Mótun nýrrar orkustefnu - opið fyrir tillögur og ábendingar til 1. febrúar
Þessi misserin er starfshópur um gerð langtíma orkustefnu fyrir Ísland er að störfum og er stefnt að því að tillaga að orkustefnu fyrir Ísland verði lögð fram á Alþingi í byrjun árs 2020.
Mikil áhersla er lögð á víðtækt samráð við mótun stefnunnar og nú á fyrstu stigum verkefnisins er kallað eftir á samráðsgátt stjórnvalda hvers kyns tillögum, ábendingum og hugmyndum frá einstaklingum, hagsmunasamtökum og fyrirtækjum varðandi áherslur, efnistök og innihald nýrrar orkustefnu.
Samráðinu er tvískipt og stendur fyrri áfangi þess til 1. febrúar. Síðari áfanginn hefst þegar drög að orkustefnu líta dagsins ljós.
Samhliða hefur verið opnað sérstakt vefsvæði (orkustefna.is) þar sem hægt er að nálgast allar upplýsingar um verklagið við mótun nýrrar orkustefnu auk fjölþættra upplýsinga um orkumál og orkustefnur sem önnur ríki hafa sett sér.