Hoppa yfir valmynd
19. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Svalbarðsstrandarhreppur ætlar að verða Barnvænt sveitarfélag

Birna Þórarinsdóttir, Björg Erlingsdóttir og Ásmundur Einar Daðason við undirritun samkomulagsins.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, undirrituðu fyrir stuttu samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Með undirskriftinni bætist Svalbarðsstrandarhrepuur í ört stækkandi hóp sveitarfélaga sem hefja nú vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi. 

Þátttaka Svalbarðsstrandarhrepps í Barnvænum sveitarfélögum er liður í að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.

Öll sveitarfélög verði Barnvæn sveitarfélög

Akureyrarbær hóf vinnu við að verða Barnvænt sveitarfélag árið 2016, og varð í lok maí fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta þá viðurkenningu.  Áhugi á þátttöku í verkefninu hefur verið mikill og biðlistar myndast þar sem UNICEF hefur hingað til ekki getað annað eftirspurn áhugasamra sveitarfélaga. Þann 18. nóvember 2019, í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna gengu félags- og barnamálaráðherra og UNICEF á Íslandi til samstarfs við framkvæmd verkefnisins undir formerkjum Barnvæns Íslands. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum. Á næstu tveimur árum er stefnt að því að vel á annan tug sveitarfélaga bætist í hópinn. Félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi sendu öllum sveitarfélögum landsins nýverið formlegt erindi með boði um þátttöku og hafa viðtökur verið vonum framar.

Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna

Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er mikið fagnaðarefni þegar nýtt sveitarfélag bætist í ört stækkandi hóp sveitarfélaga sem taka þátt í að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er mikill akkur af því að fá Svalbarðsstrandarhrepp inní þetta mikilvæga verkefni og ánægjuefni að sveitarfélagið ætli að vinna að krafti að málefnum barna.“

Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps: „Við hér á Svalbarðsströnd hlökkum mikið til þess að hefja samstarf við UNICEF að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og nýta okkur þá verkfærakistu sem við fáum aðgang að í gegnum hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga. Hér er rekinn leikskóli fyrir börn frá 9 mánaða aldri og grunnskóli með kennslu út 10. bekk. Í leikskólanum Álfaborg og Valsárskóla hefur verið unnið markvisst að því að styrkja nemendur þannig að þeir verði hæfari til þess að takast á við verkefni framtíðarinnar. Við höfum unnið eftir hugmyndafræði leiðtogaþjálfunar, þjálfum nemendur í að finna eigin styrkleika og efla sjálfstraust þeirra. Við erum því vel í sveit sett með að vinna að hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga og munum nýta það ekki síður í að efla færni þeirra fullorðnu til þess að taka þátt í starfi barna og unglinga, efla þau og styrkja sem framtíðarstjórnendur og leiðtoga.“

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi: „Það er ávallt gleðiefni þegar sveitarfélag tekur þá ákvörðun að setja réttindi barna og hag í forgang í stjórnsýslu sinni og starfsemi. Svalbarðsstrandarhreppur bætist nú í hóp metnaðarfullra sveitarfélaga um allt land sem hafa tekið þá ákvörðun að setja upp barnaréttindagleraugun og vinna að þessu verðuga verkefni með okkur. Ég fagna því og óska íbúum og börnum hreppsins innilega til hamingju með þetta gæfuspor.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta