Hoppa yfir valmynd
24. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 24. maí 2024

Heil og sæl, 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var stödd hér á landi í vikunni eftir annasama daga og heilmikil ferðalög undanfarið eins og fjallað var um í síðasta föstudagspósti. Verkefnin eru samt engu færri hvort sem þeim er sinnt hér heima eða utan landsteinanna. 

Á símafundi með Dimitro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu ítrekaði hún langtímastuðning Íslands.

Á samstöðudegi með Belarús ítrekaði ráðherra jafnframt stuðning Íslands við lýðræðisöflin í landinu en í forsetatíð núverandi forseta hafa þúsundir verið handtekin fyrir að tjá skoðun sína á stjórnvöldum opinberlega. 

Nú standa utankjörfundaratkvæðagreiðslur sem hæst og starfsfólk sendiráða okkar, ásamt víðfeðmu neti ræðismanna, sinna því af kappi. Fréttir bárust af misbrestum við framkvæmd kosninganna á Tenefrife sem fljótt var gengið í að laga. Á öllum öðrum stöðum sem Íslendingum býðst að kjósa erlendis, um 230 talsins, hafa kosningarnar gengið snurðulaust fyrir sig.

Af öllum sendiskrifstofum var sennilega mest umleikis hjá sendiráði Íslands í Lilongwe en þar á bæ tók fólk á móti Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra sem kom þangað í opinbera heimsókn, þá fyrstu sem forsætisráðherra Íslands fer í til landsins. Ferðin var farin af tilefni 35 ára afmælis þróunarsamstarfs ríkjanna. Heimsóknin heppnaðist vel í alla staði en henni lauk í dag.  

Óhætt er að segja að starfsfólk sendiráðs okkar í Malaví hafi staðið í ströngu við undirbúning heimsóknarinnar. 

Sendiherra Íslands í Svíþjóð Bryndís Kjartansdóttir bauð gestum listakaupstefnunnar Market Art Fair til móttöku í sendiráðsbústaðnum. Verk eftir íslenska listamenn voru til sýnis í móttökunni, íslenskt góðgæti á boðstólunum og Bjartar Sveiflur sáu um tónlistina. 

Í sendiráði Íslands í Berlín rifjuðu menn upp þátttöku Íslands í Classical:NEXT alþjóðlega tónlistartengslanetinu.

Og þátttöku Íslands í Superbooth 2024.

Boðið var upp á leiðsögn um sýninguna CROMATIC eftir listakonuna Önnu Rún Tryggvadóttur í umsjón Guðnýjar Guðmundsdóttur fyrir fagfólk í bransanum en sýningin, sem vakið hefur heilmikla lukku, stendur uppi í sendiráðsbústaðnum í Berlín til júníloka.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson fór í opinbera heimsókn til Eistlands og Finnlands í vikunni. Í Helsinki átti hann fund með Alexander Stubb, forseta Finnlands og tók við heiðursdoktorsnafnbót í háskólanum í Oulu. 

Í Eistlandi hitti hann forseta Eistlands Alars Karis og sat alþjóðaráðstefnu um öryggismál. Þar tók hann þátt í pallborði ásamt forsætisráðherra Eistlands Kaja Kallas og fleirum þar sem sjónum var einkum beint að innrás Rússlands í Úkraínu og viðbrögðum í Evrópu. 

Það var ekki bara forsetinn sem heimsótti Finnland í vikunni heldur einnig starfsfólk Þjóðarbókhlöðunnar. Tilefni ferðarinnar var að kynna sér starfsemi bókasafna í Finnlandi og í leiðinni kíktu þau við í sendiráðsbústaðnum, fengu kynningu á starfsemi sendiráðsins og leiðsögn um sýninguna Sunup eftir listakonuna Þórdísi Erlu Zoëga í Gallerie Käytävä.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Helsinki tók þátt í norrænum degi á eyjunni fögru Sveaborg. 

Þá bauð sendiherra Íslands í Finnlandi Harald Aspelund til sín áhrifavöldum á samfélagsmiðlum auk fjölmiðlafólks þar sem hann hélt kynningu á sögu og tækni íslenska snyrtivörufyrirtækisins Bioeffect. Gestirnir fengu að sjálfsögðu í leiðinni leiðsögn um sýninguna Sunup.

Í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn var kynnt með stolti samstarf Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og Íslandsstofu í þátttöku á dönsku hönnunarhátíðinni 3DaysofDesign og öll boðin velkomin.

Þann 16. maí sl. flutti Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra fyrirlestur í sendiráði Íslands í London. Sturla Sigurjónsson kynnti ráðherrann fyrir áheyrendum en efni fyrirlestrarins voru samskipti Íslands og Bretlands á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. 

Jóhanna Jónsdóttir, staðgengill sendiherra í London, heimsótti Norður-Írland í vikunni ásamt kollegum frá Norðurlöndunum og Benelux-ríkjunum.

Forseti Alþingis fundaði í Westminster með forsetum beggja deilda breska þingsins og þingmönnum sem tengjast Íslandi. Náin samskipti þjóðanna voru undirstrikuð á fundunum. Jóhanna Jónsdóttir, staðgengill sendiherra í London, fylgdi sendinefndinni.

Opnun sýningarinnar “IslANDs” eftir listamanninn Guðjón Bjarnason fór fram í Habitat Centre í Nýju Delí á Indlandi í vikunni. Sýningin er haldin í samvinnu við safnstjóra Visual Arts Gallery Dr. Alke Pande, Habitat Centre og sendiráð Íslands í Nýju Delí. 

Sendiherra Íslands í Kanada Hlynur Guðjónsson sótti ráðstefnuna Global Sustainable Islands þar sem hann tók þátt í pallborði Norrænu ráðherranefndarinnar ásamt framkvæmdastjóra hennar Kristina Háfoss. 

Sólin lék við Norðmenn á hátíðarhöldum vegna þjóðhátíðardagsins þann 17. maí sl. Sendiherra Íslands í Noregi Högni Kristjánsson, ásamt starfsfólki sendiráðs Íslands í Osló tók að sjálfsögðu þátt í hátíðarhöldunum.

Það líður sjaldnast föstudagur í Osló án þess að eitthvað skemmtilegt gerist í menningarlífinu sem tengist Íslandi á einhvern hátt. Í kvöld eru það tónleikar með Ásgeiri Trausta.

Opnun sýningar myndlistarmannsins Birgis Brei fór fram í París í gær. Þetta er þriðja sýning Birgis í Frakklandi en sú fyrsta í París. Unnur Orradóttir, sendiherra Íslands í Frakklandi var viðstödd opnunina.

Sendiráð Íslands í Japan fer með meðal annars með fyrirsvar gagnvart Suður Kóreu. Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Japan afhenti forseta Suður-Kóreu Yoon Suk Yeol trúnaðarbréf sitt í vikunni.

Safnanótt fór fram í Varsjá um síðastliðna helgi. Sendiráð Íslands í borginni opnaði dyrnar fyrir skráðum gestum í skipulagðri dagskrá af því tilefni. Um 120 gestir heimsóttu sendiráðið. 

Í kvöld gefst fólki færi á að hitta rithöfundinn Agnesi Ársól í sendiráði Íslands í Varsjá. Agnesm hefur tekist á hendur það verkefni að þýða íslenskar, færeyskar og norskar þjóðsögur yfir á pólsku. 

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum Bergdís Ellertsdóttir tók þátt í vel heppnaðri dagsrá Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins sem stóð fyrir heimsókn til Seattle ásamt Íslandsstofu.

Fleira var það ekki að sinni. 

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta