Öryggismyndband fyrir hópferðabíla
Samgönguráðherra var nýverið afhent fyrsta eintak nýrrar öryggismyndar sem Hópbílar hf. hafa framleitt til sýninga í hópferðabílum sínum. Tilgangur með myndbandinu er að kynna farþegum þann öryggisbúnað sem er um borð í hópferðabílum fyrirtækisins. Hópbílar voru fyrsta hópferðafyrirtækið á Íslandi til að setja öryggisbelti í öll sæti.
Það er ekki síður mikilvægt að spenna belti í hópferðabílum en í fólksbílum, þar sem þess er kostur, sagði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra við þetta tækifæri. Þar sem öryggisbelti hafa ekki verið í hópferðabílum lengst af gegnir öryggismyndin þýðingarmiklu hlutverki við að kynna farþegum nýjan en nauðsynlegan öryggisbúnað. Framtak eigenda og starfsmanna Hópbíla í Hafnarfirði í öryggismálum er lofsvert og hvetur samgönguráðuneytið önnur fyrirtæki, sem stunda hópferðaakstur, að fylgja fordæmi fyrirtækisins.
Myndbandstæki er í öllum hópferðabílum Hópbíla og er öryggismyndin sýnd við brottför allra ferða á vegum fyrirtækisins. Myndin hefur þegar verið gefin út á íslensku og ensku en frönsk útgáfa er væntanleg.