653 milljónir í bættan aðbúnað aldraðra
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur í dag ákveðið úthlutanir að fjárhæð rúmlega 653 milljónir króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 2008 til verkefna er lúta að bættum aðbúnaði aldraðra.
Samkvæmt lögum um málefni aldraðra skal Framkvæmdasjóður aldraðra stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Fjármagni skal varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagvista og byggingar stofnana fyrir aldraða. Einnig er hlutverk sjóðsins að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða og til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila. Loks er heimilt að veita styrki úr sjóðnum til annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem lagt er á skattskyldu einstaklinga samkvæmt lögum um tekjuskatt.
Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra er í höndum samstarfsnefndar um málefni aldraðra og tekur fulltrúi fjárlaganefndar Alþingis sæti í stjórninni þegar nefndin fjallar um málefni sjóðsins. Nefndin gerir tillögur til félags- og tryggingamálaráðherra um úthlutun úr sjóðnum.
Í úthlutun félags- og tryggingamálaráðherra var í öllum tilvikum farið að tillögum samstarfsnefndar um málefni aldraðra.
Stærsti hluti fjármagnsins eða um 400 milljónir króna fer til uppbyggingar 186 nýrra hjúkrunarrýma sem stefnt er að að tekin verði í notkun á tímabilinu 2008–2010.
Þá er um 75 milljónum króna veitt til að mæta byggingarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir geðsjúka aldraða en þau rými hafa þegar verið tekin í notkun og 15 milljónum króna veitt til annarra hjúkrunarrýma sem þegar hafa verið tekin í notkun.
Um 55 milljónum króna er varið í að breyta 58 fjölbýlum í 30 einbýli og 105 milljónum króna er veitt til að bæta aðstöðu fyrir heimilismenn og starfsfólk á fimm hjúkrunarheimilum.
Þá er í úthlutuninni veitt fjármagn til að fjölga hvíldarrýmum um sjö.
Til að bæta aðgengi að húsnæði sem veitir öldruðum þjónustu eru veittar um 6,4 milljónir króna.