Hoppa yfir valmynd
14. maí 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Meira traust með betri stafrænni þjónustu

Bjarni Benediktsson undirritar viljayfirlýsingu um samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkja á sviði gervigreindar. - mynd

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra situr nú fund ráðherranefndar um stafræna væðingu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem haldinn er í Stokkhólmi. Fjármála- og efnahagsráðuneytið tók í lok árs í fyrra við öllum upplýsingamálum ríkisins og stefnumótun á því sviði og stendur nú fyrir sérstöku verkefni sem hefur það að markmiði að efla stafræna þjónustu hins opinbera við borgarana og bæta rekstur.

Á fundinum í dag var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóðanna á sviði gervigreindar. Einnig voru ræddar stafrænar breytingar á stjórnsýslu Norðurlandanna, meðal annars markmið ríkjanna um að veita stafræna þjónustu yfir landamæri og styðja við frjálst flæði fólks, þjónustu, vara, vinnuafls o.fl. milli landanna. 

Bjarni kynnti áherslur íslenskra stjórnvalda í innleiðingu stafrænnar opinberrar þjónustu og hvernig unnið er að því að styrkja stafræna innviði með ljósleiðaravæðingu landsins alls. „Það hefur sýnt sig að traust til stofnana og ánægja viðskiptavina þeirra helst í hendur við hversu vel þær standa sig í stafrænni þjónustu og upplýsingagjöf, “ sagði Bjarni og vísaði þar til árangurs RSK á sviði upplýsingamála. Hann vakti einnig athygli á almennri notkun rafrænna skilríkja á Íslandi og hvatti til þess að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin kæmu sér upp sameiginlegri eða gagnkvæmri viðurkenningu á rafrænum undirskriftum.

Ráðherranefnd um stafræna væðingu var komið á fót árið 2017 með Digital North, sameiginlegri stefnuyfirlýsingu norrænu samstarfsráðherranna í Osló í júní 2017. Nefndin er tímabundin, tók til starfa á þessu ári og er ætlað að ljúka störfum árið 2020. Bjarni Benediktsson tekur við formennsku í henni árið 2019 samhliða því að Ísland tekur við forystu í Norrænu ráðherranefndinni. Aðild að stafrænu nefndinni eiga tíu ráðherrar upplýsingamála á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum.


  • Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í upplýsingatæknimálum funda í Stokkhólmi í dag.  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta