Íslensku menntaverðlaunin 2021
Markmið verðlaunanna er að efla menntun og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
„Hér á landi er kraftmikið og fjölbreytt skólastarf. Við erum með ótrúlega öflugt fólk í menntakerfinu, sannkallaða eldhuga og brautryðjendur, og það skiptir sköpum að geta verðlaunað og hrósað fyrir gott og gjöfult starf á sviði menntamála. Ég óska verðlaunahöfum þessa árs hjartanlega til hamingju og hvet alla áhugasama til þess að senda inn tilnefningar næsta haust,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
• Í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur hlaut leikskólinn Aðalþing í Kópavogi verðlaunin fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti.
• Í flokknum framúrskarandi kennari hlaut Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari við Klettaskóla, verðlaunin fyrir framúrskarandi kennslu nemenda með fötlun, meðal annars fyrir að þróa nýjar leiðir til tjáskipta.
• Þróunarverkefni um leiðsagnarnám hlaut verðlaunin í þeim flokki en því veitir forstöðu verkefnisstjórinn Nanna Kristín Christiansen. Það verkefni er af mörgum talið eitt öflugasta og áhrifamesta starfsþróunarverkefni sem sett hefur verið af stað í skólum Reykjavíkurborgar.
• Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna hlaut að þessu sinni Vöruhúsið – miðstöð skapandi greina á Hornafirði en Vilhjálmur Magnússon veitir því forstöðu. Vöruhúsið er einstakur vettvangur til kennslu nýsköpunar, list- og verkgreina á öllum skólastigum. Þar er boðið upp á formlegt og óformlegt nám í handverki, hönnun og hugmyndavinnu þar sem lögð er áhersla á þverfagleglega samvinnu.
Að verðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Sjá nánar á vefnum Skólaþróun.is.