Hoppa yfir valmynd
22. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 27/2015

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 27/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. mars 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 4. mars 2015 samþykkt umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Réttur hennar til atvinnuleysisbóta væri hins vegar felldur niður í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknarinnar í ljósi þess að hún hefði hætt námi við B, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. mars 2015.

 Með bréfi, dags. 27. mars 2015, var kæranda tilkynnt að við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hafi komið í ljós að hún væri skráð í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysistrygginga til hennar verið hætt, sbr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú ákvörðun var einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar með athugasemdum kæranda við greinargerð Vinnumálastofnunar þann 3. júní 2015. Kærandi krefst þess að námssamningur vegna vorannar 2015 verði samþykktur. Vinnumálastofnun telur að rétt sé að fella niður ákvörðun stofnunarinnar frá 4. mars 2015 um tveggja mánaða biðtíma og að bótahlutfall kæranda skuli leiðrétt. Þar sem kærandi hafi verið í námi við C þann tíma sem hún hafi verið skráð atvinnulaus geti þó ekki komið til greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. 52. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 7. janúar 2015. Umsóknin var samþykkt með 47% bótarétti á fundi Vinnumálastofnunar þann 4. mars 2015 en kæranda gert að sæta tveggja mánaða biðtíma skv. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með bréfi, dags. 12. mars 2015, var kæranda tilkynnt um að við samkeyrslu atvinnuleysisskrár við nemendaskrár viðurkenndra menntastofnana og skóla á framhaldsskólastigi hafi komið í ljós að kærandi hefði verið skráð í nám við C á vorönn 2015. Þá óskaði stofnunin eftir skólavottorði frá kæranda og skýringum á því hvers vegna hún hefði ekki upplýst stofnunina um námið. Engar skýringar bárust frá kæranda. Með bréfi, dags. 27. mars 2015, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hætta greiðslum atvinnuleysistrygginga til hennar.

Í kæru er krafist endurskoðunar á þeim tveggja mánaða biðtíma sem kærandi var látin sæta sem og bótahlutfalli hennar. Fram kemur meðal annars að kærandi hafi neyðst til að hætta fullu námi í B vegna námsörðugleika, lesblindu og þunglyndis. Hún hafi meðal annars farið til sálfræðings og reglulega til heimilislæknis og auk þess fengið lyf vegna þunglyndis. Það hafi ekki gengið vel hjá henni að fá fulla vinnu en hún sé í tilfallandi starfi í liðveiðslu. Hún sé skráð í þrjú fög utan skóla til þess að hún detti ekki alveg út úr námi.

Kærandi hafi ekki fengið góðar og skýrar leiðbeiningar frá Vinnumálastofnun um hvað eða hvernig hún ætti að sækja um. Það sé heldur ekki auðvelt fyrir 18 ára ungling með þunglyndi og námsörðugleika að skilja ferlið hjá Vinnumálastofnun. Það þurfi að hjálpa fólki betur og skýrar en gert hafi verið í hennar tilviki.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. maí 2015, kemur fram að stofnunin hafi fallist á kröfur kæranda um niðurfellingu á biðtíma og endurútreikning á bótahlutfalli. Stofnunin bendi þó á að eftir að ákvarðanir Vinnumálastofnunar hafi verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar hafi komið í ljós, við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og nemendaskrár viðurkenndra menntastofnana og skóla á framhaldsskólastigi, að kærandi hafi verið skráð í nám við C án námssamnings. Kæranda hafi í kjölfarið verið sent bréf, dags. 12. mars 2015, þar sem hún hafi verið beðin um að senda stofnuninni upplýsingar vegna þess. Engar skýringar hafi borist frá kæranda. Þá liggi fyrir að ráðgjafi stofnunarinnar hafi verið í sambandi við kæranda í febrúar 2015. Kærandi hafi ekki gert námssamning við stofnunina, þrátt fyrir beiðni ráðgjafa þar um. Í kjölfarið hafi verið tekin sú ákvörðun á fundi stofnunarinnar þann 25. mars 2015 að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðunin með bréfi, dags. 27. mars 2015

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hver sá sem stundi nám teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Ljóst sé að kærandi hafi skráð sig í annað nám eftir að hún hafi hætt námi sínu hjá B. Hún hafi stundað það nám á meðan hún hafi verið skráð atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan þar sem hún hafi sætt biðtíma samkvæmt viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þó ekki sé vikið að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. mars 2015 í kæru til nefndarinnar er ljóst að jafnvel þó fallist verði á kröfur kæranda um niðurfellingu á biðtíma og leiðréttingu á bótahlutfalli komi ekki til greiðslu atvinnuleysistrygginga nema kæranda sé veitt heimild til að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki átt rétt til atvinnuleysistrygginga á því tímabili sem hún sé skráð í nám við C enda hafi kærandi ekki gert námssamning við stofnunina, þrátt fyrir beiðni stofnunarinnar þar um.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. maí 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá foreldrum kæranda þann 3. júní 2015. Í athugasemdunum segir að af þeim gögnum sem hafi komið frá Vinnumálastofnun megi ráða að kærandi hafi enn einu sinni misskilið það formlega atriði sem virðist ætla að ráða úrslitum fyrir hana, þ.e. að hún hafi átt að senda námssamning varðandi fjarnámið sem hún hafi skráð sig í við C. Þegar þau hafi farið yfir þessi gögn þá hafi kærandi skilið hvaða mistök hún hafi gert því hún hafi allan tíman haldið að þær upplýsingar hefðu verið með í staðfestingu námsmanns varðandi það að hafa hætt í B.

Um sé að ræða manneskju sem sé að reyna að fóta sig í samfélagi okkar og öllum þessum stofnunum sem við sé að eiga og hún hafi ekki náð að klára það með þeim hömlum sem hún sé haldin. Foreldrar hennar vilji ekki vera endalaust að brjóta hana og hennar sjálfstraust niður með því að vera sífellt að taka fram fyrir hendurnar á henni, enda sé hún orðin sjálfráða. Áður hafi það verið þannig þegar sótt var um bætur að bótaþegar mættu á skrifstofu verkalýðsfélagsins í þeirra heimabæ og þeim sýnt persónulega hvaða pappíra þurfti og málið klárað á staðnum með því að fara yfir öll þau gögn sem skila þurfti. Það sé mun þægilegra og öruggara fyrir alla og ekki síst fyrir óharnaðan ungling með lesblindu og þunglyndi.

 Athugasemdirnar voru sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi, dags. 3. júní 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

2. Niðurstaða

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á vorönn 2015. Umsókn kæranda var upphaflega samþykkt með 47% bótahlutfalli en kærandi látin sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu bóta, sbr. bréf Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2015. Síðar kom í ljós að kærandi var skráð í nám hjá C á vorönn 2015 án þess að hafa gert námssamning við stofnunina. Kærandi var því ekki talin eiga rétt á bótum með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi framangreinds fékk kærandi ekki greiddar neinar bætur á vorönn 2015.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um bótahlutfall kæranda og tveggja mánaða biðtíma hefur verið afturkölluð. Þeim hluta málsins er því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Ágreiningur málsins lýtur því einungis að því hvort Vinnumálastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

Ákvæði 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Kærandi var í námi á vorönn 2015 í framhaldsskóla. Meginregla 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar átti því við um hana, sbr. c-lið 3. gr. sömu laga. Undantekningarreglur 2. mgr. og 3. mgr. 52. gr. eiga eingöngu við um þá sem stunda háskólanám. Beiting þeirra reglna kemur því ekki álita í máli þessu.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er atvinnuleitandi sem stundar nám í framhaldsskóla ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili nema námið sé hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í kæru og athugasemdum við greinargerð er byggt á því að kærandi hafi ekki gert námssamning við Vinnumálastofnun vegna misskilnings. Hún eigi við námsörðugleika og þunglyndi að stríða og hafi ekki áttað sig á reglunum.

Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar óskaði starfsmaður stofnunarinnar eftir því með símtali þann 23. janúar 2015 að kærandi legði fram staðfestingu á skólavist og einingum til þess að hægt væri að skoða möguleikann á námssamningi. Að beiðni kæranda veitti aðstoðarskólameistari C Vinnumálastofnun framangreindar upplýsingar. Fyrrgreindur starfsmaður Vinnumálastofnunar sendi kæranda námssamning í framhaldinu og bað hana um að skrifa undir hann og senda til baka. Kærandi svarar með tölvupósti að hún hafi verið að skrifa undir áðan og spyrt hvort það sé nóg. Af samskiptasögunni má ráða að kærandi sé í svari sínu að vísa til staðfestingar námsmanns sem hún hafi verið að skrifa undir þar sem fram kemur að hún hafi lokið námi við B. Hún er því að velta því fyrir sér hvort það sé nægilegt. Kærandi fékk engin svör við framangreindri fyrirspurn sinni.

Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af fyrirspurn kæranda að hún hafi talið að hún hefði skilað inn nægjanlegum gögnum um nám sitt. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í þeim tilvikum sem stjórnvaldi má vera ljóst að aðili hafi misskilið réttarreglur, ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum, ekki veitt nægjanlega ítarlegar upplýsingar eða hefur að öðru leyti bersýnilega þörf fyrir leiðbeiningar, ber stjórnvaldi að gera aðila viðvart og veita honum viðeigandi leiðbeiningar. Að mati úrskurðarnefndarinnar mátti starfsmanni Vinnumálastofnunar vera ljóst af tölvupóstsamskiptum við kæranda að hún hefði misskilið réttarreglur og ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum. Úrskurðarnefndin telur því að Vinnumálastofnun hafi ekki gætt nægjanlega vel leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga með þeim afleiðingum að kærandi skilaði ekki inn námssamningi vegna vorannar 2015.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta á vorönn 2015 hrundið. Málinu er vísað aftur til Vinnumálastofnunar til mats á umsókn kæranda um námssamning. Meta ber umsóknina líkt og hún hefði borist í febrúar 2015. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálstofnunar um að synja A um greiðslu atvinnuleysisbóta á vorönn 2015 er hrundið. Málinu er vísað aftur stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta