Hoppa yfir valmynd
11. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2021

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 57/2021

Þriðjudaginn 11. maí 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. janúar 2021, um að synja umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 26. október 2020, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns hennar X. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. janúar 2021, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 2. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 18. febrúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kærenda

Kærandi greinir frá því að hún hafi klárað nám sitt í B þann 25. júní 2020 þar sem hún hafi lært C. Hún hafi búið í B frá X 2014 en hafi þó alltaf haft lögheimili sitt á Íslandi. Þar sem kærandi hafi fallið undir fæðingarstyrk námsmanna hafi hún sótt um hann. Fyrst hafi kærandi fengið synjun frá Fæðingarorlofssjóði þar sem litið hafi verið svo á að hún hafi lokið námi sínu í X 2020. Kærandi hafi þurft að skila inn talsverðu magni gagna frá skólanum til þess að hún fengi samþykkt af sjóðnum að skólaárið hafi í raun klárast í júní 2020 en ekki í maí 2020.

Þegar það hafi verið samþykkt hafi verið sett sú krafa að barnið yrði að fæðast á settum degi eða fyrr – annars myndi kærandi flokkast undir fæðingarstyrk utan vinnumarkaðar. Kærandi hafi gengið fimm daga fram yfir og flokkist því undir fæðingarstyrk utan vinnumarkaðar. Kærandi hafi kynnt sér og lesið reglur um fæðingarorlof og fæðingarstyrk og hafi tekið eftir því að hún falli einnig undir 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Þar komi fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr., þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt, hafi foreldri verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Kærandi hafi skilað inn launaseðlum vegna sex mánaða áður en hún hafi byrjað í námi en fengið það svar að ekki væri séð á gögnum að vinna hafi farið fram innan 12 mánaða fyrir fæðingardag barns. Kærandi sjái ekki hvernig það svar samsvari fyrrgreindri 11. mgr. 19. gr.

Framangreind samskipti við Fæðingarorlofssjóð hafi valdið kæranda miklum kvíða og áhyggjum, sérstaklega þar sem henni hafi ekki verið svarað fyrr en í desember 2020. Þá hafi þetta haft mjög mikil áhrif á líðan kæranda síðustu vikur meðgöngunnar og fyrstu vikurnar sem kærandi hafi átt með dóttur sinni. Barnsfaðir kæranda sé sjálfstætt starfandi svo að innkoma heimilisins sé virkilega óörugg, sérstaklega vegna Covid-19. Það skipti þau því virkilega miklu máli hvort innkoma hennar sé um 80.000 kr. (fæðingarstyrkur utan vinnumarkaðar) eða um 180.000 kr. (fæðingarstyrkur námsmanna) til þess að geta náð endum saman. Einnig vegna þess að kærandi og barnsfaðir hennar hafi verið nýflutt til landsins og þar sem barnsfaðir hennar sé D sé búið að vera virkilega erfitt að sækja um fæðingarorlof fyrir hann. Eftir þeim svörum sem þau hafi fengið frá Fæðingarorlofssjóði eigi hann ekki rétt á neinu, þrátt fyrir að vera kominn inn í sjúkratryggingar og hafi verið í fullu starfi síðan í september 2020. Barnsfaðir kæranda hafi fengið þau svör að hann þyrfti að fá eyðublað […] fyrir Sjúkratryggingar Íslands, en þegar haft hafi verið samband við Sjúkratryggingar Íslands hafi  verið sagt að þetta væri úrelt eyðublað og óþarft. Þar af leiðandi setji þetta mjög mikla pressu á barnsföður kæranda og því miður verði hann að vinna það mikið að hann hafi virkilega lítinn tíma með dóttur þeirra og kærandi fái litla aðstoð yfir daginn og um þær helgar sem hann þurfi að vinna. Að auki sé mikil pressa á kæranda og barnsföður hennar hvað snerti barnapössun þegar fæðingarorlofi kæranda ljúki eftir sex mánuði þar sem leikskólar taki ekki inn svona ung börn. Kærandi geti ekki séð hvernig þetta hafi hagi barnsins í fyrirrúmi líkt og Fæðingarorlofssjóður gefi sig út fyrir að gera. Þá hafi kærandi sótt um að hefja fæðingarorlof sitt í desember 2020 en ekki fengið neina greiðslu.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærður sé útreikningur sjóðsins á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laga nr. 95/2000 teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 sé að finna heimild til greiðslu fæðingarstyrks fyrir námsmenn erlendis.

Barn kæranda hafi fæðst X. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé horft á tímabilið X og fram að fæðingardegi. Samkvæmt staðfestingu á námi og námslokum, dags. 11. desember 2020, hafi kærandi lokið námi sínu og útskrifast þann 25. júní 2020. Samkvæmt gögnum málsins verði ekki séð að kærandi hafi verið skráð í nám eftir það. Kærandi hafi því stundað nám frá X til 25. júní 2020. Þrátt fyrir að einungis vanti fimm daga upp á að kærandi nái sex mánuðum í námi á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingardag barns sé enga heimild að finna í lögum um fæðingar- og foreldraorlof til að víkja frá almenna skilyrðinu af þeim völdum.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um námsframvindu líti Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofsjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 og reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé að finna undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám. Í 11. mgr. 19. gr. laganna sé að finna undanþágu til að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr. 19. gr. hafi foreldrið verið í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Í kæru kæranda komi fram að hún telji sig eiga rétt á þessari undanþágu þar sem hún hafi verið í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en nám hófst árið 2014. Viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sé frá X og fram að fæðingardegi barns. Ekki sé heimilt að líta til tímabils á innlendum vinnumarkaði sem hafi lokið áður en að viðmiðunartímabilið hafi hafist við mat á því hvort kærandi eigi rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður.

Í 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof sé að finna undanþágu til að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. og hafi síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði sé að nám og starf hafi verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði. Fyrir liggi að kærandi hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna sem sé vormisseri 2020. Við mat á því hvort kærandi hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði verði að líta til þess hvort hún uppfylli þau skilyrði sem kveðið sé á um í 1. mgr. 13. gr. a. laganna. Í 1. mgr. 13. gr. a. laganna kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. 7. gr. laganna komi fram að starfsmaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá sé í 2. mgr. 13. gr. a. laganna talið upp í fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá skattyfirvalda hafi kærandi ekki verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 tímabilið júní til september 2020. Þá verði ekki heldur séð af  fyrirliggjandi gögnum að stafliðir 2. mgr. 13. gr. a. laganna geti átt við í tilviki kæranda. Það sé því álit Vinnumálastofnunar – Fæðingarorlofssjóðs að nám kæranda, sem lauk 25. júní 2020 og starf sem hófst í október 2020, hafi ekki varað samfellt í að minnsta kosti sex mánuði í skilningi 12. mgr. 19. gr. laganna.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum líti Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að eiga rétt á þeim undanþágum sem fram komi í 11. og 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk, sbr. bréf til kæranda, dags. 4. janúar 2021.   

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Barn kæranda fæddist X. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá 30. desember 2019 og fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði fullt nám í C við E í B frá X til og með 25. júní 2020 á viðmiðunartímabilinu. Af framangreindu má sjá að fimm daga vantar upp á að kærandi nái sex mánuðum í námi á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns hennar og fullnægir hún því ekki fyrrnefndu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji sig eiga rétt á undanþágu frá sex mánaða skilyrðinu samkvæmt 11. mgr. 19. gr laga nr. 95/2000 þar sem hún hafi starfað í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en nám hennar hófst árið 2014. Í 11. mgr. 19. gr. kemur fram að heimilt sé að greiða foreldi fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr., þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt, hafi foreldri verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að nám hófst. Samkvæmt 1. mgr. 19. laga nr. 95/2000 er viðmiðunartímabil kæranda frá 30. desember fram að fæðingu barns. Ljóst er að kærandi hafði ekki starfað í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði á því tímabili og á hún því ekki átt rétt á undanþágu á grundvelli 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000. Þá þykja framlögð málsgögn að öðru leyti ekki sýna fram á að kærandi eigi rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi 13. gr. a. laga nr. 95/2000 þannig að til greina komi að beita heimildarákvæði 12. mgr. 19. gr. laganna í tilviki kæranda. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. janúar 2021, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta