Hoppa yfir valmynd
4. október 2017 Innviðaráðuneytið

Innanlandsflug nauðsynlegur hlekkur í samgöngukerfinu

Frá málþingi um innanlandsflug sem almenningssamgöngur. - mynd

Innanlandsflug sem almenningssamgöngur var yfirskrift málþings um innanlandsflug sem nokkur samtök sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélög, Byggðastofnun, Austurbrú, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og fleiri aðilar stóðu að í dag.

Á málþinginu var fjallað um ýmsar hliðar innanlandsflugs út frá sjónarmiðum neytenda og kynnt var leið sem Skotar hafa farið til að greiða niður fargjöld eftir ákveðnum skilgreiningum og fjallað um hvort sú leið gæti komið að gagni hérlendis.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setti málþingið og sagði í upphafi að sérstaða innanalandsflugs á Íslandi væri augljós, það væri okkar lestarkerfi. Hann sagði innanlandsflugið skipta verulegu máli í þjóðarbúskapnum, það væri hátækni atvinnugrein sem velti miklum fjárhæðum og skapaði störf um landið allt. Ráðherra fullvissaði fundarmenn að hann væri meðvitaður um þann félagslega og efnahagslega ávinning sem hagkvæmar flugsamgöngur hefðu í för með sér.

„Með því að tryggja greiðar og hagkvæmar flugsamgöngur fjárfesta stjórnvöld í mannauði og verðmætum um allt land. Góðar flugsamgöngur opna aðgang íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu, sérhæfðri þjónustu og afþreyingu sem einungis er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Á sama hátt opna góðar flugsamgöngur leið fyrir ferðamanninn, hvort sem hann er innlendur eða erlendur, til að ferðast til áfangastaða innanlands,“ sagði ráðherra einnig.

Ráðherra hefur skipað starfshóp sem skila á tillögum um hvernig ná megi fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem skili sér til neytenda í lægri flugfargjöldum. Formaður hópsins er Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og með honum eru Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, og Jón Karl Ólafsson frá Isavia. Hann sagði starfshópnum falið að fara yfir núverandi fyrirkomulag innanlandsflugsins, fara yfir hugmyndir að breyttu fyrirkomulagi, máta þær og meta hvaða leikreglur skili mestri hagkvæmni til neytenda.

Þá sagði ráðherra að hin svokallaða „skoska leið“ sem felur í sér að ríkissjóður taki þátt í farmiðaverði heimamanna með beinum hætti geti verið þess fallin að styrkja búsetu. Í lok ávarps síns minntist ráðherra á byggingu flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli sem hann sagði að væri nauðsyn burtséð frá því hver yrði framtíðarstaðsetning flugvallarins. Slíka byggingu mætti þá taka undir annað ef flugvöllur yrði lagður niður en á meðan yrði að bæta aðstöðu flugfarþega og starfsmanna sem væri óboðleg í dag.

Samgöngur grundvöllur búsetugæða

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, ræddi um innanlandsflug sem almenningssamgöngur og sagði samgöngur vera einn grundvallarþáttinn í búsetugæðum og því mjög mikilvægar fyrir landsbyggðina. Hún greindi frá svokallaðri skoskri leið sem samkvæmt reglum ESB  tekur til stuðnings við samgöngukostnað á félagslegum grundvelli og er skilgreind í þágu íbúa á tilteknum svæðum. Stjórnvöld og flugfélög gerðu með sér samkomulag og farþegar með lögheimili á landsbyggðinni gætu sótt um aðild að stuðningskerfinu. Hún taldi mikilvægt að koma slíkri leið á hérlendis sem væri viðbót við þann stuðning sem innanlandsflugið fengi nú þegar. Sagði Jón Árný áætlaðan kostnað vera milli 600 og 800 milljónir króna.

Ívar Ingimarsson var talsmaður grasrótarinnar á málþinginu en hann rekur einnig ferðaþjónustuna Óseyri og ræddi hann efnið dýrt innanlandsflug, þín upplifun. Hann sagði fólk í dag vilja ferðast og flug væri mikilvægur hlekkur þar sem fólk veigraði sér við að ferðast í allt að 18 tíma milli Austurlands og höfuðborgarsvæðis. Bæta yrði aðgengi að innanlandsflugi og nefndi hann að samkvæmt lauslegri könnun væri fólk á Austurlandi reiðubúið að greiða um 15.900 króna fargjald. Hann sagði að með lægri fargjöldum myndu lífsgæði batna með auknu aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þátttöku í hvers kyns félagslegum viðburðum, t.d. íþróttaviðburðum. Einnig taldi hann að fasteignaverð myndi hækka t.d. á Egilsstöðum ef almenningur gæti nýtt flugsamgöngur meira. Ef innanlandsflug yrði skilgreint sem almenningssamgöngur og nýtt væri hugmyndafræði skosku leiðarinnar myndi það skipta sköpum og sagði hann í lokin að ekki ætti að tala um niðurgreiðslu á innanlandsflugi heldur væri það mótvægisaðgerð.

Erindi Katrínar Halldóru Sigurðardóttur leikkonu nefndist langt í burtu – samt bara tveir tímar en hún er uppalin á Neskaupstað en flutti þaðan tvítug. Hún sagði mikinn kostnað felast í því að ferðast með flugi til að ferðast af ýmsum ástæðum til höfuðborgarsvæðisins frá Austurlandi. Hinn kosturinn væri að aka sem tæki um 10 tíma hvora leið og væri hann ekki fýsilegur t.d. fyrir  helgarferðir.

Sanngjarnt verð myndi bæta lífskjör

Friðbjörg Matthíasdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, fjallaði um bættar flugsamgöngur og betri lífsgæði. Kallaði hún eftir breyttum skilyrðum, breyttu hugarfari og breyttri nálgun á innanlandsfluginu. Hún sagði flug á sanngjörnu verði fyrir íbúa myndu bæta lífskjör til muna svo og meiri tíðni ferða, að hægt væri að fljúga t.d. fram og til baka sama daginn í það minnsta einu sinni í viku. Hún sagði að flugsamgöngur væru lífæðin og algjörlega nauðsynlegur hlekkur í samgöngukerfinu.

Rachel Hunter, svæðisstjóri Hjaltlandseyja, ræddi um efnahagslegan og félagslegan ávinning skosku leiðarinnar. Í upphafi sagði hún Hjaltlandseyjar láglaunasvæði og lífskjör væru á ýmsan hátt erfið en efnahagur væri á uppleið og fólksfjölgun verið frá árinu 2001. Þá kom fram í máli hennar að í könnun meðal ungs fólks á svæðinu væri efst á óskalista þess að fá góð störf, aðgang að menntun og hagkvæmar samgöngur. Skoska leiðin á Hjaltlandseyjum gerði það kleift að veita 50% afslátt af ákveðnum flugleiðum, þ.e. milli eyjanna og borganna Glasgow, Edinborgar, Aberdeen, Inverness, Manchester og Bergen og væri þetta í samræmi við reglur Evrópusambandsins um styrki við jaðarbyggðir. Hún sagði farþegum hafa fjölgað eftir að styrkirnir komu til og að stór hluti ferþega hefði ferðast á annan hátt ef þeirra nyti ekki við en einnig hefðu flugfélög aukið sætaframboð.

  • Jón Gunnarsson flutti setningarávarp á málþinginu. - mynd
  • Málþing um innanlandsflug var haldið í dag. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta