Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Rekstrarafkoma ríkissjóðs árið 2019 jákvæð um 42 ma. kr.

Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2019 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Samkvæmt ríkisreikningi var rekstrarafkoman jákvæð um 42 ma.kr til samanburðar við 84 ma.kr. afgang árið 2018. Tekjur námu samtals 830 ma.kr. og rekstrargjöld 809 ma.kr. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 57 ma.kr. en hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins jákvæð um 78 ma.kr.

„Á árinu 2019 leið að lokum lengsta hagvaxtarskeiðs Íslands sem varði samfellt í níu ár. Hraður vöxtur ferðaþjónustu átti stóran þátt í uppganginum. Á þessu tímabili sýndu stjórnvöld þá fyrirhyggju að styrkja mjög fjárhag hins opinbera með ábyrgri fjármálastefnu. Skuldir ríkissjóðs voru lækkaðar hröðum skrefum. Samið var um uppgjör á umtalsverðum hluta  lífeyrisskuldbindinga ríkisins og umfangsmikið lánasafn opinbera húsnæðislánakerfisins tekið til úrvinnslu. Samhliða góðri afkomu undanfarin ár reyndist einnig kleift að gera margvíslegar umbætur í skattkerfinu og veita verulegum fjármunum til að treysta velferðarkerfið og innviði landsins. Efnahagsreikningur ríkissjóðs fyrir árið 2019 ber þess glögg merki að ríkið er vel í stakk búið til að geta tekið á sig ágjöf, sem sést m.a. á því að í lok ársins var skuldahlutfall ríkissjóðs orðið lægra en nokkru sinni síðan 2008 og vel innan marka samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál.“ segir fjármála- og efnahagsráðherra. 

Afkoma ársins samkvæmt hagskýrslustaðli lakari en áætlun

Þegar afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er borin saman við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga er það gert á grunni hagskýrslustaðals (GFS). Á þeim grunni er heildarafkoma ríkissjóðs árið 2019 neikvæð um 39 ma.kr. sem er um 24 ma.kr. lakari afkoma en endurskoðuð áætlun ársins gerði ráð fyrir. Fjárlög ársins 2019 gerðu ráð fyrir að heildarafkoma yrði jákvæð um 29 ma.kr. 

Efnahagsreikningurinn tók umtalsverðum breytingum í ársbyrjun 2017, þegar m.a. var farið að eignfæra varanlega rekstrarfjármuni, og gefur hann nú góða heildarmynd af eignum, skuldum og eiginfjárstöðu ríkissjóðs. Heildareignir í árslok 2019 voru 2.355 ma.kr., skuldir 1.947 ma.kr og eigið fé 408 ma.kr. sem er lækkun um 205 ma.kr. en það skýrist að stærstum hluta af innleiðingu á breyttum reikningsskilum.

Traust fjárhagsstaða gerir ríkissjóði kleift að verja grunnstoðir samfélagsins og tryggja öfluga viðspyrnu 

Á fyrstu mánuðum ársins 2019 voru þegar blikur á lofti í efnahagsumhverfinu. Ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins, ferðaþjónustan, varð fyrir verulegum búsifjum með falli annars af tveimur millilalandaflugfélögum landsins. Í kjölfarið fjaraði undan vexti greinarinnar og allnokkur fækkun ferðamanna var í augsýn. Þess sá fljótt stað í minni efnahagsumsvifum og auknu atvinnuleysi og einkennist versnandi afkoma ríkissjóðs sem fram kemur í ríkisreikningi ársins að miklu leyti af beinum og óbeinum áhrifum af þessum völdum. 

„Ein helsta áskorun stjórnvalda framundan er að skapa góð skilyrði fyrir efnahagsbata og nýtt hagvaxtarskeið. Áhersla verður lögð á  arðbærar fjárfestingar, menntun, auknar grunnrannsóknir og nýsköpun sem gera Íslandi kleift að vaxa út úr þessum tímabundnu efnahagsþrengingum. Einnig þarf að bæta nýtingu fjármuna og auka skilvirkni og framleiðni hjá hinu opinbera. Svigrúm ríkissjóðs til að auka við skuldir sínar gerir stjórnvöldum betur kleift að verja grunnstoðir samfélagsins og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf án þess að fórna sjálfbærni opinberra fjármála“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings.

Ríkisreikningur 2019

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta