila sem koma að framleiðslu gervigreindarlíkana og -kerfa sem og veitenda og notenda slíkra kerfa og enn fremur að skýra betur samspil reglugerðarinnar við almennar persónuverndarreglur (General Data Protection Regulation, GDPR), reglur um stjórnun gagna (Data Governance Act), reglur um gögn (Data Act) og svokallaða NIS-tilskipun um öryggi net- og upplýsingakerfa o.fl.

Eins og alla jafna á við þegar samkomulag í þríhliða viðræðum er kynnt þá er enn eftir nokkur vinna við tæknilegan frágang og textagerð þar sem texti tillögu er færður til samræmis við hið efnislega samkomulag sem gert hefur verið, þannig að unnt sé að taka málið til formlegrar lokaafgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Framangreindur lokafrágangur í þessu máli hefur á hinn bóginn reynst torsóttari en gengur og gerist. Af fréttaflutningi að dæma virðist sem tafir í málinu megi helst rekja til ágreinings um endanlega útfærslu ákvæða um líffræðilega auðkenningu úr fjarlægð, sbr. umfjöllun um þann þátt samkomulagsins hér að framan, en fleiri atriði tillögunnar hafa þó einnig verið til frekari skoðunar.

Upphaflega stóð til að texti gerðarinnar yrði tilbúinn fyrir áramót og lá textaskjal til lokaafgreiðslu fyrir 22. desember sl. Þegar til kom reyndist þó ekki samstaða um að ljúka málinu á þeim grundvelli. Nýtt textaskjal leit dagsins ljós 22. janúar sl. og var sú útgáfa tekin fyrir og samþykkt að fundi sendiherra aðildarríkjanna fyrr í dag, 2. febrúar sl. og má gera ráð fyrir því að málið sé þar með útkljáð. Formleg afgreiðsla málsins er þó enn eftir á Evrópuþinginu.

Gæði og öryggi blóðs, fruma og vefja úr mönnum sem notað er í lækningaskyni

Þann 14. desember sl. náðist samkomulag á milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu framkvæmdarstjórnar ESB að nýrri reglugerð um gæði og öryggi blóðs, fruma og vefja úr mönnum sem notað er í lækninga- og rannsóknaskyni. Í daglegu tali gengur reglugerðin undir heitinu SoHo sem er skammstöfun á ensku orðunum „substances of human origin“.

Er reglugerðinni ætlað að leysa af hólmi tvær eldri tilskipanir um sama efni, tilskipun nr. 2002/98/EC, um öryggi og gæði blóðs og blóðhluta úr mönnum, og tilskipun nr. 2004/23/EC, um öryggi og gæði vefja og fruma. Ákveðið var að ráðast í endurskoðun á gildandi lagaramma til að endurspegla betur þá þróun sem orðið hefur í líftækni og vísindum á þessu sviði og tryggja betur öryggi og vernd þeirra sem gefa blóð, frumur og vefi í lækningaskyni sem og þeirra sjúklinga sem njóta þeirra gjafa. Jafnframt er nýju regluverki ætlað að styðja betur við rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði.  

Þá miðar reglugerðin að því að samræma stjórnsýslu og eftirlit á vegum aðildaríkjanna á þessu sviði. Helstu breytingar þar að lútandi eru eftirfarandi:

  • Á vettvangi ESB verður sett upp SoHo samhæfingarstjórn (e. EU SoHo coordination board) og er henni ætlað að gegna lykilhlutverki við innleiðingu reglugerðarinnar.
  • Kynntar verða sameiginlegar verklagsreglur ESB um veitingu leyfa og mat á efnum og efnablöndum sem ætlaðar eru til klínískra nota.
  • Gerð verður krafa um að í aðildarríkjunum sé til staðar lögbært landsyfirvald á þessu sviði.
  • Settar verða viðbótarkröfur um útgáfu starfsleyfa og eftirlit með aðilum sem vinna með blóð, frumur og vefi úr mönnum, geyma slík efni eða flytja þau á milli staða.
  • Settur verður á laggirnar sameiginlegur rafrænn upplýsingavettvangur um SoHo tengd málefni (e. EU SoHo Platform) til að skrá og skiptast á upplýsingum.

Í reglugerðinni er lögð áhersla á að standa vörð um þá mikilvægu grunnforsendu sem starfsemi á þessu sviði byggir á, þ.e. um sjálfboðaliðana sem gefa blóð, frumur og  vefi af fúsum og frjálsum vilja. Lagt er bann við því að hafa áhrif á gefendur með fjárhagslegum hvötum. Lifandi gjöfum er þó heimilt að þiggja viðeigandi þóknun enda sé það í samræmi við ákvæði laga í viðkomandi ríki.

Loks er í reglugerðinni kveðið á um einskonar neyðarviðvörunarkerfi (e. rapid alerts system) til að geta tekist á við alvarleg tilvik sem upp koma og eru líkleg til að skapa hættu fyrir bæði gjafa og þega. Þá er jafnframt gerð krafa um að ríkin fylgist vel með innlendu framboði, m.a. með gerð neyðaráætlana til að geta brugðist við mögulegum skorti.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um CO2 losunarkröfur til þungra ökutækja

Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 18. janúar sl. samkomulagi um efni tillögu að nýrri reglugerð um takmörkun CO2 útblásturs frá nýjum stórum og þungum ökutækjum. Fjallað var um tillöguna þegar hún kom fram í Vaktinni 24. febrúar 2023 en hún er liður í stefnu sambandsins um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Sjá einnig til hliðsjónar umfjöllun í Vaktinni 4. nóvember 2022 þar sem fjallað var um samkomulag um kolefnishlutleysi fólks- og sendibifreiða.

Samkomulagið felur í sér að gildissvið reglugerðarinnar verði víkkað út frá því sem upphaflega var áformað, þannig að markmið hennar um samdrátt í losun nái til allra nýskráðra þungra ökutækja, þ.m.t. minni trukka, fólksflutningabifreiða í borgum, hópferðabifreiða, vagna (trailers) o.fl. 

Þó er gert ráð fyrir tilteknum undantekningum, þ.e. fyrir:

  • smærri framleiðendur ökutækja
  • ökutæki sem notuð eru fyrir námugröft, skógarhögg og akuryrkju.
  • ökutæki fyrir her og slökkvilið
  • ökutæki fyrir löggæslustarfsemi, almannavarnir og heilbrigðisstarfsemi

Í tillögunni eru sett markmið um samdrátt í losun um 45% fyrir 2030, 65% fyrir 2035 og 90% fyrir 2040 samanborið við losun 2019. Samkomulagið hróflar ekki við þessum almennu markmiðum. Hins vegar felur samkomulagið í sér að horfið er frá því undirmarkmiði sem sett var fram í tillögunni um að samdráttur í losun hjá nýskráðum almenningsvögnum skuli nema 90% strax árið 2030 og að þeir skuli vera kolefnislausir árið 2035. Þess í stað mælir samkomulagið fyrir um að almenningsvagnar skuli felldir undir almennu markmiðin eins og önnur ökutæki sem reglugerðin tekur til.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að sett verði inn ákvæði um að árangur af framkvæmd reglugerðarinnar skuli metinn árið 2027. Felur það m.a. í sér að kveðið er á um að framkvæmdastjórnin skuli skoða hvort fýsilegt sé að þróa samræmt verklag til þess að meta losun kolefnis yfir líftíma nýrra þungra ökutækja.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB og í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB

Gaspakkinn - markaðsreglur fyrir gas og vetni

Til að tryggja orkuöryggi í Evrópu lagði framkvæmdastjórn ESB í desember 2021 fram pakka af tillögum, sem hluta af framfylgd Græna sáttmálans, til að draga úr kolefnislosun á gasmarkaði og auðvelda upptöku endurnýjanlegra og lágkolefnislofttegunda, þ.m.t. vetnis. Um er að ræða lykilráðstafanir til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi í ESB fyrir árið 2050 og draga úr losun um að minnsta kosti 55% fyrir árið 2030. Tillögunum fylgdi stefnumótandi framtíðarsýn sem sett er fram í orkukerfisáætlun ESB og vetnisáætlun ESB.

Hinn 8. desember sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni reglugerðar sem kveður á um sameiginlegar innri markaðsreglur fyrir endurnýjanlega orkugjafa, jarðgas og vetni. Tilgangur reglugerðarinnar er að liðka fyrir dreifingu og notkun endurnýjanlegrar orku og lágkolefnislofttegunda, einkum vetnis og lífmetans (e. biomethane).

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Morgunverðartilskipanir

Í vikunni náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu framkvæmdastjórnar ESB þar sem lagðar eru til breytingar á tilskipunum sem nefndar hafa verið morgunverðartilskipanir ESB en markmið þeirra er að tryggja hollustu tiltekinna afurða sem gjarnan sjást á morgunverðarborðum íbúa sambandsins og hjálpa neytendum að taka upplýstar ákvarðanir og tryggja gagnsæi varðandi uppruna umræddra vara.

Um er að ræða breytingar á fjórum tilskipunum og eru helstu breytingar sem samkomulag hefur nú náðst um eftirfarandi:

Um hunang: Skylt verður tilgreina upprunaland vörunnar á umbúðum, ef varan er blanda af innihaldsefnum frá fleiri löndum þarf að tilgreina hlutfall hvers lands upp að vissu marki.

Um ávaxtasafa og hliðstæðar vörur: Lagðar eru til breytingar á reglum um merkingar til að endurspegla vaxandi eftirspurn eftir sykurskertum vörum í þessum flokki og er gert ráð fyrir að þremur nýjum flokkum merkinga verði bætt við: „sykurskertur ávaxtasafi“, „sykurskertur ávaxtasafi úr ávaxtaþykkni“ og „sykurskert ávaxtaþykkni“. Að auki verður rekstraraðilum heimilt að nota merkinguna „ávaxtasafi inniheldur einungis náttúrulegan sykur“ ef við á. 

Um ávaxtasultur: Lagt er til að lágmarksinnihald ávaxta í ávaxtasultum verði hækkað um 10 prósentustig frá því sem nú er í venjulegum ávaxtasultum þannig að ávaxtainnihald þurfi að vera a.m.k. 45% af innihaldi. Jafnframt er lögð til 5% hækkun á lágmarksinnihaldi ávaxta í ávaxtameiri sultum (e. extra jam) þannig að lágmarks ávaxtainnihald þeirra verði 50%. Þessi aukning á lágmarks ávaxtainnihaldi er hugsuð til að minnka hlutfall viðbætts sykurs í sultum.

Um mjólkurduft: Lagt er til að framleiðsla á laktósafríu mjólkurdufti verði heimiluð.

Tillagan gengur til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Endurskoðun tilskipunar um Evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum

Í síðastliðinni viku kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögu að endurskoðaðri tilskipun um Evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum.

Tilskipun um Evrópsk starfsmannaráð er í grunninn frá árinu 2009 og er henni ætlað að stuðla að jafnræði og bættum félagslegum réttindum starfsmanna í stórum fjölþjóðlegum fyrirtækjum innan ESB. Í tilskipuninni er mælt fyrir um rétt starfsmanna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum sem hafa 1000 starfsmenn eða fleiri og eru starfrækt í tveimur eða fleiri aðildarríkjum til að stofna sérstakt samstarfsráð (e. European Works Council) sem er ætlað að vera vettvangur fyrir samráð og skoðanaskipti um þverþjóðleg málefni milli starfsmanna og fulltrúa vinnuveitanda. 

Með endurskoðun tilskipunarinnar nú er verið að bregðast við gagnrýni og veikleikum sem þykja hafa komið í ljós við framkvæmd hennar m.a. varðandi það hvaða málefni sé skylt bera undir slík samstarfsráð, hvernig samráðsferli skuli hagað og hvaða leiðir starfsmenn hafi til að leita úrlausnar ef þeir telja að reglum tilskipunarinnar sé ekki fylgt. Þá þykir hafa skort á samræmi milli aðildarríkjanna er kemur að beitingu viðurlaga við brotum. Evrópsk verkalýðsfélög hafa kallað eftir endurskoðun tilskipunarinnar og það hefur Evrópuþingið einnig gert, sbr. ályktun Evrópuþingsins frá 2. febrúar sl.

Lagt er til að staða samstarfsráðanna verði styrkt meðal annars með því að mæla fyrir um víðtækari rétt starfsmanna til að stofna til slíkra samstarfsráða, skýrari ákvæði eru sett um það hvaða mál sé skylt að fjalla um og með hvaða hætti auk þess sem sett eru ákvæði sem ætlað er að stuðla að jöfnu hlutfalli kynjanna í slíkum ráðum sem og samninganefnda á þeirra vegum.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Tillagan hefur samhliða verið birt í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur til 26. mars nk. 

Óformlegur fundur atvinnu- og félagsmálaráðherra

Dagana 11. - 12. janúar fór fram í Namur í Belgíu óformlegur fundur ráðherra á vettvangi ráðherraráðs ESB sem bera ábyrgð á atvinnu- og félagsmálum. Ráðherrum EES/EFTA-ríkjanna var boðið til fundarins og tók Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.  

Megináhersla fundarins var á megingildi hinnar félagslegu réttindastoðar ESB (European Pillar of Social Rights), sbr. m.a. umfjöllun um fimm ára afmæli réttindastoðarinnar í Vaktinni 18. nóvember 2022. Fjölmargar tillögur og gerðir hafa verið settar fram á undanförnum árum á grundvelli réttindastoðarinnar og má þar nefna reglur á sviði vinnuverndar, svo sem vinnutímatilskipunina, sem hefur verið innleidd í íslenskan rétt og tilskipunar um gagnsæ og fyrirsjáanleg skilyrði á vinnumarkaði auk þeirra tveggja tilskipana sem nú eru helstar í umræðunni á sviði vinnuréttar, þ.e. tillögu að tilskipun um réttindi starfsmanna sem sinna störfum með milligöngu stafrænna vettvanga, sbr. umfjöllun um þá tillögu í Vaktinni nú síðast 19. janúar sl. auk nýlegrar tilskipunar um lágmarkslaun, sbr. umfjöllun í Vaktinni 9. september 2022.

Á fundinum var m.a. rætt um hvað hefði tekist vel og hvað síður og voru ráðherrarnir hvattir til að hugleiða hvernig mætti þróa réttindastoðina áfram til frekari velsældar í Evrópu að teknu tilliti til þeirra áskorana sem uppi eru vegna lýðfræðilegra breytinga og þeirra grænu og stafrænu umskipta sem framundan eru. Rætt var um áskoranir á vinnumarkaði til framtíðar vegna skorts á hæfu starfsfólki og hugsanlegar leiðir til að bregðast við þeim skorti en nýlega var kynntur aðgerðapakki sem m.a. er ætlað að bregðast við þessum áskorunum og bæta samkeppnishæfni Evrópu, sbr. umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl.  Þá var umræða um samheldni og félagslegt réttlæti og hvernig ESB geti stuðlað að slíku jafnt innan sem utan Evrópu.

Aðalframkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Gilbert Houngbo ávarpaði ráðherrafundinn og gerði grein fyrir tillögu sinni „Global coalition for social Justice“ sem stjórn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar samþykkti í nóvember sl. og er ætlað að vera vettvangur pólitískra aðgerða fyrir verkefni sem stuðla að félagslegu réttlæti og mannsæmandi vinnu. Þátttakendur á fundinum lýstu almennt yfir stuðningi sínum við framtakið og Belgar og fulltrúar nokkurra annarra aðildarríkja notuðu tækifærið og tilkynntu að þau myndu taka þátt í samstarfinu.

Á fundinum átti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, nokkra tvíhliða fundi, m.a. með Oksönu Zholnovych félagsmálaráðherra Úkraínu, þar sem hún þakkaði fyrir veittan stuðning og lagði áherslu á mikilvægi þess að þjóðir heimsins, þar á meðal Ísland haldi áfram sínum mikilvæga stuðningi við Úkraínu.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geir Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta